La passeggiata

Ítalía 2005 005Hótelið okkar í Marotta í sumar stendur nánast á ströndinni eins og myndin með þessari færslu sýnir, en hún er tekin á veröndinni fyrir framan hótelið, þar sem upplagt er að fá sér kaffi eftir vambakýlingar inni í matsalnum. Milli hótels og strandar er aðeins mjó gata og þar er ekki nema mjög takmörkuð umferð vélknúinna ökutækja.

Á kvöldin er mikið af fólki á þessari þröngu strandgötu en á þeim tíma dagsins, þegar sól er svo lágt lotin að hún hættir að brenna á manni hörundið, upphefst vítt og breitt um Ítalíu siður sem nefnist la passeggiata. Hann felst í áhyggjulausu lötri um götur og stræti, ekki síst á göngusvæðum centro storico (sögulega miðbæjarins) borga og bæja.

Ítalir klæða sig gjarnan upp fyrir passeggiata og ferðamenn í stuttbuxum og ermalausum bolum skera sig vel úr hópi göngufólks. Eldri borgarar fá sér oft sæti inni á börum, dreypa á vínglösum og eru á útkíkki eftir efnilegum slúðurefnum. Oftar en ekki byrja ástarævintýrin nefnilega á la passeggiata og geta orðið þar jafn sýnileg og nýju skórnir.

Passeggiata nýtur sérstakra vinsælda á sunnudagskvöldum en þá aka margir til nálægra borga til að fá sér þar sína sérstöku kvöldgöngu.

Maður getur vel fundið fyrir þessum góða sið á veröndinni við Sólarhótelið (Hotel Sole). Þó að Marotta sé ekki nein stórborg er gaman að sitja þar í kvöldsvalanum og fylgjast með þeim sem um strandgötuna fara.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

''Í sumar''. Er það nk sumar eða sl. sumar. Einnig er ég forvitin afhverju þú ert svo fróður um ítalska menningu. Eitthvað sem þú drakkst í þig í 2ja vikna sumarfríi á staðnum, lestur eða...? Sorry, er bara forvitin.

Jóna Á. Gísladóttir, 21.4.2007 kl. 23:48

2 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Kæra Jóna. Við erum að fara í "safnaðarferð" til Ítalíu næsta sumar, 18 Akureyringar og við verðum á Sólarhótelinu á Mörkum. Það er hægt að lesa um þetta í fyrri færslum á blogginu mínu. Ég er enginn spesíalisti um ítalska menningu en hef farið þangað nokkrum sinnum. Síðast sumarið 2005. Þá gistum við á Sólarhótelinu. Ég fer helst aldrei neitt nema lesa mér til um áfangastaðina áður. Finnst það partur af ævintýrinu. Stundum er lesturinn meira að segja skemmtilegri en ferðin.

Ég hef sjaldan gist á jafn skemmtilegu hóteli og Hotel Sole í Marotta á Mörkum. Þetta er svona hæfilega lúið hótel, dálítið beygt af reynslunni, en með sál og engin Massentourismus eins og Þjóðverjinn segir. Það er rekið af Rapa-fjölskyldunni sem einnig rekur Hotel Casadei í næsta þorpi. Ef þú ert ítalófíl og ert á leiðinni þangað suður skal ég gefa þér adressuna.

Þú þarft ekkert að vera sorrý. Forvitni er í flestum tilfellum af hinu góða. Og hjartans þakkir fyrir áhugann.

Svavar Alfreð Jónsson, 22.4.2007 kl. 00:08

3 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Takk fyrir þetta. Er víst ekki á leiðinni neitt (sagt í bitrum tóni) en væri samt afskaplega þakklát ef þú gæfir mér adressuna og nenntir að smella henni á jonag@icelandair.is. Einhvern tíma mun ég fara til Ítalíu og þá er ekki verra að fara á stað sem Ítalíu-mógúll mælir með

Jóna Á. Gísladóttir, 22.4.2007 kl. 00:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband