Sjoppun tilverunnar

shoppedKaupalausi dagurinn er nýliðinn og styttist í daga kaupæðisins. Í hittifyrra keypti ég bókarkorn úti í Englandi í. Sú heitir Shopped. The Shocking Power of British Supermarkets (ISBN 0 00 715804 1) og er eftir enska blaðakonu, Joanna Blythman.

Eins og nafnið gefur til kynna fjallar höfundur þar um verslunarhætti nútímans og finnur þeim ýmislegt til foráttu. Margt í bókinni á við um það sem er að gerast hér á landi.

Blythman segir mollavæðinguna hafa eyðilagt litla og krúttlega miðbæi enskra borga sem gjarnan iðuðu af menningu. Í þeirra stað koma ópersónlegar ofurbyggingar og gerfiveraldir umkringdar hryllilegum bílastæðum.

Stóru verslanirnar, þar sem öllu ægir saman, gerðu út af við hornkaupmennina. Þeir voru kannski ofurlítið dýrari en aðrir en vissu yfirleitt hvað þeir voru að selja. Stundum þekktu þeir kúnnana svo vel að þeir vissu hvað þeir áttu að kaupa líka.

Stóru verslanirnar eru með ódýra starfskrafta, gjarnan óreynda. Ég hef lent í því hér á Akureyri að stúlka í kjötborði stórverslunar vissi ekki hvað kótilettur voru. Framundan eru erfiðar tímar fyrir kótilettukarla landsins.

Blythman heldur því einnig fram að stórverslanamenningin geri okkur ónæm á árstíðirnar. Verslanirnar keppast við að bjóða okkur allt á öllum tímum. Rjúpur fást m. a. s. frameftir sumri. Spurning hvenær verður byrjað að bjóða rauðmaga, hrogn og lifur allt árið um kring. Þá er sá blessaði fyrsti fyrirboði vorsins búinn að vera.

Samkvæmt bókinni kaupum við of mikið inn í einu í stóru búðunum. Þar liggja frammi alls konar ómótstæðileg tilboð sem við freistumst til að grípa með, pakkamatur og kex á niðursettu verði. Einu sinni í mánuði förum við svo í gegnum skápana okkar og hendum úr þeim matvælum sem eru útrunnin. Peningarnir sem við töldum okkur hafa sparað með því að gera innkaupin í lágvöruverslunum lenda í ruslatunnunni.

Blaðakonan breska mælir með því að við kaupum inn upp á gamla móðinn þegar börnin voru send í kaupfélagið að kaupa tólfhundruð grömm af kjötfarsi og eitt smjörlíkisstykki. Svo voru steiktar kjötbollur. Við eigum að kaupa minna og kaupa í minni búðum líka. Kjötið hjá kjötsölum, grænmeti hjá grænmetissölum og fisk hjá fisksölum. Nýta sérþekkingu þeirra.

Hann Yngvi minn í Hafnarbúðinni þraukar enn hér á Akureyri, einn fárra hornkaupmanna landsins. Búðin hans heitir reyndar Hólabúðin núna út af soltlu. Yngvi er alltaf sami öðlingurinn. Fyrir nokkru skrapp ég inn til hans og ætlaði að fá hann til að skipta í stöðumæli. Þurfti að koma bréfi í póst og var bara með hundraðkall.

Ákvað svo að sennilega væri alltaf verið að kvabba í Yngva með svona skiptingar og ætlaði að kaupa af honum eldspýtur.

Yngvi sagði að ég væri svo dj... sætur í dag að hann ætlaði að gefa mér kveikjara merktan Hólabúðinni.

Ég gafst ekki upp og sá rommí uppi í hillu á 75 kr. stykkið. Bað hann að selja mér eitt og greiddi fyrir með hundraðkallinum mínum. Sá fram á að hafa góðan afgang í stöðumælinn.

Þegar Yngvi sá peninginn sagði hann:

"Þú ert nú svo andsk... sætur í dag að þú færð tvö rommí fyrir hundraðkallinn!"

Ég yfirgaf Hólabúðina með kveikjara og tvö rommí. Stöðumælasekt virtist óumflýjanleg.

Svona eiga kaupmenn að vera.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Viðar Hilmarsson

Guð forði okkur frá kjötfarsi og smjörlíki!

Helgi Viðar Hilmarsson, 27.11.2007 kl. 19:13

2 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Tek undir það með Helga Viðari!

Það er margt til í því sem þú segir um verslunarhætti nútímans. Oftast mætir maður nú góðu viðmóti og þjónustulund í stórverslunum sem öðrum, þó það sé rétt hjá þér að það skortir stundum á að ungt afgreiðslufólk kunni skil á vörunni sem það á að selja.  En það er miklu frekar að lélegar verðmerkingar pirri mig í búðum, ég nenni hreint ekki að leita að verði vörunnar út um allt og enn síður kaupi ég eitthvað sem ég veit ekki hvað kostar - það að hilluverði og kassaverði beri ekki saman er kapítuli út af fyrir sig...

Það verður að segjast að litli miðbærinn okkar hér í Reykjavík er ekki mjög krúttlegur í roki og rigningu, hvað þá hríð, þó þar sé gaman á Þorláksmessukvöld í frosti og stillu. Sá er þó gallinn við það að þess heldur flykkist þangað það kvöld alltof margt fólk í sömu hugleiðingum! Miðbær Reykjavíkur á venjulegum frostköldum vetrardegi getur verið yndislegur og eins er gaman að spássera þar á hlýjum sumardegi.

Með árunum hefur mér reyndar farið að finnast Kringlan bara nokkuð krúttleg, þó mér þætti hún hræðilega kuldaleg í byrjun. Þangað fara fatlaðir mikið til að versla og ég þekki gamalt fólk sem fer þangað að vetri til gagngert til að fara í gönguferðir þar sem það er óhult fyrir hálku á ísi lögðum gangstéttum. Svo "mallið" það er ekki alvont.

Hins vegar er ég ekki hrifin af Smárahvaðheitirþaðnúaftur-mallinu.

Greta Björg Úlfsdóttir, 27.11.2007 kl. 21:27

3 identicon

Dásamleg saga...skellihló...takk fyrir það :D 

Bý reyndar í UK og nýt þess að versla ....jafnt í mollum sem miðbæjum

Þóra Jóns (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 22:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband