29.4.2008 | 15:34
Funheit biblíuleg erótík
Ég má til með að taka hanskann upp fyrir Gamla testamentið.
Í Gamla testamentinu er til dæmis safn myndríkra veraldlegra ástarljóða.
Ljóðaljóðin eru hispurslaus óður til ástarinnar.
Á hebresku nefnast þau Shir ha Shirim sem útleggst "ljóð ljóðanna". Sú er einnig þýðing titilsins Asma asmaton í hinni grísku Septúagintu og Canticum Canticorum í latnesku Vúlgötu.
"Kysstu mig kossi vara þinna, atlot þín eru ljúfari en vín," eru upphafsorð ljóðanna.
Ljóðasafnið er talið vera allt að 2600 ára gamalt. Annað dæmi:
"Komdu, vinur minn, komum út á víðan vang, eyðum nóttinni undir hennakjarrinu, förum snemma upp í vínekrurnar, sjáum hvort vínviðurinn blómstrar, hvort blóm hans hafa opnast, hvort granatviðurinn stendur í blóma. Þar gef ég þér ást mína."
Ljóðaljóðin eru um erótíska ást milli karls og konu og það var ekki fyrr en löngu eftir tilurð þeirra að menn urðu svo miklar pempíur að þeir fóru að velta því fyrir sér hvort slíkt væri við hæfi í helgiritum. Á 2. öld eftir Krist kepptust menn við að túlka ritið andlega og svipta það því holdlega.
Var talið útilokað að heilagur andi eyddi innblæstri sínum í að lofsyngja ástum karls og konu.
Myndmál Ljóðaljóðanna er úr náttúrunni. Þar er garðurinn áberandi en þegar Ljóðaljóðin urðu til var garðurinn staður gleði og unaðs.
Garðurinn er líka skaut konunnar og í því ljósi ber til dæmis að lesa þessa beiðni hennar og síðan svar hans:
"Vakna, norðanvindur, kom, sunnanblær, anda á garð minn svo að ilmur hans berist. Elskhugi minn, komdu í garð þinn og njóttu dýrustu ávaxta hans."
"Ég fór niður í hnetulundinn að sjá dalinn grænka, sjá hvort vínviðurinn blómstraði og granatviðurinn bæri blóm. Ég var frá mér numinn, ég varð altekinn af ást."
Gyðingurinn og trúarheimspekingurinn Franz Rosenzweig (d. 1929) sagði að einmitt vegna þess að Ljóðaljóðin væru svo algjörlega þessa heims gætu þau líka verið andlegt ljóð um elsku þess Guðs, sem ekki svífur yfir einhvers staðar yfir vötnunum, heldur er sjálfur í elskunni og ástinni.
(Myndin með færslunni er af málverki eftir Marc Chagall sem nefnist Ljóðaljóð Salómons)
Óli Ágústar fjallar um Ljóðaljóðin í færslu á blogginu sínu og er með krækju á fróðlega umfjöllun sína um túlkunarsögu Ljóðaljóðanna. Ég bendi á hana og gef Óla Amen dagsins fyrir pælingarnar.
Athugasemdir
Þetta hljómar fyrir mér ekkert ósvipað og ljóð eftir Leonard cohen.
...... En segðu mér... var þetta tekið út ?
Brynjar Jóhannsson, 29.4.2008 kl. 16:39
...Bósa saga hvað? Þetta eru afskaplega falleg ljóð og synd hvað fáir þekkja þau.
Þorsteinn G. Gunnarsson (IP-tala skráð) 29.4.2008 kl. 16:41
Aida., 29.4.2008 kl. 20:58
Brynjar: Sammála - enda engin tilviljun að Cohen yrki í þessum anda. En þetta er ennþá inni og ég mun segja mig úr Biblíufélaginu ef þeir hrófla við Ljóðaljóðunum.
Takk fyrir innlitið Steini og Aida!
Svavar Alfreð Jónsson, 29.4.2008 kl. 21:06
Frábært.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 29.4.2008 kl. 22:44
Ég man ekki til þess að Gamla testamentið, hvað þá ljóðaljóðin hafi misst unhvurn hanska, en þér sé söm þökkin fyrir upptökuna samt sem áður.
Takk.
Steingrímur Helgason, 29.4.2008 kl. 23:51
Jú, jú - þarna er sitthvað vel ort. Ég hef samt enga bók lesið sem er eins uppfull af mannfyrirlitningu og Gamla testamentið. Því miður bæta Ljóðaljóðin ekki fyrir þann ófögnuð.
Bestu kveðjur norður ...
Orri Harðarson (IP-tala skráð) 30.4.2008 kl. 00:08
Klámið og guðlastið alltaf á þessari síðu.

Sigurður Þór Guðjónsson, 30.4.2008 kl. 21:02
Það er nú eitthvað annað en endalaust meinleysishjalið á sumum öðrum...
Svavar Alfreð Jónsson, 1.5.2008 kl. 13:10
Ég segi það nú.
Sigurður Þór Guðjónsson, 1.5.2008 kl. 16:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.