Trú og trúleysi

frelsiÉg fékk skemmtilegar athugasemdir við síðustu færslu sem ég þakka innilega.

Þar sagðist trúleysingi vera sammála mér. Mér finnst það engin tíðindi. Trúleysi og trú eiga margt sameiginlegt. 

 

Trúleysi er ákveðin trúarleg afstaða eins og trú. 

Fólk getur verið öfgafullt bæði í trú sinni og trúleysi.

Stundum segist fólk vera trúað án þess að vita almennilega hverju það trúir. Stundum hafnar fólk trú án þess að gera sér grein fyrir hverju það er að hafna.

Trúað fólk getur verið fullt af fordómum í garð trúleysingja. Trúleysingjar eru á sama hátt haldnir ýmsum stækum fordómum um trúaða.

Hér læt ég fylgja tvær stuttar tilvitnanir um trú lesendum, trúuðum sem trúlausum, til íhugunar.

Sú fyrri er eftir dr. Pál Skúlason, heimspeking, úr bók hans Hugsun og veruleiki (Reykjavík 1975):

"Trú í kristinni merkingu þess orðs táknar hins vegar hvorki hagsmunabundna skoðun né óhagganlega vissu um eitt eða neitt, heldur djúpstæða óvissu manna sem viðurkenna þá einföldu staðreynd að þeir séu hvorki höfundar þessa lífs né herrar jarðar." (Bls. 12 - 13)

Seinni tilvitnunin er í hugvekju eftir Ellert B. Schram sem hann skrifaði í Fréttablaðið fyrir síðustu jól undir yfirskriftinni Jólin hennar ömmu.

Ef til vill finnst mörgum sú trú ekki merkileg sem Páll talar um en Ellert segir styrk trúarinnar fólginn í veikleika hennar. Hann segir um trúna:

"Hún getur ekkert sannað, hún getur engum atburðum breytt, hún getur ekkert annað en að falla á hné niður og játa sig sigraða gagnvart almættinu."

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Þessir öfgafullu trúleysingjar eru skelfilegir.

Hvernig tengist þessi trú sem Páll og Ellert tala um því sem þú boðar í starfi þínu?

(ég á ekkert vona á svari nú frekar en fyrri daginn)

Matthías Ásgeirsson, 10.5.2008 kl. 00:29

2 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Það er þó af hinu góða sem þú ert farinn að efast, Svavar, og sjáir einhverjar af þeim misræmum sem felast í tilvist æðri máttarvalda. Er trúarkerran enn þá tóm? ; )

Kristján Hrannar Pálsson, 10.5.2008 kl. 00:29

3 Smámynd: Ingólfur

Ég hef enga vissu um eitt né neitt og viðurkenni það fúslega að mennirnir eru ekki höfundar þessa lífs né herrar jarðar. Er ég þá trúaður í "kristinni merkingu þess orðs"???

P.S. Ég þykist reyndar vita að mennirnir séu höfundar af "guði" .

Ingólfur, 10.5.2008 kl. 01:09

4 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ingólfur Harri: "Trúaður" og "trúlaus" eru oft merkimiðar sem við notum í óskaplegu hugsunarleysi. Ef til vill eigum við ýmislegt sameiginlegt þegar grannt er skoðað. Þú ert alla vega einn þeirra trúleysingja sem mér finnst gott og gagnlegt að tala við. Ég vona að það sé gagnkvæmt.

Svavar Alfreð Jónsson, 10.5.2008 kl. 01:21

5 Smámynd: Sigurjón

Páll (svo skemmtilegur sem hann er) fer þarna með stórkostlegar fleipur.  Trú í þeirri merkingu sem hann tiltekur er ekki aðeins kristin, heldur einnig sveipuð öllum öðrum trúarbrögðum heimsins.  Þetta er því ómark í ,,baráttu kristinnar trúar gegn trúleysingjum".

Ekki að ég sé neitt að væna þig um að standa í einhverri baráttu Svavar; alls ekki. Hins vegar hlýtur öllum að vera ljóst að þú ert í ,,liði með kristni".

Nú er ég trúlaus, en það þýðir alls ekki að ég trúi því að guð sé ekki til.  Þvert á móti.  Ég trúi því heldur ekki að guð sé ekki til!  Því er kristinnar trúaður maður ekki andstæðan við mig.  Ég hvorki trúi á guð né gegn guði.  Þar liggur munurinn.

Mér dugar alveg að leita sannleikans með aðferðum vísindanna og manngæzkunnar.  Ég geri mér grein fyrir að sumt vitum við mannfólkið ekki.  Við þurfum hins vegar ekki að eigna þeirri ,,vitleysu" guðs kristni í heimi... 

Sigurjón, 10.5.2008 kl. 02:43

6 identicon


Af hverju trúa menn og játa sig sigraða fyrir almættinu, það er bara vegna þess að meint extra líf er í boði, taktu burt extra lífið og hvað hefur þú?
Ekki fer fólk að trúa á guð sem gefur ekkert, það er ekkert point með því.

Þannig að trú er bara von um extra líf, ekki satt


DoctorE (IP-tala skráð) 10.5.2008 kl. 03:27

7 Smámynd: Ingólfur

Jú mér finst gott að tala við þig hérna, veit svo sem ekki hversu gagnlegar svona umræður eru.

Trú og trúleysi eru frekar illa skilgreind hugtök og ég er sjálfsagt trúaður samkvæmt ýmsum skilgreiningum þess hugtaks, þó varla í "kristnum" skilningi þess orðs.

Trú finnst mér þó vera einstaklingsbundin og hver skilgreinir sína trú, og ég reyni að virða trú annara þó hún kunni að stangast á við mína "trú".

Ég geri hins vegar skýran greinamun á trú og trúarbrögðum. Trúarbrögð eru að mínu mati manninum til tjóns og því engin ástæða til þess að virða þau. 

Ingólfur, 10.5.2008 kl. 10:39

8 Smámynd: Sigurður Rósant

Sæll vertu Svavar í trú þinni.

Þú vitnar í orð Páls Skúlasonar þar sem hann skrifar: "Trú í kristinni merkingu þess orðs táknar hins vegar hvorki hagsmunabundna skoðun né óhagganlega vissu um eitt eða neitt,"

Páll er sennilega að tala þarna um einangraða trúaða sál sem í auðmýkt sinni gerir engar kröfur og gerir sér engar vonir um líf eða eilíft líf.

Þegar við hins vegar lesum það sem skráð er eftir meintum höfundi kristinnar trúar í Matt 6. kafla, þá kemur svolítið annar konar hugarfar í ljós.

Þar byrjar Jesús á því að tala um hvernig væntanlegir fylgjendur hans skuli gefa ölmusu, hvernig menn eigi að biðja í einrúmi en ekki á götuhornum að hætti heiðingja, hvernig þeir eigi að bera sig er þeir fasta, hvernig menn eigi að forðast auðsöfnun á jörðu, vera ekki áhyggjufullir um líf sitt, né hvað menn eigi að éta eða drekka, hverju menn eigi að klæðast og segir svo í lokin að allt þetta stundi heiðingjarnir en yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa.

Svo kemur loforðið í lokin sem tryggir afkomu (hagsmuni) hins trúaða. "En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki"

Þegar svo hinn trúaði er orðinn viss um að hann trúir á boðskapinn um komu guðsríkis og réttlætis (hvort sem það er á ókomnum himni eða hið innra með honum), þá tekur við fullvissa um hið óáþreifanlega og hið ókomna eins og skrifað er í Hebreabréfi 11:1 "Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá"

Svo hér er Páll Skúlason kominn í andstöðu við það sem kristinn maður les út úr Nýja Testamentinu. Kristinn trúaður maður skilur ofangreindar tilvitnanir á þá vegu að hann verði að sýna ákveðna aðmýkt, ákveðið æðruleysi, taka trú og boða trú. Þá munu öll heimsins gæði blasa við honum á sama hátt og heiðingjunum.

Athugasemd: Ég lít svo á að hér sé Jesús að tala um trúaða heiðingja en ekki trúleysingja. Kristur og Páll postuli virðast hafa sérstakt dálæti á heiðingjum og taka þá að mörgu leyti til fyrirmyndar, en fyrirlíta þá líka, sbr. Róm 2:14 og 11:13    "Þegar heiðingjar, sem hafa ekki lögmál, gjöra að eðlisboði það sem lögmálið býður, þá eru þeir, þótt þeir hafi ekki neitt lögmál, sjálfum sér lögmál." - - "En við yður, þér heiðingjar, segi ég: Að því leyti sem ég er postuli heiðingja, vegsama ég þjónustu mína."

Ekki er minnst á trúleysingja í NT. Sennilega gert ráð fyrir að þeir hafi ekki verið til.

Sigurður Rósant, 10.5.2008 kl. 12:36

9 identicon

Nú hef ég heyrt útundan mér að það sé trúlaust fólk að undirbúa umsókn um að fá að stofna trúfélag um trúleysi, semsagt ótengt til dæmis siðrænum húmanisma. Myndir þú Svavar ekki leggja þeim lið með því að skrifa bréf þar sem þú bentir á að trúleysi var bara alveg eins trú og kristni og styðja þannig umsókn þeirra?

Sjálfur styð ég náttúrulega ekki svona enda er mín skilgreining á trúleysi mjög skýr og hefur oft komið fyrir á Vantrú.

Óli Gneisti Sóleyjarson (IP-tala skráð) 10.5.2008 kl. 12:53

10 Smámynd: Óskar Arnórsson

..ég er smátt og smátt farin að trúa að Guð sé virkilega til í gegn um sannleika DoktorE! Hanns orð hafa sannfært mig um að eitt atriði úr Biblíunni er hárrétt: "Vegir Guðs eru órannsakanlegir"! Fyrir mig er hann besti prestur sem ég hef nokkurntíma hitt á þess að vanvirða þig Svavar á nokkurn hátt! ég tel mig geta þekkt munin á réttu og röngu fyrir löngu síðan. Og það álit mitt er hafið yfir hvaða stétt hver og einn tilheyrir. Guð er snjall! Hann skapaði heiminn og sendi kennara til að kenna okkur um hver Hann væri. DoktorE er einn af mínu bestu kennurum í að komast þangað sem ég held að ég hafi alltaf viljað!

Beint samband við Jesú Krist og gera það sem hann segir að sé rétt...

...er að rembast við að bera virðingu fyrir ruglinu í "yfirstéttarprestum" enn þeir hafa einhverra hluta vegna aldrei geta sannfært mig jafnvel og DoktorE um sannleikann...eða bara minn sannleika á tilveru Guðs? 

Óskar Arnórsson, 10.5.2008 kl. 15:34

11 Smámynd: Óskar Arnórsson

..sorry Svavar! var svo upptekinn af sjálfum mér að ég gleymdi aðalatriðinu! Takk fyrir snilldarlega góða grein sem jafnvel ÉG! get skilið og þá er mikið sagt..

Óskar Arnórsson, 10.5.2008 kl. 15:37

12 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Getur trú verið fullvissa? Hún er ekki áþreyfanleg ekki sýnileg?

Kristin siðfræði er allavega mjög góð eru ekki allir sammála því.  Hvaða siðfræði munu trúleysingjafélögin hafa á stefnuskránni? verður hún ekki byggð á krisnum grunni?

Þórdís Bára Hannesdóttir, 10.5.2008 kl. 18:16

13 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

kristnum...

Þórdís Bára Hannesdóttir, 10.5.2008 kl. 20:55

14 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Þórdís, hvað er "kristin siðfræði"?

"Hvaða siðfræði munu trúleysingjafélögin hafa á stefnuskránni? verður hún ekki byggð á krisnum grunni?"

Hvaða kristna grunni?

Matthías Ásgeirsson, 10.5.2008 kl. 22:26

15 identicon

Sæll Svavar,

Burtséð frá því hvort orðið "trú" er heppilegt eða ekki þá er einn reginmunur á skoðunum kristinna manna og trúlausra.

Kristnir menn telja að eftirfarandi fullyrðingar séu sannar:

Guð skapaði heiminn

Jesús Kristur var getinn af heilögum anda og reis upp frá dauðum

Sálir manna hafa eilíft líf

og svo framvegis.

Þetta og fleira kemur fram í svokallaðri trúarjátningu kirkjunnar. Sá sem ekki er þeirrar skoðunar að það sem þar er talið upp sé satt getur samkvæmt skilgreiningu ekki talist vera kristin manneskja, hafi ég skilið þetta rétt.

Trúlaus maður er einhver sem úrskurðar setningar sannar eða ósannar á grundvelli þess hversu góð rök eða sönnunargögn hann hefur fyrir þeim. Fyrir þeim setningum sem ég taldi upp eru hvorki til haldbær rök né sönnunargögn, þvert á móti bendir allt til þess að þær séu ósannar. Kristið fólk hefur engu að síður þá skoðun að þær séu samt sannar.

Þetta er höfuðeinkenni á því sem fólk kallar "trú"; að mynda sér skoðun á þennan hátt. Málið snýst alls ekki um fullvissu eða sannanir, enda er næsta fátt sem við höfum fullkomlega óyggjandi sannanir fyrir. Það snýst um það hvort við leitumst við að byggja skoðanir okkar á þeim gögnum og rökstuðningi sem við höfum aðgang að - eða ekki.

Að lokum vil ég taka það fram að ég ber virðingu fyrir Páli Skúlasyni, þótt mér finnist þessi tilvitnun fremur óskýr, að minnsta kosti svona úr samhengi.

Hin tilvitnunin er hins vegar arfavitlaus. Það að sýna þá auðmýkt að játa sig sigraðan gagnvart almættinu er ekki hægt fyrr en maður hefur sýnt þann hroka að ákveða að almættið sé til.

Kær kveðja 

Þórdís H (IP-tala skráð) 11.5.2008 kl. 01:20

16 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Matthías þú spyrð hvað er kristin siðfræði  Mér finnst það vera það sem kristur boðaði þ.e hans orð ekki allra hinna sem komu á eftir.

Þórdís Bára Hannesdóttir, 11.5.2008 kl. 12:02

17 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Gaman væri að fá álit Svavars á grein þeirri sem Matthías vísaði í.

Þórdís: Jesús hefur engan einkarétt á náungakærleik eða góðum boðskap. Er kristið siðferði siðferði Gunnars í Krossinum eða Svavars Alfreðs?

Kristján Hrannar Pálsson, 11.5.2008 kl. 20:02

18 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Kristján, þú ættir að geta svarað spurningum þínum sjálfur er það ekki? Þér datt í hug að Jesú hefði einkaréttinn ekki mér:)

Þórdís Bára Hannesdóttir, 11.5.2008 kl. 22:56

19 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Þórdís, þessi skilgreining þín á "kristnu siðfræði" er stórgölluð.

1. Við vitum einfaldlega ekki hvaða skoðanir hans voru, guðspjöllin eru skrif "allra hinna sem komu á eftir".

2. Flestir fræðimenn eru sammála því að Jesús taldi heimsenda vera í nánd (sérð þetta í nokkrum ummælum í guðspjöllunum) og þess vegna var siðfræði hans svokallað "interim Ethik" eða siðferði sem á við þegar heimurinn á stutt eftir.

3. Ein af afleiðingum punkts 2. er auðvitað að sumt í siðferðinu er gjörsamleg óhugsandi í heimi sem er ekki við það að enda og einfaldlega vitlaust. T.d. að selja allar eigur þínar. Síðan er sumt hreinlega úrelt í augum flestra, t.d. er gifting fráskilinna klárlega bönnuð samkvæmt guðspjöllunum.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 12.5.2008 kl. 18:16

20 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Þórdís, hvað boðaði kristur?  Ég er nefnilega enn ekkert nær því að skilja hvað kristni siðfræði er.

Matthías Ásgeirsson, 12.5.2008 kl. 18:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband