Kjörlendi heigulsins

anonymusFriðrik Rafnsson gaf netheimum heitið sem er titill þessarar færslu.

Í grein sem hann ritaði í Morgunblaðið snemma árs 2006 segir hann:

"Vefurinn er ekkert annað en samskiptatæki. Þannig getur það stuðlað að því að bæta heiminn og auðga mannkynið. En á því er líka hægt að ljúga, níða, særa og meiða. Þetta virðist því miður vera vaxandi vandamál meðal ungs fólks, ekki síst þess sem notar sér bloggsíður til þess að skeyta skapi sínu á skólafélögunum sem þeim er einhverra hluta vegna illa við en hafa ekki manndóm í sér til að ræða við beint, bera út gróusögur eða eitthvað þaðan af lágkúrulegra.

Eins dapurlegt og það hljómar nú getur vefurinn, þetta frábæra upplýsingatæki, orðið að kjörlendi heigulsins í höndum þeirra sem ekki eru menn til að standa fyrir máli sínu. Því miður eru núlifandi andleg skyldmenni Gróu á Leiti ekki bara ungt fólk, heldur líka fullorðið, greint og hámenntað fólk."

Morgunblaðið gerði skuggahliðar netsins að umtalsefni í ritstjórnargrein 20. janúar í fyrra. Þar er fjallað um auglýsingaherferð á vegum AUGA, Góðgerðarsjóðs auglýsenda, auglýsingastofa og fjölmiðla sem átti að stuðla að bættum samskiptum á netinu. Vitnað er til orða Sverris Björnssonar, formanns AUGA, sem sagði fulla þörf vera á herferðinni "vegna þess að svo virtist sem tvöfalt siðgæði væri við lýði og að fólk hegðaði sér öðru vísi í samskiptum á netinu en í beinum samskiptum við annað fólk."

"Í herferðinni verður hamrað á fimm atriðum, sem hægt er að hafa að leiðarljósi og ættu að blasa við hverjum einstaklingi.

Í fyrsta lagi að allt sem einstaklingur geri á netinu endurspegli hver hann er,

í öðru lagi að hver einstaklingur eigi að koma fram eins og hann vilji að komið sé fram við sig,

í þriðja lagi að ekki eigi að taka þátt í neinu nema vita hvað sé á ferðinni,

í fjórða lagi að muna að efni, sem sett er á netið sé öllum opið, alltaf,

og í fimmta lagi að hver og einn beri ábyrgð á því, sem hann segi og geri á netinu."

Að lokum vitna ég í niðurlag ritstjórnargreinar Morgunblaðsins frá 14. febrúar árið 2006:

"Í samfélaginu tíðkast tilteknar samskiptareglur sem byggjast á gagnkvæmri virðingu og háttsemi. Þeim reglum á ekki að sleppa þegar á netið er komið og Sturlungaöld að taka við. Notendur netsins verða að gera sér grein fyrir því að allir geta lesið það sem þar birtist. Það er helsti kostur netsins, en getur líka gert það að "kjörlendi heigulsins"."

Myndin með færslunni er af Anonymus, frægri höggmynd í Búdapestborg, af nafnlausum skrifara ungversks konungs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bumba

Þakka þér fyrir kærlega Svavar minn. Lestu færsluna mína og segðu hvað þér finnst. Með beztu kveðju, Nonni.

Bumba, 22.4.2008 kl. 22:06

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Ef þú snertir pennann sem maðurinn (styttan) heldur á mun þér ganga betur að skrifa (ef þú ert rithöfundur) og ritstíflan á að hverfa. Íslensk vinkona, búsett í Ungverjalandi þessi árin (læknisfræði) fór í safnið við þennan garð og færði mér, blaðakonunni, litla eftirmynd af styttunni og kom ég henni að sjálfsögðu fyrir á skrifborðinu mínu við tölvuna. Því fannst mér einkar heimilislegt að kíkja í heimsókn til þín núna og sjá mynd af styttunni MINNI á blogginu þínu. Kv. frá Akranesi.

Guðríður Haraldsdóttir, 22.4.2008 kl. 22:39

3 identicon

Er þetta liður í baráttu þinni til þess að takmarka tjáningarfrelsið?
Þú talar um að ljúga; þegar þú talar um guð þá hlýtur þú að ljúga því ekkert staðfestir tilvist guða, þó þú sért með hvað rúmlega hálfa millu á mánuði þá táknar það ekki að þú farir með rétt mál.

Á ekkert að taka á þeirri lygi að þú segir mig hafa sagt að þú værir haldin barnagirnd, hvað segir guðinn þinn við því?

Þú getur alltaf flutt til Kína ef þér er annt um ritskoðun og takmörkun á frelsi fólks.

P.S. Guðinn þinn er anonymous

DoctorE (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 10:03

4 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Guðríður: Þakka innlitið. Veistu eitthvað meira um þessa styttu. Ég leitaði að upplýsingum um hana á netinu en fann lítið.

DoctorE: Ég hef ekki mikinn áhuga á að standa í þessu stappi við þig. En í fyrsta lagi: Ég kannast ekki við að hafa sagt að þú sakaðir mig um barnagirnd. Og í öðru lagi: Segjum að ég hafi logið því upp á þig. Er það þá ekki bara hluti af mínu tjáningarfrelsi?

Svavar Alfreð Jónsson, 23.4.2008 kl. 10:12

5 Smámynd: Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir

Hér færðu meira um styttuna og listamanninn, Miklós Ligeti.

Fleiri verk eftir hann finnurðu í gegnum þessa síðu

Hún minnir mig á minnismerki eftir Augustus Saint-Gaudens sem hann gerði undir lok 19. aldar. Ég sá bronsafsteytu af þessari styttu í Washington og var hún mjög grípandi og tilkomumikil.

Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 23.4.2008 kl. 10:33

6 identicon

Það er eitthvað spúkí í gangi þegar þú ferð og klagar í fréttir og tekur mitt blogg fyrir eingöngu og segist hafa verið ásakaður um barnagirnd.

Þú mátt ekki segja eins mikið og ég því þú átt guð sem hatar lygar, ekki ertu að storka honum, ekki tekur þú séns á því að hann brenni þig.

Ég er að gefa þér góð ráð þegar ég segi þér að hætta ritskoðunarboðun, kirkjan hefur verið helsti ritskoðari í gegnum tíðina og hún mun hljóta skaða af því að þú pressir á að ritskoða mesta frelsisskref mannkyns internetið.

DoctorE (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 10:40

7 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Þetta er nú frjálslega með farið, DoctorE, að ég hafi farið í fréttir og klagað, viðtalið var að frumkvæði Stöðvar 2.

Það er hárrétt athugað hjá þér að minn Guð hatar lygar. Þess vegna má ég ekki "segja eins mikið" og þú, eins og þú orðar það svo snyrtilega.

Ég bendi á að þessi færsla mín samanstendur einkum af tilvitnunum í orð annarra.

Svavar Alfreð Jónsson, 23.4.2008 kl. 10:53

8 identicon

Takk fyrir ágæta samantekt á umræðu, Svavar. Kjörlendi heigulsins er athyglisverð yfirskrift yfir bloggheima, einkum með tilliti til þeirra sem ekki þora að koma fram undir nafni.

Adda Steina (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 13:17

9 identicon

Þetta er mjög grunnt hugsað hjá þér Svavar, það geta legið margar ástæður fyrir nafnleynd og vel hugsanlegt að með þessu tali þínu að þá hafir þú sært sóknarbörn þín sum hver, undir fulli nafni og í prestsoutfitti sem er viðeigandi

DoctorE (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 14:46

10 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ég er sammála þér um að margar ástæður geti legið fyrir því að menn blogga undir dulnefnum. Ég sé í raun ekkert athugavert við það - nema þegar nafnleyndin er til þess að þurfa ekki að standa fyrir máli sínu, vega í skjóli hennar að mannorði fólks og níða ákveðna þjóðfélagshópa.

Hafi ég sært einhvern með gálausu tali biðst ég afsökunar á því. Menn vita þá altént hver lét hin særandi orð falla og að það er engan annan en við undirritaðan að sakast.

Svavar Alfreð Jónsson, 23.4.2008 kl. 14:59

11 identicon

octorE: Ég hef ekki mikinn áhuga á að standa í þessu stappi við þig. En í fyrsta lagi: Ég kannast ekki við að hafa sagt að þú sakaðir mig um barnagirnd. Og í öðru lagi: Segjum að ég hafi logið því upp á þig. Er það þá ekki bara hluti af mínu tjáningarfrelsi?

Það var gefið í skyn í þessari frétt að Doksi hafi sakað þig um að vera hommaling og jafnvel barnaperri, sem er ekki rétt. Það er ekki hluti af þínu tjáningarfrelsi að ljúga slíku upp á fólk, eins og þú virðist halda. Sérðu ekki muninn á því að doktorE lýsi frati og viðbjóð á predíkunum þínum, og svo því að ljúga upp á fólk að einhver hafi kallað þig barnaníðing? Hefurðu heyrt talað um siðblindu eða þá landslög?

Fyrst þú kannast ekki við að Doktor E hafi sakað þig um þetta, sem fréttin gefur í skyn, er þá ekki rétt að koma aftur fram í fréttum og leiðrétta misskilninginn? Eða hvernig er þetta með heigulskapinn....... 

Símon (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 15:01

12 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Sé DoktorE ekki sáttur við fréttaflutning á Stöð er þá ekki eðlilegt að hann snúi sér þangað?

Svavar Alfreð Jónsson, 23.4.2008 kl. 15:53

13 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ég vil svo minna menn að halda sér við efni færslunnar.

Svavar Alfreð Jónsson, 23.4.2008 kl. 15:54

14 identicon

Ég er búinn að emaila stöð2 en þeir hafa ekki séð ástæðu til þess að svara eða leiðrétta þessa arfaslöppu "frétt" sína.
Ég fer kannski aðrar leiðir í þessu, sjáum til með það.

DoctorE (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 19:41

15 identicon

"Sé DoktorE ekki sáttur við fréttaflutning á Stöð er þá ekki eðlilegt að hann snúi sér þangað?"

Auðvitað er það eðlilegt, en væri það ekki líka eðlilegt að þú leiðréttir þessa gróusögu um doktor e sem kemur fram í þessari frétt? Þessi gróusaga kemur jú fram í þínu nafni? Þú talar um að það þurfi að þagga niðri mönnum sem koma af stað gróusögum í skjóli nafnleyndar á netinu...... en hvað með gróusögur er koma fram í nafni prests í sjónvarpsfréttum landsmanna? ??? 

Þessi frétt var lágkúruleg, jafnvel fyrir stöð 2. Hvað mundi Jesú vilja, Guðsmaður? 

Símon (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 20:23

16 identicon

Nafnleynd og ekki nafnleynd?

Hvaða máli skiptir hvort að ég skrifaði "Helgi Freyr" eða "Jónas frá Kriflu" í það box sem bað um nafn? Hvaða máli skiptir hvort að það sé tvítugur eðlisfræði nemi við Háskóla Íslands sem er að tjá sig eða skáldskapa persóna sem Megas söng um (Er ekki nægu fær í Megas fræðum eða öðrum fræðum til að vita hvort að Jónas frá Kriflu hafi verið til í raun og veru)?

Ísland er vissulega lítið land og því eru meiri líkur á að þú kannist við þann sem skrifar á bloggið þitt, en líkurnar eru ekki miklar skal ég segja ykkur. Hvað hefur nafn viðkomandi að gera með hvað hann skrifar?

Ég skil að fólk er ekki of vel við það að fólk bloggi nafnlaust, en málið er hinsvegar það að netið hefur verið í gangi í mörg mörg ár, og þar hafa allir verið nafnlausir. Ég hef "stundað" netið í einhver 8 ef ekki 9 ár núna og hef alltaf talað við "nafnlaust" fólk sem maður kynnist svo kannski betur einn daginn og fær þá að vita nafnið á viðkomandi, hinsvegar eru flestar af þessum manneskjum alltaf það gælunafn sem þau notuðu þegar ég kynntist þeim upphaflega í mínum huga.

Nöfn gætu alveg eins verið númeraspjöld, það væri ekki alveg jafn gaman, því það væri dálítið erfitt að skýra í höfuðið á einhverjum.

Ég hef gert það að ágætis reglu eftir öll þessu ár á internetinu að ef viðkomandi hefur ekkert málefnalegt að segja, nafnlaus eða með nafni, þá hunsa ég viðkomandi. Ég legg til að fólk geri það sama, því að fólk sem stundar það að skrifa meinyrði um fólk á internetinu þráir ekkert dýpra en að viðkomandi svari og það sé a.m.k. einhver vottur af reiði í því svari.

Helgi Freyr (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 20:29

17 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Símon: Ég er búinn að segja hvað mér finnst um þetta.

Hafi ég komið af stað gróusögum (sem ég kannast ekki við) er þá alla vega vitað hver sögusmettan er.

Ég held að þetta svari þér líka, Helgi Freyr.

Svavar Alfreð Jónsson, 23.4.2008 kl. 20:45

18 identicon

Sæll Svavar

Þegar þú stofnar til bloggsíðu og heldur fram jafn umdeildum kenningum eins og kenningar kristninnar eru þá finnst mér einhvernvegin að þú megir búast við því að verða gagnrýndur.... og það jafnvel mjög harkalega. Einnig það að fólk haldi sig ekki alltaf við efni færslunnar.. 

Þið prestar þurfið að vera í góðum tengslum við fólkið í landinu, mundi ég álíta, starfs ykkar vegna. Ef þú umkringir þig eintómu "já" fólki t.d. með því að ritskoða það sem er birt hér er hætt við því að þú tapir sambandi við almenning sem á endanum leiðir til þess að skrif þín og skilningur á mannlegu eðli missir marks.

Ég er ekki sammála þér í trúmálum og ég leyfi mér að halda því fram, að jafn greindur maður og þú ert, hljótir að efast um sannleiksgildi fræða þinna.

Þú færð hins vegar prik hjá mér að gefa þó færi á því að fólk geti skipst á skoðunum við þig sem prest.

Halldór Halldórsson (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 22:48

19 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Þakka þér fyrir þetta, Halldór. Það er mikill misskilningur hjá þér að ég sé að blogga hérna einungis til að safna í kringum mig jáfólki.

Hér er oft mikið fjör og hart tekist á eins og þú getur lesið.

Í síðustu færslum hef ég á hinn bóginn verið að velta fyrir mér hatursræðum og persónulegu skítkasti á bloggum sem að mínu mati eiga lítið skylt við málefnalega umræðu.

Ég held að það sé alveg hægt að vera ósammála fólki án þess að kalla það ónefnum.

Svavar Alfreð Jónsson, 23.4.2008 kl. 23:00

20 Smámynd: Soffía Valdimarsdóttir

Það er sannarlega rétt hjá þér Svavar að mönnum er ekki sæmandi að veitast að náunganum í skjóli nafnleyndar, hvorki á blogginu né öðrum miðlum.

Ég hef ekki hugmynd um eða nokkurn áhuga á að vita hvað þér og þessum Doctor E hefur farið á milli. Ekki finnst mér þó trúlegt að það hafi verið nokkrum manni til sóma svona af orðaskiptum ykkar hér og þá hallar heldur á mótherja þinn Doctor E frá mínum bæjardyrum séð.

Hitt er svo aftur annað að þeir sem aðhyllast jafn einstrengingslegar lífsskoðanir og einhver tiltekin trúarbrögð hljóta óhjákvæmilega að bjóða áhangendum sínum hverju sinni, verða auðvitað að gæta sín umfram aðra - SÉRSTAKLEGA þegar þeir þiggja sín laun frá Ríkinu. Þið prestar megið aldrei gleyma því eitt einasta augnablik að þið eruð opinberir starfsmenn.

Ég er þeirrar skoðunar að kirkjan ætti að duga þér og kolleggum þinum sem vettvangur til að flytja lýðnum boðskap ykkar, hver sem hann er. Þar geturðu gert það eftir þínu höfði (innan hins þrönga ramma auðvitað) - og meira að segja á launum. Þjóðkirkjan og predikunarstóllinn ættu þannig að duga þér til hvers kyns fjölmiðlunnar.

Eða nærðu kannski ekki til nógu margra þar?

Ekki þannig að það hvarfli að mér eitt augnablik að segja þér að þú megir ekki láta í þér heyra hér eða annars staðar. En eins og ég sagði þá ertu nú þegar á launum hjá opinberum fjölmiðli.

Mér fnnst bara fulllangt gengið ef þú getur ekki stillt þig um að ritskoða fólk á blogginu. Ef þér líkar ekki það sem hér fer fram þá þarftu ekkert að vera hér - er ekki hlýtt og notalegt í Þjóðkirkjunni bara.

Soffía heiti ég annars og er Valdimarsdóttir svo það sé alveg á hreinu.

Soffía Valdimarsdóttir, 25.4.2008 kl. 20:16

21 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Kæra Soffía, ég hef engin tök á að ritstýra öðrum bloggum en mínum eigin.

Ekki get ég verið sammála þér um að fólk í vinnu hjá Þjóðkirkjunni ætti að láta nægja að tjá sig þar. Ég sé engin rök fyrir því að amast við því að ein ákveðin starfsstétt nýti sér þá samskiptatækni sem bloggið er.

Hér get ég skipst á skoðunum við margt prýðisfólk, meðal annars þig. Hér hef ég líka eignast góða bloggvini.

Ég sé ekki betur en þú sért einn þeirra.

Svavar Alfreð Jónsson, 25.4.2008 kl. 21:32

22 Smámynd: Soffía Valdimarsdóttir

Sæll Svavar!

Jú mikið rétt, sú er konan.

En það er nú svo skemmtilegt með þjóðtungurnar að þær hafa þann eftirsóknarverða eiginleika að laga sig að breyttum aðstæðum og þjóna þannig notendum sínum. Það er meira en hægt er að segja um ýmis önnur og stærri kerfi sem ganga jafnvel þvert á þjóðir og heimsálfur.

Þannig þýðir orðið bloggvinur ekki endilega það sama og orðið vinur.

Ekki svo að skilja að þeir sem ég vel mér að bloggvinum geti ekki verið vinir mínir. Þeir eru það margir.

Ég hef hins vegar áhuga á skoðunum þeirra allra og því fyrir hvað þau standa á þessum vettvangi. Mér leiðast skoðanalausar geðluðrur en það þýðir ekki að mér líki allar skoðanir þeirra sem einhverjar hafa og þora að tjá þær.

Með bestu kveðju

Bloggvinkona þín

Soffía

Soffía Valdimarsdóttir, 25.4.2008 kl. 22:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband