Bernskuþjófar

okutimarLeikritið "Ökutímar" er á fjölunum hjá Leikfélagi Akureyrar. Það er ískyggilegt.

Fullorðinn maður dregur stúlku á tálar. Fer samt aldrei lengra en hún leyfir.

Barnið þurfti ekki annað en að segja stopp.

Barnið sagði það ekki því það kunni ekki að segja stopp.

Börn eiga heldur ekki að þurfa að stoppa fullorðið fólk. 

Suma heyri ég halda því fram að ekki eigi að skíra börn því að börnin eigi að fá að velja sjálf.

Eiga börn að velja sjálf?

Eiga þau ekki miklu frekar heimtingu á að þurfa ekki að velja sjálf? Er það ekki réttur barna að við, fullorðna fólkið, kennum þeim og höfum vit fyrir þeim?

Börn alast aldrei upp í einhverju siðferðistómarúmi. Þau svífa ekki um í andlegu þyngdarleysi. Hlutlaust uppeldi er ekki til - nema þá kannski sem afsökun fyrir vanrækslu og áhugaleysi.

Börn verða fyrir áhrifum. Þau mótast. Þau læra það sem fyrir þeim er haft.

Við þurfum að taka ákvarðanir fyrir börnin okkar. Við þurfum meira að segja að taka óvinsælar ákvarðanir fyrir þau.

Fullorðinn einstaklingur sem getur tekið sjálfstæðar ákvarðanir sér og öðrum til heilla dettur ekki af himni ofan.

Slík manneskja hefur alist upp hjá elskandi foreldrum, lært af skynsömum kennurum og mótast af góðum fyrirmyndum.

Og hefur fengið að vera barn meðan þörf var á því.

Eða eigum við að láta nægja að afhenda unglingnum lyklana að bílnum og segja:

"Þú lærir þetta best sjálfur."

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Helstu bernskuþjófar allra tíma eru skipulögð trúarbrögð!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 24.11.2007 kl. 21:01

2 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Sæll Svavar! 

 Mér þykir presturinn minn hætta sér hér á hálan ís í samlíkingum, ef ég skil rétt það sem hér er verið að fara!

Kristján H Theódórsson, 24.11.2007 kl. 22:26

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Með skírninni eru börnin vígð inn í trúarhóp sem þau verða kannski andvíg þegar þau verða stór en geta ekki rofið þetta skírnarheit eins og dæmið með Helga Hóseasson sannar. Þetta er vægt ofbeldi. Allt öðru máli væri að gegna ef hægt væri að rjúfa skírnarsáttmálann. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 24.11.2007 kl. 22:38

4 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Anna: Svona upphrópanir segja ósköp lítið. Þær tjá í besta falli óvild þína í garð Þjóðkirkjunnar, sbr. fyrri athugasemdir þínar. Ég bið þig að fá þína útrás á þínu eigin bloggi framvegis. Boxpúði með mynd af presti gæti líka dugað.

Kristján: Skautamönnum líður ágætlega á hálum ís - en ég held að þú þurfir samt að útskýra þetta betur.

Sigurður: Verði skírð börn afhuga kristni segja þau einfaldlega skilið við hana. Þau geta líka sagt sig úr Þjóðkirkjunni ef þau vilja þegar þau hafa aldur og þroska til. Í skírninni tóku foreldrar vissulega ákvörðun fyrir barnið sitt - eina af mörgum sem þeir þurftu að taka fyrir það meðan það var barn.

Barnið þarf ekki og getur ekki ógilt ákvörðun sem það ekki tók, nefnilega þá að það skyldi alið upp sem kristinn einstaklingur. Þetta hefur ekkert með ofbeldi að gera og það er aðeins orðhengilsháttur að tala um að ógilda þurfi skírnarheitið með einhverjum formlegum hætti.

Líkt og að segja að það nægi ekki fyrir konu að skilja við karlinn sinn, hún þurfi að afgifta sig líka og ógilda með einhverri sérstakri athöfn heitið sem hún gaf eiginmanni sínum - fylla út eyðublaðið "Ógilding á hjúskaparheiti". Þess þarf að sjálfsögðu ekki ekki. Hún skilur bara við hann - líkt og einstaklingur ákveður að ganga af trúnni eða og segja skilið við trúfélag með formlegum hætti.

Ákveði konan að gifta sig aftur gerir hún það ekki sem ógift kona. Þótt hún sé fráskilin var hún gift og er því að gifta sig í annað sinn. Þessa fyrri giftingu er ekki hægt að taka aftur að því leyti

Skírt barn sem gengur af trú sinni getur ákveðið að skírnin hafi ekkert gildi fyrir það en það breytir því ekki að foreldrar þess ákváðu á sínum tíma að skíra það, hvaða augum sem það kann að líta þá ráðstöfun.

Svavar Alfreð Jónsson, 24.11.2007 kl. 23:25

5 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Svavar!

Þú segir m.a. í þinni hugvekju! "Barnið þurfti ekki annað en að segja stopp.

Barnið sagði það ekki af því að það kunni ekki að segja stopp."

Í framhaldinu kemur hugleiðing sem ég skil þannig að þú teljir rétt að við tökum völdin af barninu okkar og látum skíra það til kristinnar trúar þótt það hafi ekki möguleika á að gera sér grein fyrir þýðingu þess gjörnings!

Ég ætla ekki að leggja að jöfnu ýmsa kynferðislega misnotkun á barnungu fólki og það að plata það ómálga inn í einhvern trúarsöfnuð sem það hefur ekki séns á að átta sig á hvort það geti fundið sig í.

 Spyrja má samt, hvað liggur svona á ?

Þetta getu orkað mjög tvímælis, þar sem trúfrelsi er í landinu og ekki er óvéfengjanlegt að ein trúarbrögð fremur en önnur séu þau réttu, eða að trúarbrögð séu yfirleitt réttlætanleg!

Að sjálfsögðu er hægt að ala börnin okkar upp með góð siðferðisviðmið án þess að hengja það á einhver trúarbrögð!

Landslög eiga að geta orðið okkur öllum nógur vegvísir til góðrar hegðunar!

Kristján H Theódórsson, 25.11.2007 kl. 01:02

6 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Kristján, þarna eru nokkrar fullyrðingar sem ég skil ekki og eru undarlega orðaðar, svo ekki sé meira sagt. Ungbarn gerir sér ekki grein fyrir eigin skírn, en foreldrar þess eiga að gera það. Með því að skíra barn sitt eru þeir að skuldbinda sig til að ala það upp í kristinni trú. Barnaskírn er ekki einhver samingur við barnið, eins og sumir halda. Trúarlegt uppeldi hefst snemma því lengi býr að fyrstu gerð og börn fara svo mjög ung að gera sér grein fyrir þýðingu þess að þau eru skírð - þvert á það sem þú segir.

Enginn lagði að jöfnu kynferðislega misnotkun og barnaskírn í pistli mínum tók ég skírnina sem dæmi um ákvarðanir sem við tökum fyrir börn okkar. Þú ert svo smekklegur, Kristján, að segja að þeir foreldrar sem ákveða að ala börn sín upp í kristilegu siðferði og kenna þeim bænir og vers séu að plata þau! Það álit þitt skýrist kannski af þeim ummælum að ef til vill séu trúarbrögð ekki réttlætanleg?

Vissulega er trúfrelsi í landinu en foreldrar hafa líka frelsi til að kenna börnum sínum það sem þeir telja réttast og heillavænlegast.

Og að lokum: Enginn kennir barninu sínu góða hegðun með lagasafninu. Stundum geta líka lög í landi verið í bága við gott siðferði - eins og dæmin sanna.

Svavar Alfreð Jónsson, 25.11.2007 kl. 10:42

7 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Þessi pistill er vel orðaður og skynsamlegur. Reyndar er ég sammála honum. Hvernig get ég verið annað en sammála þegar ég lét skíra bæði börnin mín og hefði ekki viljað hafa það neitt öðruvísi. Vegna þess að ég trúi. Trúi allavega á æðri mátt. Segi gjarnan að ég trúi á Guð. En sá Guð sem ég trúi á er ekki alltaf eins og kirkjunnar menn segi að hann sé. En það skiptir ekki máli.

''Fullorðinn einstaklingur sem getur tekið sjálfstæðar ákvarðanir sér og öðrum til heilla dettur ekki af himni ofan''.

Þetta er auðvitað rétt, til hvers værum við annars að rembast í uppeldishlutverkinu. Í stuttu máli: mér finnst sjálfsagt að við látum skíra börnin okkar ef það er okkar trú og sannfæring. Skiptir ekki máli hvað barnið/unglingurinn/einstaklingurinn aðhyllist eða aðhyllist ekki seinna í lífinu.  

Jóna Á. Gísladóttir, 25.11.2007 kl. 12:54

8 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Þakka þér fyrir þetta, Jóna. Eigum við ekki að þakka Guði fyrir það að hann er yfirleitt miklu merkilegri og meiri en við kirkjunnar menn segjum að hann sé?

Svavar Alfreð Jónsson, 25.11.2007 kl. 13:55

9 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Takmarkaður þykir mér skilningur prestsins .

 Sé ekkert í minni orðræðu sem er torskilið.  Spyrja má hvort við höfum eitthvert leyfi í nútímanum til að hefja trúarlega innrætingu á ungum börnum okkar . Er sjálfur uppalinn við kristinn sið ,þar sem slíkt þótti eðlilegt innan hóflegra marka, og lét skíra mín börn  ,og ætla rétt að vona að þau hafi ekki hlotið skaða af. Verð að játa að ég var ekki mjög duglegur að innprenta þeim guðs orð. Get samsinnt því að skírnin sem slík er í sjálfu sér falleg athöfn sem vonandi skaðar engan. 

Það sem ég er að segja ,og þú telur ósmekklegt, að foreldrar séu að plata börnin sín með kristilegu uppeldi, þá er þetta nokkuð sem ég er farinn ð hugleiða í seinni tíð. Hvort trúarbrögð sem slík og með þeim hætti sem þau eru í framkvæmdinni og í ljósi allra þeirra hatrömmu átaka sem hafa gengið yfir heiminn á grundvelli þeirra, hvort þau geti talist mannkyni til heilla.

Fyrir mér er guð, núorðið, táknmynd hins góða í heiminum, en ekki einstök vera eða andi sem við föllum fram og tilbiðjum. Kristur kom sem siðbótarmaður inní veröldina og freistaði þess að leiða menn úr þeim villum sem æðstuprestar og farísear höfðu komið guðstrúnni í. Við getum að sjálfsögðu stuðst við hans leiðsögn í siðferðilegum efnum og sem vegvísi hvernig við komum fram við náungann. Til þess þurfum við ekki allar þær serimoníur trúarbragðanna sem viðhafðar eru í dag!

Kannske er umdeilanlegra með hvaða hætti kirkjan telur rétt að hefja innprentun siðarins hjá börnum og unglingum sem vart eru búin að ná áttum í lífinu.  Spuring að fresta fermingunni , sem er jú staðfesting skírnarsáttmálans, að unglingurinn vilji áfram feta á Guðs vegum að kristnum hætti, þangað til hinn skírði einstaklingur getur sem lögráða beðið um þá athöfn að eigi frumkvæði!

Ef eitthvað er í lagasafninu sem fer í bága við gott siðferði, hvað þá með biblíuna? Það sem ég hef gegnum hana flett þótti mér ekki allt kræsilegt . Verð reyndar að játa mig lítt lesinn í þeim fræðum, enda lít ég á hana sem  mannanna verk að sjálfsögðu!

Kristján H Theódórsson, 25.11.2007 kl. 23:16

10 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Kristján, það eru hreinlega viðurkennd mannréttindi að fá að ala upp börnin sín og kenna þeim það sem maður telur réttast og best. Ekki bera nú trúarbrögðin ábyrgð á öllum hatrömmum átökum í veröldinni og ég er viss um að það kristilega uppeldi, sem þú talar um að þú hafir fengið, hafi ekki verið fólgið í því að æsa þig upp í einhverjum stríðsanda. Við erum sammála um að hægt sé að styðjast við leiðsögn Krists í siðferðilegum efnum. Í pistlinum mínum bendi ég á að börn, sem ekki eru búin að ná áttum, þurfa leiðsögn og það er okkar, hinna fullorðnu, að veita hana. Hjálpa þeim að ná áttum. Heilbrigður kristindómur er ein leið til þess.

Svavar Alfreð Jónsson, 26.11.2007 kl. 08:29

11 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

það eru hreinlega viðurkennd mannréttindi að fá að ala upp börnin sín og kenna þeim það sem maður telur réttast og best

Presturinn veit vel að á þessu er takmörk, mannréttindi foreldra víkja alltaf fyrir réttindum barna. 

Hvað í andskotanum er svo heilbrigður kristindómur?

Matthías Ásgeirsson, 26.11.2007 kl. 13:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband