Réttvísin rægð

DSC_0120 

Helstu tæki þjóðarinnar við uppgjör Hrunsins eru þjónar réttvísinnar. Rannsakendur, saksóknarar og dómarar, svo nokkuð sé nefnt.

Eva Joly hefur hvatt þjóðina til að sýna biðlund. Hún veit betur en flestir aðrir að flókið getur verið að rannsaka fjármálaglæpi. Það tekur tíma og kostar þolinmæði.

Þjóðin væntir mikils af þjónum réttvísinnar. Réttlætiskennd hennar hefur verið misboðið og reiði fólks er skiljanleg. 

Sú reiði má ekki fá útrás í múgæsingi eða hefndarþorsta. Við búum í réttarríki og uppgjörið þarf að fylgja lögmálum þess.

Þess vegna er það alvarlegt þegar reynt er að grafa undan trúverðugleika réttarkerfisins - þessa helsta tækis sem við höfum til að gera upp Hrunið og fullnægja langþráðu réttlæti.

Það gerðist í Baugsmálinu og er að gerast núna.

Nýlega var fyrrverandi bankastjóri Landsbankans úrskurðaður í gæsluvarðhald. Í Pressupistli segir Hannes Hólmsteinn Gissurarson þjóðinni að með því sé sérstakur saksóknari að „verja starf sitt og afla þess fylgis". Þessum gjörningum starfsmanna réttarkerfisins lýsir prófessorinn svona:

Þeir vita, hversu vel það mælist fyrir að handtaka óvinsæla bankastjóra og verðbréfasala, sem áður fóru mikinn og vöktu öfund eða gremju.

Hér er réttvísin rægð og athafnir hennar sagðar byggja á annarlegum tilgangi.

Í sama streng tekur annar Pressupenni, Ólafur nokkur Arnarson.

Sá mikli álitsgjafi finnur aðgerðum sérstaks saksóknara allt til foráttu. Áður hefur hann kvartað sáran yfir rannsókn embættisins á Kaupþingi. Nú kallar hann athafnir saksóknarans fjölmiðlasirkus og gefur í skyn að þær séu samkvæmt pöntun frá ríkisstjórninni.

Dómstólum landsins gefur Ólafur þá einkunn að þeir starfi samkvæmt skipunum úr kerfinu.

Ekki er við öðru að búast en að dómstólar verði við kröfu sérstaks um gæsluvarðhald yfir Landsbankamönnum, hversu fráleit sem hún er. Dómstólar sýndu það í máli Kaupþingsmanna, að þeir eru viljugur gúmmístimpill fyrir sérstakan og væntanlega hefur engin breyting orðið þar á.

Þriðja dæmið um þá meðferð sem þjónar réttvísinnar fá er ritstjórnarpistill í opnu Fréttablaðsins sem dreift er ókeypis til landsins barna.

Yngvi Örn Kristinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri verðbréfasviðs Landsbankans, var einn þeirra sem sérstakur saksóknari kallaði í yfirheyrslu vegna rannsóknar embættisins á gamla Landsbankanum.

Pistillinn birtist mánudaginn 17. janúar. Þar er þessi yfirmaður banka, sem fór svo gjörsamlega á hausinn að hann setti heila þjóð nánast á hausinn líka, sagður einn hæfasti hagfræðingur landsins. 

Yngvi hafi bara ekki haft vit á að hætta í Landsbankanum áður en bankinn varð gjaldþrota.  Hann er „sagður hafa sett fyrirvara við ýmsar lánveitingar bankans" eins og það er orðað í þessum varnarpistli.

Eftir Hrun segja blaðamenn Fréttablaðsins Yngva hafa gagnrýnt Seðlabankann óhræddur fyrir að hafa ekki „beitt sér gegn miklum vexti fjármálageirans".

Allir hljóta að sjá að þar ber hinn hugrakki maður enga ábyrgð þó að hann hafi reyndar verið einn þeirra manna sem stýrði bankanum í þessa óhóflegu stærð og glæsilega gjaldþrot.

Það hefur ætíð þótt stórmannlegt á Íslandi að kenna öðrum um.

Og fara síðan fram á 230 milljónir frá bankanum sem varð gjaldþrota.

Í pistlinum er því haldið fram að þessi fyrrverandi yfirmaður verðbréfasviðs Landsbankans hafi sætt ofsóknum fyrir afstöðu sína og skoðanir. 

Ef til vill var það liður í þeim ofsóknum að gera Yngva Örn tímabundið að aðstoðarmanni ráðherra í núverandi ríkisstjórn?

Varnarpistillinn fyrir Yngva Örn í Fréttablaðinu endar svo á þessum orðum:

Allt hefur þetta komið í bak Yngva, sem var kallaður til yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara í síðustu viku auk þess sem menn innan Seðlabankans kunna honum litlar þakkir fyrir gagnrýnina.

Þarna er með öðrum orðum gefið í skyn að ástæðurnar fyrir yfirheyrslunum séu ekki efnislegar heldur hafi eitt og annað „komið í bak" hans.

Auk þess eigi hann sér óvini í Seðlabankanum sem hafi þá pantað yfirheyrslurnar á blásaklausum yfirmanninum.

Þannig er nú ástandið á réttvísinni í þessu landi, segir Fréttablaðið landslýð.

Forsætirráðherra Íslands er enn einn þeirra sem þessa dagana sendir þjónum réttvísinnar tóninn.

Samkvæmt þessari frétt segir Jóhanna Sigurðardóttir framganginn í réttarkerfinu dapurlegan - vegna þess að réttað er yfir svonefndum níumenningum áður en önnur réttarhöld tengd Hruninu hefjast.

Gæti ástæðan kannski verið sú að enn sé ekki búið að rannsaka önnur mál?

Vill forsætisráðherra að réttað sé í málum meintra fjárglæframanna áður en rannsókn þeirra er lokið?

Séu níumenningarnir saklausir - en margt bendir til að svo sé - verða dómstólar að komast að þeirri niðurstöðu úr því sem komið er.

Það er ekki í verkahring valdamanna að senda dómstólum fyrirmæli um þau mál sem þar eru til umfjöllunar.

Þeir þjónar okkar landsmanna sem valdir hafa verið til að fullnægja réttlætinu eru svo sannarlega ekki í öfundsverðum verkefnum.

Ég bið þeim Guðs blessunar í vandasömum störfum í þágu þjóðarinnar og réttlætisins.

Myndin er af þörfustu þjónunum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er góður pistill séra minn, og tímabært að andæfa gegn þessu óheiðarlega andrúmslofti sem sjálfkjörnir alltvitandibest þöngulhausar rjóða úr pennum sínum.

Óli Ágústar (IP-tala skráð) 19.1.2011 kl. 11:33

2 identicon

Godann daginn Svavar.

Thakka godann pistil, eins og alltaf hja ther er thu skrifar.

bestu kvedjur

Islendingur (IP-tala skráð) 19.1.2011 kl. 11:51

3 Smámynd: Jón Þorbjörnsson

Séra Svarvar,

ég sé af pislum þínum að þú ert mjög upptekinn af hruninu og þú ert greinilega reiður í hjarta þínu. Þú setur út á alþingismenn, íslenska handknattleikslandsliðið, Stöð 2 og fleira.

Þú skrifar nú ágæta grein, vel uppsetta að venju, enda augljóst að þú ert ritfær maður. Í byrjun lítur út sem þarna skrifi hinn sanngjarni maður um glæp og refsingu og fljótlega kemur: "Sú reiði má ekki fá útrás í múgæsingi eða hefndarþorsta. Við búum í réttarríki og uppgjörið þarf að fylgja lögmálum þess."

Það er einmitt það sem sumir telja og þar á meðal ég að sé að gerast í dag, að það sé verið brjóta reglur réttarríkisins til að sefa reiði þjóðarinnar. En þú unir ekki öðrum að hafa aðra skoðun en þú. Vandlæting þín á þeim sem eru annarrar skoðunnar leynir sér ekki og sérstaklega þegar kemur að Ólafi Arnarsyni, sem hefur reynt að útskýra fyrir landsmönnum að hrunið var ekki aðeins Yngva Erni og öðrum bankamönnum að kenna.  Ólafur verður "Ólafur nokkur Arnarsson" og "Sá mikli álitsgjafi" sem augljóslega lýsir neikvæðu viðhorfi þínu til hans.

Það getur vel verið rétt það mat sumra, að aðkoma Evu Joly hafi beint rannsókn á bankahruninu í ragna átt  með því að einbeita sér að meintri markaðmisnotkunn bankanna, í stað þess að einbeita sér að þeim sem högnuðust persónulega á kostnað annarra. Það er ljóst að sérstakur saksóknari er ekki að einbeita sér að þeim aðilum.

Kv Jón Þorbjörnsson

Jón Þorbjörnsson, 19.1.2011 kl. 15:47

4 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Leikurinn Ríkið gegn níumenningunum fer trúlega 0:0. Það er tilhneiging hjá okkur að mildast í afstöðunni þegar frá líður og þeir, sem þóttu tiltektir "aðgerðasinnanna" slæmar á sínum tíma, hafa langflestir mildast í afstöðu sinni.

Núna hygg ég að tónninn sé: "Æ, er ekki best að sleppa krakkagreyjunum!" Fari svo, verður gaman að sjá upplitið á róttæka, unga fólkinu sem í hlut átti.

Flosi Kristjánsson, 19.1.2011 kl. 16:29

5 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Kæri Jón Þorbjörnsson. Reiðast eigum við ranglæti og glæpum. Ég er bara reiður út í íslenska landsliðið í handbolta þegar þeir klúðra leikjum. Hér á þessari síðu set ég fram skoðanir mínar. Aðrir geta að sjálfsögðu haft sínar og aðrar en ég. Hafi menn brotið lög eiga menn ekki að komast upp með það en það er rétt hjá þér að orsakir Hrunsins eru víðar en í lögbrotum.

Svavar Alfreð Jónsson, 19.1.2011 kl. 18:46

6 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Svavar Alfreð, þakka þér fyrir pistilinn að ofan. Það hefur ekki farið fram hjá mér undanfarið að spádómur Evy Joly birtist okkur víða í fjölmiðlum og í máli manna. Hún spáði því að þegar farið yrði að sækja af þunga að meintum brotamönnum í fjármálaheiminum vegna Hrunsins mundu verjendur þeirra og vildarvinir taka upp þá vörn að gera dómendur og saksóknara grunsamlega. Þetta birtist víðar. Ég tel að margir hafi farið unn á vafasamar brautir vegna níumenninganna sem gerðu óskunda á þingpöllum og það hef ég gagnrýnt hvernig RÚV, bæði Sjónvarp og Útvarp, hafa leyft gagnrýnendum réttarkerfisins að koma fram sérstaklega. Ég tel mjög mikilvægt að dómstólar og saksóknarar fái að starfa óáreittir, dómsvaldið er jú einn af hornsteinum lýðræðis í okkar landi.

Sigurður Grétar Guðmundsson, 20.1.2011 kl. 09:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband