Nægtaborð Marka

Fleira er eftirsóknarvert á Mörkum en markverðir staðir og merkisfólk. Til dæmis matur og drykkur eins og annars staðar á Ítalíu. Markversk (marchigiano) matargerðarlist á sér djúpar rætur í bændamenningu héraðsins. Heimilismaturinn þykir allrar fæðu fremstur og jafnvel á allra flottustu veitingastöðunum keppast kokkarnir við að elda matinn eins og amma, nonna, gerði það.

Fungisveppir og trufflurAðalsmerki matar á Mörkum er ferskt hráefni matreitt á einfaldan hátt. Matarhefðin er fjölbreytt og hefur hvert svæði sínar gömlu hefðir, cucina tipica. Eins og í öðrum sveitamat er leitað fanga út í náttúruna. Þar má m. a. finna fungisveppi, villta fugla, hnetur, kryddjurtir og síðast en ekki síst trufflur (jarðsveppi), eitt rómaðasta hnossgæti héraðsins.

Ítölsk matseld á nýtnina sameiginlega með þeirri íslensku. Á Mörkum tíðkast til að mynda að nota gamalt og hart brauð í mat ásamt afar athyglisverðum líkamspörtum svína. Lambið, agnello, er vinsælt á Mörkum eins og hér á landi. Saltfiskur, baccalla, fær munnvatnið til að renna í harðsvíruðustu kjötætum, eða saltaður þorskur, stoccafisso. Markverska útgáfan af plokkfiski nefnist á hinn bóginn brodetta. Áræðnir og nýjungadjarfir sælkerar fá sér seppie con piselli, kolkrabba með baunum. Villtur fugl, cacciagione, er enn einn sérréttur héraðsins. Villisvín, chingiale, kanínur, coniglio og sniglar, lumache, eru meðal þess sem sótt er út í náttúruna. Þá þykja dúfur, piccione, einstakt ljúfmeti og sakar ekki að þær séu fylltar, ripieno. Markverjar eru duglegir við að nýta svín til matargerðar, t. d. í ciauscolo, mjúkar salamípylsur, lonza, þurrkað svínakjöt eða hið fágæta hnossgæti fegatelli, svínslifur hjúpuð í líknarbelgsmör. Meðal markverskra osta er hinn skemmtilega braðgmikli formaggio di fossa. Pastaunnendum skal bent á passatelli, útbúið úr brauðmylsnu og osti eða vincisgrassi, hina markversku útgáfu af lasagne. Sveppir héraðsins eru frægir, porcini og áðurnefndar trufflur, tartufo. Gott er að ljúka máltíð með því að gæða sér á salami di fichi, fíkjum pressuðum í mót salamipylsu og fá sér glas af hinni einstæðu mungát vino visciolato, rauðvíni með ferskum kirsuberjum.

Síðasta áratuginn hefur orðið vakning í víngerð á Mörkum. Þar er hægt að fá ágæt vín fyrir lítinn pening en einnig dýrari veigar. Héraðið státar af nokkrum tegundum vini da meditazione, en þannig nefnast þau vín sem eru það góð að þeirra er neytt með trúarlegri lotningu.verdicchio

Hvítvín úr verdicchio þrúgunni flokkast með þeim bestu á Ítalíu, en þrúgan sú er upprunnin af Mörkum. Þau hafa grænan blæ, eru fremur þurr með snarpt eftirbagð og þykja sérlega góð með fiski.

Á Mörkum búa menn einnig til mörg afbragðs rauðvín. Meðal þeirra eru Rosso Conero úr Montepulciano þrúgunni, Rosso Piceno og Lacrima di Morro d´Alba.

Á Ítalíu er hægt að snæða á osteria, ristorante og trattoria. Nú á dögum er algengt að bestu staðirnir kalli sig osteria. Á ristorante er yfirleitt boðið upp á prentaðan matseðil, en þeir sjást sjaldan á trattoria, einföldustu matsölustöðunum. Sumir þeirra eru jafnframt pizzeria, en hafa ber í huga að pítsur fást venjulega ekki fyrr en á kvöldin, þegar búið er að kveikja upp í viðarofnunum.

Sælkerum skal bent á að vera vakandi fyrir auglýsingum um sagra, matarhátíðum með sérréttum staðanna. Í júní, þegar við Akureyringar dveljum á Mörkum, verður til dæmis ekki langt í  Sagra della Lumacha, sniglahátíð í þorpinu Pianello, og Sagra del formaggio pecorino, hátíð pekórínóosta í smábænum Apiro.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

ummm maður fær vatn í munninn !

fallegan sunnudag til þín

steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 25.3.2007 kl. 08:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband