Jólakort á kortajólum

 
070104-christmas[1]

Af forsjálni ég fyrirbyggi skort

með fjármagn rúmt og góðan höfuðstól

og hef til reiðu öll mín kreditkort

svo keypt ég geti efnishyggjujól.

 

Í búðarhillu sé ég góða gjöf

og greiðsluna á Vísarað ég set

því þannig næst á skuldaskilum töf

og skrimt til vors með naumindum ég get.

 

Mitt hangilær ég kaupi út á krít

og klæðin ný á afborgunum fæ.

Þótt sífellt aukist eyðslu minnar hít

ég upp í geð á skuldunautum hlæ.

 

Og þegar heimild hver er nýtt í topp

og hækkun yfirdráttar vonlaust mál,

þá loksins fæ ég frið í lúinn kropp

og fróun minni kröfuhörðu sál.

 

Svo klingja bjöllur, klukkan verður sex,

við kyrjum sálminn góða "Heims um ból",

þá óróleikinn innra með mér vex

því enn ég skulda síðastliðin jól.

 

 

SAJ


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtileg vísa um VISA og vel ort eins og við er að búast! En hlær ekki skuldarinn að lánadrottnum - frekar en skuldunautum..? Eða er ég að miskilja? Með kærum bw.kveðjum! Skúli

Skúli S. Ólafsson (IP-tala skráð) 16.12.2007 kl. 18:26

2 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Það er miklu meira kúl að hlæja upp í opið geðið á skuldunuautum en lánadrottnum. Þá er iðrunarleysið algjört.

Svavar Alfreð Jónsson, 16.12.2007 kl. 19:06

3 identicon

Finnst þú ættir að endurskoða þetta! Sé ekki alveg lógíkina.

Ef þetta verður jólasálmur í sálmabók 21. aldarinnar mun ég leggja út af þessu einhvern tímann í jólapredikun. :>)

Skúli S. Ólafsson (IP-tala skráð) 16.12.2007 kl. 19:54

4 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Lógíkin gæti verið: Ég ber mig svo vel og er svo forhertur að ég finn ekki einu sinni til með þeim sem eru í sama skítnum og ég. Hitt er bara fyrirsjáanlegt. Ég á síður von á að þetta kvæði komist í sálmabókina en færi vel á því að flytja það landsins skuldunautum og yfirdráttarkvígum. 

Svavar Alfreð Jónsson, 16.12.2007 kl. 21:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband