Helgidögum stolið

DSC_0362 

Guðni Ágústsson ritaði góða grein í síðasta Helgarmogga. Þar spurði hann hver hefði stolið sunnudögunum.

Hann spurði ekki hvort þeim hefði verið stolið því það er eiginlega óumdeilt. Sunnudagarnir eru að hverfa. Þeir eru ekki svipur hjá sjón. Þeir eru að verða eins og aðrir dagar.

Sömu söguna er að segja af öðrum helgidögum, þeim fáu sem enn eru til.

Dagakúltúrinn er að fletjast út í grámyglaða orvellsku.

Samfélag græðginnar hefur ekki mikið pláss fyrir helgidaga. Þar er manneskjan fyrst og fremst neytandi. Hún þarf að hafa miklar þarfir. Því meiri þeim mun betri. Manneskjan á að vera ófullnægð. Ósátt. Helst óseðjandi.

Neyslunnar vegna er best að gæta þess að við verðum alltaf pínulítið óánægð. Þurfendur. Skortendur. Neytendur.

Saddur maður og sáttur tekur síður upp veskið.

Þess vegna ógna helgidagarnir því samfélagi sem telur stöðuga og sívaxandi neyslu helstu dyggðina.

Á helgidögum eru búðirnar lokaðar og vinnustaðirnir tómir til að minna okkur á að lífið er ekki eintómur þrældómur. Helgidagarnir eiga að stuðla að hamingju mannsins. Þá eigum við að hvíla okkur. Láta uppbyggjast. Kyrra hugana, fá frið í sálirnar. Helgidagarnir minna okkur á hvað er dýrmætt og mikilvægt. Þeir eru til að við getum notið samfélags við þau sem eru okkur mikilvæg og dýrmæt.

Helgidagarnir eru til gera okkur ánægðari og sáttari.

Það er engin tilviljun að verið sé að reyna að stela þeim af okkur.

Ég spyr með Guðna:

Hverjir?

Myndin: Skemmtilegar haustsetteringar í Kjarna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Kannski sömu menn og gáfu okkur flestum frí á laugardögum.

Hvernig væri að þú og Guðni rifjið upp hversu stutt er síðan laugardagur var almennur vinnudagur á Íslandi.

Matthías Ásgeirsson, 15.11.2009 kl. 21:52

2 identicon

Virkilega góð hugleiðing Svavar.

Enda gömlu góðu fjölskyldugildin alveg týnd í brjálæði neysluhyggjunnar.

Ég væri alveg tilí að koma á rúntinn með þér á laugardegu Matthías og skoða allt fólkið sem er "ekki" í vinnunni.

Og nota bene hver gaf launafólki frí Matthías?
Það hafa verið góðir menn!

Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 22:21

3 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Eggert, langflestir eru ekki að vinna á laugardögum.  Það myndir þú einmitt sjá á rúntinum, því allt fólkið sem er að versla, kíkja í kaffihús eða á söfn er einmitt í fríi.  

Svo eru aðrir sem kjósa að vinna um helgar og afla sér þannig aukafjár.

Það var fólkið sjálft sem samdi um frí á laugardögum.  Það var verkalýðshreyfingin sem barst fyrir því.

Gömlu góðu fjölskyldugildin voru ekkert sérstaklega góð - eða hvað?

Matthías Ásgeirsson, 15.11.2009 kl. 22:35

4 identicon

Er ekki málið að byrja á grjótkastinu á þá sem vinna á sunnudögum ;)

DoctorE (IP-tala skráð) 16.11.2009 kl. 10:38

5 identicon

Þegar talað er um gömlu, góðu fjölskyldugildin, dettur mér alltaf í hug þeir fjölmörgu framsóknarbændur sem vildu helst að vistarbandið yrði tekið upp aftur. Helgidagar tengjast trúarbragðafasisma. Fólk á að geta ráðið því sjálft hvort það aðhyllist einhver trúarbrögð eður ei, en ríkið á ekki að geta komist upp með að troða einhverri ríkistrú ofan í kok á manni og senda manni reikning fyrir launum Svavars Alfreðs með sköttunum.

Kritískur (IP-tala skráð) 16.11.2009 kl. 11:43

6 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Allir ættu að njóta þess að eiga frí á helgidögum og geta dúllað við sig, hver með sínum hætti.

Gömlu og góðu fjölskyldugildin standa fyrir sínu og þau eru engin einkaeign framsóknarmanna eins ágætir og þeir eru.

Svo vil ég helst að menn skrifi hér undir nafni. Það eru bara litlir kallar sem gera sig breiða með stólpakjafti en þora svo ekki að segja til nafns.

Svavar Alfreð Jónsson, 16.11.2009 kl. 12:14

7 Smámynd: Haraldur Davíðsson

Helgidagar? Sunnudagur er aðeins helgidagur í augum kristinna...hvíldardagur...(laugardagur er reyndar eitthvað að þvælast inní hvíldardaginn hjá einhverjum Abrahamískum söfnuðum)...en hví skyldi trúlaus maður kalla sunnudag helgidag?

Haraldur Davíðsson, 16.11.2009 kl. 18:08

8 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Hefur séra Svavar hugsað sér að taka frí á sunnudögum eða gildir þetta bara fyrir aðra?

Matthías Ásgeirsson, 16.11.2009 kl. 21:14

9 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ég verð t. d. í fríi næsta sunnudag og ætla svo sannarlega að njóta þess.

Svavar Alfreð Jónsson, 16.11.2009 kl. 21:40

10 Smámynd: LegoPanda

Mér fyndist það nú þrældómur að geta ekki skroppið út í sjoppu á sunnudegi að fá mér súkkulaði ef mig langaði til þess.

LegoPanda, 17.11.2009 kl. 09:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband