24.2.2008 | 13:58
Hver skilur konur?
Vegna veislustjórastarfa þurfti ég að leita að bröndurum á netinu. Helst um konur.
Mikið framboð er af slíkum bröndurum, smekklegum og ósmekklegum, fyndnum og misheppnuðum, en einu tók ég eftir:
Oft er gert grín að því að ekki sé hægt að skilja konur.
Konur eru óskiljanlegar.
Þá liggur beinast við að spyrja:
Óskiljanlegar hverjum?
Auðvitað okkur körlunum.
Og ef okkur körlunum gengur svona illa að skilja konur geta verið tvær ástæður fyrir því.
Annað hvort eru konur ofboðslega dularfullar verur eða þá við karlarnir svo takmarkaðir að okkur er ómögulegt að skilja þær.
Annað hvort er það konum að kenna eða körlum.
Ég geri mér grein fyrir því að hæfileikum karlkynsins til að skilja hin ýmsu fyrirbæri eru miklar skorður settar. Ekki síst þegar í hlut eiga konur.
Engu að síður hallast ég að því að konur séu óskiljanlegar. Og ég leyfi mér að halda því fram að þannig eigi þær að vera.
Það sem gerir konurnar aðlaðandi er að maður botnar ekkert í þeim.
Sú manneskja sem ég tel mig þekkja mest og best er alltaf að koma mér á óvart.
Sem betur fer.
Myndin með færslunni er af málverki ítalska endurreisnarmálarans Raffaello Sanzio (Raphael), "La donna gravida".
Athugasemdir
Ég held að ENGINN skilji konur. Ekki einu sinni þær sjálfar. Allavega geri ég það ekki...
Gunnhildur Reynisdóttir (IP-tala skráð) 24.2.2008 kl. 21:22
Góð pæling. Ég hef unnið með mörgum konum og á fjölmargar vinkonur. Konur eru æði! Og það eru karlar líka. Held að ég skilji karlana sæmilega, ekki þó alveg sem betur fer.
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 25.2.2008 kl. 00:09
Er gömlu guðirnir ákváðu að skapa menn í sinni mynd, þá voru þeir ekki fyllilega ánægðir með árangur sinn. Þá skópu þeir Evurnar og allir voru nokk hressir. Eða hvað? ;)
Ásgeir Kristinn Lárusson, 25.2.2008 kl. 13:50
Mér finnst þetta nokkuð kynjuð færsla hjá þér. Þarna ertu að ýta undir staðalímyndir sem við viljum gjarnan vera laus við í samfélaginu. Þú hefur ákveðnar hugmyndir um karlmenn:
Og einnig ákveðnar hugmyndir um kvenmenn:
Mundu síðan að konur fæðast ekki konur heldur verða þær konur og ætli það sama eigi ekki við um karlmenn. Félagslegur tilbúningur og hlutverkaleikjum er þrönvað upp á okkur af því að við óttumst t.d. óheft frelsi - sem einn daginn leiðir okkur að sannleikanum.
Líf Magneudóttir, 26.2.2008 kl. 21:32
Ég gengst fúslega við því að skrifa kynjaðar færslur og tel að kvenfólk fæðist kvenfólk og karlfólk karlfólk.
Svavar Alfreð Jónsson, 26.2.2008 kl. 22:10
Já, og amen.
(Við síðustu athugasemdinni)
Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 27.2.2008 kl. 17:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.