Mýtan um tómar kirkjur

Því er gjarnan haldið fram að kirkjur landsins séu illa nýtt hús og þær standi meira eða minna hálftómar. Það er illa ígrunduð staðhæfing eins og fleira sem sagt er um kirkjuna.

Kirkjur á Íslandi eru býsna margar. Sumar þeirra standa í mjög fámennum byggðarlögum, jafnvel yfirgefnum. Ekki er við því að búast að þær fyllist af fólki nema nokkrum sinnum á ári hverju. Engu að síður þykir fólki vænt um þessa helgidóma sína. Gömlu íslensku sveitakirkjurnar eru margar mikil krútt. Þær hafa menningarsögulegt gildi auk þess að vera nýttar til helgihalds og athafna við tímamót í lífi fólks.

Aðrar kirkjur eru í fjölmennum byggðum og færist í vöxt að við þær séu höfð safnaðarheimili. Þar fer fram mjög margháttuð starfsemi. Kirkjukórar starfa við flestar kirkjur landsins, líka þær í dreifbýlinu. Þjóðkirkjan gengst fyrir kraftmiklu barna- og unglingastarfi. Haldnir eru tónleikar, ráðstefnur, fundir og námskeið í húsakynnum kirkjunnar. Fjölþætt starf fyrir eldri borgara er í safnaðarheimilunum, svo nokkuð sé nefnt.

Síðan er auðvitað messað í kirkjunum, þar er skírt, fermt, gift og grafið. Ferðamenn líta þangað inn til að eiga hljóða stund eða skoða markverða gripi.

Húsakynni Akureyrarkirkju, þar sem ég þekki vel til, eru mjög vel nýtt. Messusókn fólks fer vaxandi. Starfið verður sífellt þróttmeira og húsnæðið er fyrir löngu orðið af lítið fyrir það. Varlega áætlað koma um 100.000 manns í Akureyrarkirkju og Safnaðarheimilið á ári hverju.

Okkur finnst það bara harla gott.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

 Kirkjulegt starf hefur sótt miklum ofsóknum undanfarin ár og er mál að linni. Við verðum að fara að svara vantrúarfólki af fullum hálsi, því þeirra  lygi er að festa sig í sessi, stöndum vörð um kristni og kirkju á Íslandi

Guðrún Sæmundsdóttir, 14.5.2007 kl. 18:32

2 identicon

Mér finnst yndislegt að fara í messu og mín tilfinning er sú að það sé að færast í aukana að fólk sæki messur. Það færist yfir mig ró og friður eftir að hafa setið messu, svo ekki sé minnst á tónlistina, sem er alveg dásamleg. Og litlar, gamlar kirkjur eru með því sætasta sem fyrirfinnst, alveg yndislegar :)

Þorgerður (IP-tala skráð) 15.5.2007 kl. 01:26

3 identicon

Það er ekki sama kirkjusókn og kirkjusókn. Mæting í guðsþjónustur er eitt, en túrismi, AA-fundir, mömmumorgnar, tónleikar, ráðstefnur og því um líkt er allt annað mál. Þar nýtist húsnæðið einungis eins og hver annar fundarsalur og þessi starfsemi hefur yfirleitt lítið með helgihald eða annan átrúnað/kirkjustarf að gera.

Í raun finnst mér óheiðarlegt af kirkjunni að telja allt þetta starf með í tölum um kirkjusókn, auk þess að telja starfsfólk og túrista sem koma til að skoða bygginguna sem part af þessu. Þið ættuð að vera heiðarleg og gefa upp raunverulega kirkjusókn, þ.e. þann fjölda sem mætir til trúarástundunar í guðsþjónustur og messur. Og auðvitað ætti ekki heldur að telja með fermingarbörn sem skylduð eru til að mæta í nokkrar messur á ári, heldur aðeins þá sem mæta af fúsum og frjálsum vilja.

Birgir Baldursson (IP-tala skráð) 15.5.2007 kl. 10:56

4 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Hvað meinarðu Birgir?  Fermingarbörn eru ekki skylduð til að láta fermast, en auðvitað ef þau ætla að gera það þá verða þau að fá fræðslu um þá trú sem þau játast til!  Ertu að gera lítið úr trú þeirra sem leita styrks í henni þegar að áfengisbölið er að þjaka þá? Gamla fólkið mætir í sínar kirkjur á bænastundir og einnig er þá líka oft borðað saman föndrað eða tekið í spil. Samfélag er það sem Jesús boðaði. Tónlist í kirkjum er alltaf trúarleg tónlist sem er tilbeiðsluform til Jesú.  Af hverju ofsækir þú Birgir kristni og kirkjuna?

Guðrún Sæmundsdóttir, 15.5.2007 kl. 11:12

5 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Það er rétt hjá Birgi að sitthvað er kirkjusókn og kirkjusókn. Fólk kemur af ýmsum ástæðum í kirkju. Kannski fara einhverjir í messu bara til að heyra áhugaverða tónlist. Og svo kemur hellingur af túristum í kirkjuhúsið til að gera þar bæn sína. Hvers eiga svo fermingarbörnin að gjalda? Enginn er skyldugur að láta ferma sig og þeir sem ekki vilja láta ferma sig í kirkju geta valið borgaralega fermingu. Því má svo bæta við að í Akureyrarkirkju eru fermingarbörn ekki skylduð til að mæta í messur. Þau eru hvött til þess og meirihluti þeirra gerir það. Það lýsir að mínu mati ekki mikilli þekkingu á kirkjulegu starfi að halda því fram að ráðstefnur, heimsóknir ferðamanna, mömmumorgnar og tónleikar hafi lítið með kirkjulegt starf að gera eða átrúnað. Tónlist eftir Bach getur til dæmis verið á við margar prédikanir. Og hefur Birgir aldrei heyrt um díakónískt starf kirkjunnar?

En það er rétt að fólk hefur margar ástæður fyrir því að koma í kirkju og ekki eru gerðar neinar trúarhitamælingar á þeim sem þangað leggja leið sína. Pistillinn minn fjallaði heldur ekki um það, heldur um þá mýtu að kirkjurnar séu illa nýtt mannvirki. Ég sé ekkert óheiðarlegt við að benda á það.

Svavar Alfreð Jónsson, 15.5.2007 kl. 11:37

6 identicon

En það er þó engin mýta að kirkjurnar eru gernýttar í starf sem hefur ekkert með trúarástundun að gera.

Mér leiðist reyndar ákaflega þegar verið er að reyna að gera tónleikahald í kirkjum að einhverjum trúarathöfnum með svona eftiráskýringum. Ef mig skyldi langa til að mæta og hlusta á Bach, tónlistarinnar vegna þá er búið að gera mætingu mína að kirkjusókn og ástæðuna trúarlega fyrir það eitt að ég var á höttunum eftir tónlist og svo vildi til að konsertinn fór fram í guðshúsi.

Það er enginn að halda því fram að kirkjur sé illa nýttar sem húsnæði. Þegar menn tala um dræma kirkjusókn er auðvitað verið að tala um guðsþjónustur. Þið ættuð að prófa að aðskilja þá mætingu frá öðrum heimsóknum og birta sérstaklega, ef þið þá þorið.

Birgir Baldursson (IP-tala skráð) 15.5.2007 kl. 17:53

7 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ágæti Birgir. Hér hefur enginn verið að reyna að falsa neitt eða fela. Pistillinn minn fjallaði um þá goðsögn að kirkjur séu meira og minna tómar og vannýttar. Ég fagna því ef þú ert sammála mér um það.

Við erum á hinn bóginn ekki á einu máli um hvaða starfsemi í kirkjunum hafi með trúarástundun að gera. Auðvitað getur maður hlustað á Bach í kirkju án þess að þar liggi nokkrar trúarlegar ástæður að baki (þó svo að stór hluti tónlistar þess tónskálds hafi verið saminn Guði til dýrðar). Maður getur líka farið í messu án þess að trúin skipti þar nokkru máli, til dæmis til að hlusta á barnið sitt syngja með kórnum eða eitthvað svoleiðis. Erfitt getur verið að meta þetta.

Þú virðist ekki vera neitt tiltakanlega vel að þér um starf kirkjunnar. Þar fer ýmislegt fleira fram en messur. Tölur um sókn í messur, guðsþjónustur og helgihald í minni kirkju liggja fyrir og eru hreint ekkert feimnismál, en starf kirkjunnar, sem ætíð á sér trúarlegar rætur, tekur á sig ýmsar aðrar myndir. Kirkjan gengst til dæmis fyrir tónleikum, ráðstefnum og námskeiðum auk þess að bjóða upp á ýmiskonar samverur fyrir eldri borgara, konur, karla, börn og unglinga.

En þú ert á öðru máli: Ekkert nema messur er mælikvarði á starf kirkjunnar. Þú hefur auðvitað fullan rétt á því að hafa þá skoðun.

Lifðu heill.

Svavar Alfreð Jónsson, 15.5.2007 kl. 21:35

8 identicon

Mér finnst óheiðarleiki ykkar felast í því að flokka allt þetta starf, þar sem kirkjan virkar eins og hvert annað félagsheimili, undir kirkjusókn. Í hugtakinu kirkjusókn felst gamaldags hugmynd um það hlutverk sem kirkjuhús þjónuðu áður en þeim var breytt í félagsmiðstöðvar. Og þegar þið gefið út tölur um að svo og svo mörg þúsund manns hafi stundað kirkjuna veldur það þeim misskilningi að þar sé átt við messumætingu og helgihald, en ekki túrista að skoða freskur og steinda glugga.

Vinsamlegast skiljið þessa þætti að og sundurliðið næst þegar þið gefið út tölur um „kirkjusókn“.

Birgir Baldursson (IP-tala skráð) 15.5.2007 kl. 23:16

9 identicon

Hvernig er þetta annars talið? Er sjálfvirkur teljari fyrir ofan útidyrnar á kirkjunni? Nú tók ég einu sinni upp trommuleik á heila hljómplötu í kirkjuskipi Akureyrarkirkju og naut þess að virða fyrir mér hina litríku glugga bak við altarið á meðan. Voru allar mínar ferðir til og frá kirkjunni þessa daga taldar til kirkjusóknar það árið?

Birgir Baldursson (IP-tala skráð) 15.5.2007 kl. 23:21

10 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Já, Birgir, ég held að þú hafir dálítið gamaldags hugmyndir um starf kirkjunnar. Einu sinni voru ekkert nema messur í kirkjum. Nú er öldin önnur.

Ég bendi þér á að ég talaði hvorki um kirkjusókn né messusókn í pistlinum heldur þá sem komu í kirkjuna. Það gerði ég til að sýna fram á að það er ekki rétt að kirkjurnar séu tómar og vannýttar. Getur verið að það fari í taugarnar á þér að sjá slíkar tölur? Eigum við að segja: Í dag komu 200 manns í kirkjuna. 100 í viðbót komu án þess að heimsókn þeirra hafi haft með trúarástundun að gera en þeir eru ekki taldir með því það er ekki að marka.

Misstu samt ekki svefn yfir því að hafa hugsanlega hleypt upp tölum um gesti í Akureyrarkirkju um árið. Við vorum trúlega ekki byrjaðir að telja þá. Næst þegar þú kemur er samt vissara fyrir þig að biðja kirkjuvörðinn um að telja þig ekki.

Svo gleður það mig að þú skulir hafa notið þess að horfa á gluggana okkar.  Góða nótt og heilaga drauma.

Svavar Alfreð Jónsson, 15.5.2007 kl. 23:46

11 identicon

En hefur einhver haldið því fram að kirkjur standi tómar árið út og inn? Þær gera það einmitt ekki vegna þess að búið er að gefa þeim alls konar nýtt hlutverk, því messusóknin ein er svo slöpp.

 Orðið kirkjusókn felur í sér mætingu í helgihald. Það sjáum við ef við leysum upp nafnorðamyndina og tölum um að sækja kirkju. Sá sem mætir til að hlusta á Bach er ekki að sækja kirkju, hann er að sækja tónleika.

Verðum við ekki bara að  tala annars vegar um kirkjusókn og hins vegar kirkjuheimsóknir, þ.e. greina alveg á milli heimsóknanna eftir því hvað menn eru komnir til að sjá? Væri það ekki heiðarlegast?

Birgir Baldursson (IP-tala skráð) 17.5.2007 kl. 02:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband