27.10.2007 | 16:45
Að breyta orðabók
Illugi Jökulsson skrifar pistil í 24 stundir sem hann nefnir "Að breyta bók". Þar heldur hann því fram að "þýðendur Biblíunnar hafi vísvitandi breytt frumtextanum vegna þess að í íslensku þjóðkirkjunni nennir enginn lengur að trúa á meyfæðinguna" og á þá við að í nýju þýðingunni er gríska orðið "monogenes" ekki lengur þýtt "eingetinn" heldur "einkasonur".
Illugi er heldur ekki lengi að sjá samsæriskenningu í því athæfi þýðingarnefndar Biblíunnar að þýða gríska orðið "adelfoi" með "bræður og systur" í staðinn fyrir "bræður" og segir það sögufölsun.
Í fórum mínum er grísk-ensk orðabók "An Intermediate Greek-English Lexicon" gefin út í Oxford og ætti að vera hægur vandi fyrir góða grískumenn eins og Illuga - sem er jafnvel enn betur að sér um gríska tungu en þýðingarnefndin - að nálgast hana eða önnur þvílík rit.
Þar stendur um "monogenes":
"only-begotten, single"
Við orðið "adelfoi":
"brother and sister"
Virðist fokið í flest skjól fyrir Illuga sem þó er þjóðkunnur fyrir þýðingar sínar úr grísku.
Ekki nema að orðabókin sé hreinlega vitlaus.
Eða þá að Þjóðkirkjan hafi beitt sér fyrir breytingum á henni líka?
(Vilji menn lesa meira um "monogenes" er ágæt umfjöllun um hugtakið hér.)
Athugasemdir
Hvað segir orðabókin að orðið 'doulos' þýði? Illugi segir að það þýði þræll.
Hjalti Rúnar Ómarsson, 27.10.2007 kl. 18:32
Hvernig er nýja þýðingin á annari Móses bók 32:27-29? En orðið bræður kemur doltið við sögu þar.
Það eru allskonar þýðingar í gangi á netinu og ég hef ekki aðgang að nýju Biblíunni.
Gunnar Friðriksson (IP-tala skráð) 27.10.2007 kl. 23:51
Líklega er það stærri fórn, að gefa einkason sinn en eingetinn.
Júlíus Valsson, 28.10.2007 kl. 14:01
Ég er reyndar ekki með orðabókina sem Svavar er með en doulos getur þýtt bæði þræll og þjónn og þýðingin þjónn er algeng þýðing í NT grísku, t.d. í Biblíunni frá 1912 í Matt. 24:45 og í sögunni um Talenturnar Matt. 25nn. (og þessari merkingu er haldið í nýju þýðingunni).
Illugi tilgreinir engan stað svo að ég veit ekki á hvaða stað honum þótti þýðingin þræll eiga betur við.
Adda Steina (IP-tala skráð) 28.10.2007 kl. 14:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.