Óþjóð

Þjóðir eiga undir högg að sækja. Þær eiga í erjum og gengur illa að búa saman.

Ekki eru menn á einu máli um hvað geri þjóð að þjóð. Því er meira að segja haldið fram að þjóðir séu ekki til.

Þjóðir eru til bölvunar og þjóðernissinnar eru vandræðamenn.

Sumir sjá fyrir sér heim án þjóða.

Eiga sér draumsýn um heim án landamæra, eina alþjóðlega menningu og eina heimstungu.

Væri spennandi að ferðast um slíka veröld?

Stundum finnst manni að sumir talsmenn fjölmenningarhyggjunnar vilji í raun einhvers konar einmenningarhyggju. Flata og litlausa veröld.

Óþjóð er það sama og illþýði og skríll í íslenskum orðabókum.

Ef til vill er það vísbending um ástandið í þjóðlausri veröld?

Fjölmenning er það kallað þegar ólíkir hópar geta búið saman í sátt og samlyndi.

Misvel gengur að koma á slíkum samfélögum.

Til þess að mismunandi menningarhópar geti þrifist friðsamlega í einu samfélagi þurfa þegnarnir að sýna umburðarlyndi og tillitssemi.

Tjáningarfrelsið er einn af hornsteinum samfélags okkar. Það verður þó að nota af ábyrgð eins og annað frelsi.

Ég er ekki sannfærður um að það sé í þágu fjölmenningar þegar tjáningarfrelsinu er beitt til þess eins að vanvirða það sem öðrum er heilagt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Mönnum getur nú þótt ýmislegt heilagt og upplifað gagnrýni á það sem vanvirðingu.

Es. Óhætt er að segja að allar sjálfstæðishetjur Íslendinga hafi verið þjóðernissinnar. Voru þeir vandræðamenn?

Hjörtur J. Guðmundsson, 18.2.2008 kl. 00:39

2 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Sammála þessu sem þú segir í pistlinum, Svavar.

Aldeilis þykir mér Hjörtur gera skammarlega lélega tilraun til að snúa út úr orðum þínum. 

Greta Björg Úlfsdóttir, 18.2.2008 kl. 00:45

3 Smámynd: Ingólfur

Málfrelsið er eitt af grundvallarréttindum okkar en ég tel það rangt að nota það til þess eins að ögra öðrum, en það er ekki bannað.

En oft er þetta ekki spurning um það hvað er sagt, eða birt, heldur í hvaða tilgangi.

Varðandi teiknimyndamálið að þá sá ég engan tilgang með upphaflegu birtingunni annan en þann að ögra múslimum.

Hins vegar var endurbirting einnar myndarinnar núna skýr yfirlýsing um að ofbeldi verði ekki leyft að ritstýra neinu í Danmörku.

Á birtingunum sé ég þess vegna megin mun þó að um sama efni sé birt.

En varðandi þjóðernishyggjuna að þá var ég eitt sinn á því að það ætti við þá sem væru stoltir af sinni þjóð og því sem hún gerði vel, án þess að gert væri lítið úr öðrum þjóðum eða að halda skyldi eitthverji einangrun þjóða.
Og miðað við þessa merkingu að þá gat ég vel  verið þjóðernissinni.

Þetta orð hefur í dag hins vegar allt aðra og neikvæðari merkingu og því lýsi ég eftir öðru orði yfir þetta.

Og þar sem við erum að tala um þjóðir að þá er tilvalið að vitna í "þjóð"sönginn eftir Huldu (hann fjallar allavega um þjóðina)

Hver á sér meðal þjóða þjóð,
er þekkir hvorki sverð né blóð
en lifir sæl við ást og óð
og auð, sem friðsæld gaf?
Við heita brunna, hreinan blæ
og hátign jökla, bláan sæ,
hún uni grandvör, farsæl, fróð
og frjáls - við ysta haf.

Ingólfur, 18.2.2008 kl. 12:18

4 Smámynd: Auðun Gíslason

Þessi endurbirting teiknimyndanna í Danmörku minnir svolítið á fólkið sem æddi af stað á Holtavörðuheiðina ófæra og í óveðri.  Ég skal samt!  Á hinn bóginn, og það er mín skoðun, að ef ekki er hægt að eiga vitræna samræðu við fólk, og ef þetta sama fólk getur ekki fellt sig við þau grundvallargildi sem viðkomandi þjóðfélag grundvallast á, þá á einfaldlega að senda það úr landi.  Og hafi það öðlast ríkisborgararétt í nýja landinu, þá á að svipta það fólk þeim borgararéttindum! 

Auðun Gíslason, 19.2.2008 kl. 20:37

5 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Auðunn, svo einföld lausn sem að senda fólk úr landi þar sem á þar borgararétt, eða hefur fengið fullgilt dvalarleyfi, án þess að það hafi brotið af sér gagnvart landslögum, heldur aðeins vegna trúar þeirra, skoðana eða lifnaðarhátta, væri gróft brot á tjáningar- og túfrelsi, og þar með brot á þeim mannréttindum sem lýðræði grundvallast á. Skilurðu?

Tjáningarfrelsi er fyrir alla menn, líka fyrir þá múslima sem mótmæla birtingu skopmyndanna! Eða finnst þér hægt að ætlast til að þeir þegi þunnu hljóði og haldi sér saman, ef þeim finnst brotið á móti því sem trú þeirra boðar, að þeirra áliti að sé rangt? Athugaðu að þetta er þeirra trú, ekki okkar (ég geri ekki ráð fyrir að þú sért múlsimi?) Hvað eigum við þá að vera að abbast upp á hana, mega þeir ekki hafa hana í friði, svo lengi sem það sem framkvæmt er í hennar nafni brýtur ekki á móti löggjöf þess lands sem þeir búa í? Því auðvitað ber að taka á slíku, um það geta allir verið sammála. Ég held að það sé nógu margt sem fólk sem flytur til norðlægs, vestræns ríkis frá öðrum löndum þurfi að breyta í sínum háttum og hugsunarhætti, þó ekki bætist við að við förum fram á að það hvort tveggja, gefi afslátt á trú sinni og noti sér ekki tjáningarfrelsi sitt. Mundu að þegar þessu fólki hefur verið veitt leyfi til að setjast að í vestrænum löndum hefur það hingað til  ekki verið gert að skilyrði að það turnaðist til kristni.

Greta Björg Úlfsdóttir, 19.2.2008 kl. 21:30

6 Smámynd: Auðun Gíslason

Það er nú þannig, að menn vilja réttlæta ýmsar gerðir sínar með trú sinni.  Ég var ekki að tala um að senda fólk úr landi, sem hegðar sér eftir lögum,reglum og venjum samfélagsins.  Trú sína eiga menn að sjálfsögðu að vra frjálsir að að stunda.  Og mótmæla þegar þeim finnst að sér vegið með einhverjum hætti.  En það verður ekki við það unað, finnst mér, að einhver hluti samfélagsins fari með eldi um samfélagið og heimti jafnvel sérlög fyrir sig og sína.  Mér er sama hvort það eru Sharía-lög eða laga- og reglubálkar byggðir á Torah!  Á blogginu mínu hef ég skrifað gegn racisma.  Ég vil bæta því við að við eigum að sjálfsögðu að virða trú annarra;  aðgát skal höfð í nærveru sálar!  Þessar myndbirtingar á Jyllandsposten eru að mínu mati kjánalegar, en sú síðari keyrir um þverbak.  Einsog ég hélt ég hefði lýst nógu skilmerkilega með samlíkingunni!  EN það, og mér er sama hver á í hlut, að rjúka upp með íkveikjum, sprengitilræðum af hvaða ástæðu sem er, er óásættanlegt!  Jafnvel þó maður hafi samúð með skoðunum þessa fólks.  Dæmi:  Baader-Meinhof höfðu skoðanir sem hægt var að hafa samúð með og jafnvel var maður sömu skoðunar.  Svo sem um illsku hins kapítalíska skipulags með öllu sínu misrétti og arðráni, en ég gat ekki fallist á aðferðir þeirra.  Mannrán og morð!  Sama er með atburði síðustu daga!  Ég get ekki fallist á aðferðirnar, en ég hef alla samúð með málstaðnum.  Ég virði trú þessa fólks og ýmsa siði.  En ég styð ekki þessar aðferðir, ekki frekar en að ég styðji dönsku pressuna í málinu. 

Auðun Gíslason, 19.2.2008 kl. 21:55

7 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Auðunn, ég bið þig um að lesa síðustu færslu mína í blogginu mínu, "Löggan á Norðurbrú", þá ættir þú að fá skýrari mynd af því sem var raunverulega að gerast þessa daga og nætur í Danaveldi. Ég á von á að þú verðir sammála því sem ég segi þar. Fjölmiðlar hafa nefnilega brugðist í þessu tilfelli og rangtúlkað atburðina, eins og nú er komið í ljós. Hverjum þar er um að kenna skal ég ósagt látið.

Greta Björg Úlfsdóttir, 20.2.2008 kl. 16:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband