Vantrú©

Nokkrir framtakssamir menn hafa lýst yfir eignarhaldi á vantrúnni. Líða þeir ekki að um hana sé misjafnt talað og telja þá persónulega að sér vegið, enda hafi þeir einkarétt á hvers konar vantrú.

Auðvitað hafa þeir engan einkarétt á henni - ekki frekar en á trúnni - því kristnir menn hafa löngum tekist á við vantrúna í sjálfum sér ekki síður en öðrum.

Í Íslenskri hómilíubók, þeirri gullnámu, er vantrúin nefnd örvilnun. Andstæða hennar er á hinn bóginn kölluð ofvilnun. Þetta er skemmtilegur texti og segir allt sem segja þarf:

"Örvilnun er verst allra synda, því að hún tortryggvir miskunn Guðs. En ofvilnun þar næst, því hún tortryggvir réttlæti hans. Örvilnun enn það næst að hyggjast eigi munu geta bætt syndir sínar með miskunn Guðs. Ofvilnun að ætla sér himinríki, þó að maður uni í stórglæpum og láti eigi af þeim né bæti yfir. Þeim mun er örvilnun verri en ofvilnun sem hún er réttri von ólíkari."

Þetta er snilldarlega sagt. Síðasta setningin er hreint dásemdardýpi. Prófið að láta hana renna í munni eins og grillaðan humar, góðan ís eða dýrt rauðvín. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: krossgata

Þetta er afar athyglisverður þankagangur og gaman að velta fyrir sér.

krossgata, 14.7.2007 kl. 01:46

2 Smámynd: halkatla

ég er ekki alveg inní þessu málfari en það er alveg rétt að vantrú er sorgleg af því að hún tortryggir miskunn Guðs og það er líka mjög ömurlegt þegar réttlæti hans er tortryggt. Það þarf ekki annað en líta á mannanna verk og hneygðir til að sjá að eitthvað er að á þeim bænum en ekki í himnaríki.

halkatla, 14.7.2007 kl. 10:08

3 identicon

Það er sorglegt þegar maður les þann vef sem Vantrú heitir,hvernig það fólk sem að honum stendur tekur fólk eiginlega af lífi ef það er ekki trúlaust eins og það.Mér hefur vegnað best með því að virða trú,lífskoðun,og annað sem fólki hugnast,en ekki hrauna yfir það og kalla fólk öllum illum nöfnum sem til eru.Eins og netið getur verið gagnlegt þá er það líka slæmt,ef ekki er umgengið um á heiðarlegan hátt.Það er ekki alltaf rétt sem á netinu er skrifað og sagt rannsakað,þá meina ég að benda á einhverjar síður sem seigja hitt og þetta,því það er yfirleitt samskonar síður og Vantrú er.

Böðvar Jónsson (IP-tala skráð) 14.7.2007 kl. 10:29

4 identicon

Jú, örvæntingarfull tilraun til þess að segja að menn sem eru ekki í hallelúja veseni séu í slæmum málum.
vantrú á jafn mikinn rétt á sér og trú.. efasemdarmenn eiga jafn mikinn rétt á að tjá sig og trúaðir.
Trúaðir verða að muna að guð gaf okkur heila til að hugsa en ekki til að vera mataðir eins og vélmenni.
Hvað er sorglegra við vef vantrúaðra en við vefi trúaðra... kannski eru báðir sorglegir en eitt er nokkuð víst að trú er mesti morðingi sögunnar.

DoctorE (IP-tala skráð) 14.7.2007 kl. 12:37

5 Smámynd: Sigurður Karl Lúðvíksson

HAHA, það er alveg stórkostlegt að horfa á þetta væl trúara. Það er aldrei ætlun guðleysingja að "taka neinn af lífi", það er hlutverk trúara. Hinsvegar má á lesa þegar guðleysingjar leggjast svo lágt að svara hálfvitaskapnum í trúurum er það annaðhvort gert með hæðni, enda annað varla hægt í ljósi aðstæðna, eða með röð einfaldra röksemdafærslna, sem í raun eru svo einföld að 5 ára barn getur lagt þessi rök fram, en samt megnað það að, miðað við allan eðlilegan standard, rústa hugmyndaheimi trúara í augum allra nema þeirra sjálfra. Greyin litlu, fáið þið ekki að heimskuvæða heiminn án gagnrýnis?

Sigurður Karl Lúðvíksson, 14.7.2007 kl. 13:51

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Óttinn er það sem stendur á milli guðs og manna.  Hugmyndin um að maður sé algerlega hér upp á eigin spýtur á eigin forsendum og þurfi að treysta á eigin ágæti.  Að hafa ekki traust eða trú á æðri handleiðslu.  Óttinn á heima í angist gærdagsins og kvíða framtíðarinnar.  Í óttanum nær hugurinn ekki að vera í líðandi stundu og manneskjan er fjarstödd lífið, sem á sér stað akkúrat hér og nú. ´´I núinu skortir mann ekkert ef manni tekst að halda sig í því.  Í núinu er maðurinn því þakklátur.  Þakklátt hugarfar er óttalaust og leiðir til betri hluta í komandi augnablikum. 

Jón Steinar Ragnarsson, 14.7.2007 kl. 17:39

7 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Hvaða framtakssömu menn eru þetta? Og hvar hafa þeir lýst yfir eignarhaldi á vantrúnni?

Annars er það hárrétt hjá þér síra minn að Íslenska hómilíubókin er gullnáma, prófið að láta þessar tvær setningar renna í munni eins og grillmat eða ekta 
eldbökuð ítölsk pizza:

"Frá þeim dómi fara síðan Guðs rekningar í mein og í myrkur með fjánda og í meiri angursemi á hverja lund en maður megi engi hyggja svo mikla vesöld sem hún er. Og skulu þær píningar aldregi endast, er Guð lætur þá þaðan frá hafa í helvíti."

Skemmtilegur texti sem segir allt sem segja þarf.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 14.7.2007 kl. 20:13

8 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ég þakka athugasemdirnar. Nokkrar þeirra fjalla reyndar ekki um pistilinn minn - og eru því miður ekki svaraverðar. Þegar ég held því fram að einhverjir telji sig hafa einkarétt á vantrúnni á ég við að nokkuð hefur borið á tiltekinn hópur manna telur gagnrýni á vantrú nánast persónulegar árásir á sig. Um leið hika sömu menn ekki við að spyrða saman trú og manndráp og kalla trúað fólk ónefnum. Auðvitað er kristin trú ekki hafin yfir gagnrýni en hafi einhverjir þörf fyrir að ausa svívirðingum yfir fólk bið ég þá að gera það annars staðar en hér. Ég vil sérstaklega þakka Jóni Steinari hans frábæra innlegg. Svo verð ég að hrósa Hjalta fyrir að hafa fundið þennan texta í Hómilíubókinni. Þar er ekki mikið um helvítisprédikanir (en bókin er prédikanasafn og elsta íslenska bókin). Hjalti hefur því þurft að hafa töluvert fyrir því að finna þessar línur. Menn leggja ýmislegt á sig fyrir málstaðinn.

Í Handritaspjalli segir Jón Helgason þetta um Hómilíubókina: "...óvíða flóa lindir íslenzks máls tærari en í þessari gömlu bók, og er sá íslenzkur rithöfundur sem ekki hefur þaullesið hana, litlu betur undir starf sitt búinn en sá prestur sem enn á ólesna fjallræðuna" Ég vona að Hjalti haldi áfram að njóta bókarinnar.

Svavar Alfreð Jónsson, 15.7.2007 kl. 13:10

9 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Það er dyggð að koma sér beint að efninu. T.d. spurði ég þig að því hverjir þessir "framtakssömu menn" væru, þá segirðu að það sé "tiltekinn hópur manna" sem spyrðir saman trú og manndráp og kallar fólk ónefnum. Hvaða hræðilega fólk er þetta eiginlega?

Það var ekki mikið mál að finna þennan texta, ég valdi hann úr nokkrum góðum svipuðum stöðum sem ég fann. Það er þó kostur við Íslenski hómilíubókina að þar er þorað að segja hreint út, t.d. efast ég um að Svavar vilji segja álit sitt á gullmolanum sem ég fann.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 15.7.2007 kl. 22:49

10 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Rétt hjá þér, Hjalti, það er dyggð að koma sér beint að efninu. Ef þú vilt fræðast um hugmyndir miðaldafólks um helvíti hefði þess vegna verið rétt að spyrja um það beint. Það gerðir þú reyndar ekki heldur fórst krókaleiðir og dylgjaðir t. d. um hugrekki mitt og vilja til að segja það sem mér finnst. Ég bendi líka á að pistillinn minn fjallar ekki um það hverjar hugmyndir menn höfðu um helvíti á miðöldum. Það er á hinn bóginn áhugaverð spurning og getur vel verið að ég fjalli um það einhvern tíma hér á síðunni minni.

Ég held - svo ég komi mér beint að efninu - að þú hafir í raun og veru  mjög takmarkaðan áhuga á því að heyra hvað mér finnst. Þú hefur - svo ég tali hreint út - fyrst og fremst áhuga á því að munnhöggvast við mig. Á sama tíma og þú skrifaðir hér á bloggið mitt birtist grein eftir þig á vefriti nokkru þar sem prestar þjóðkirkjunnar eru kallaðir hræsnarar. Við höfum líka verið kallaðir lygarar og öðrum jafnvel enn verri ónefnum á þessu sama vefriti. Ég held að tíma þínum sé betur varið í eitthvað annað en að tala við hræsnara og lygara - ekki satt? Ekki misskilja mig, ég er ekkert hræddur við þig eða þína líka. Ég hef bara annað og betra við tíma minn að gera en að standa í svona skylmingum - hreint út sagt.

Svavar Alfreð Jónsson, 16.7.2007 kl. 12:09

11 Smámynd: Sigurður Karl Lúðvíksson

Hreint út sagt, Svavar, hættu þá í þjóðkirkjunni, stofnaðu klúbb og dýrkaðu þinn guð í hópi áhugasamra eins og Jesú fyrirskipaði í biblíunni. Það er stofnannavæðing trúarinnar sem er mesta hræsnin. Að klæða sig upp í skikkju og kraga og þusa yfir sauðsvörtum almúganum 2000 ára gömlum heimsku- og hræðsluáróðri sem fer í taugarnar á vitibornu fólki. Ljúgandi að börnum, hótandi vítiseldi, þetta er ekkert annað en barnaníð og ætti að vera sótt til saka og refsað harðlega.

Svavar, sýndu hugrekki, slíttu af þér þessa sértrúarsafnaðarfjötra og sýndu og sannaðu fyrir sjálfum þér, ekki öðrum, að trú þín á guð er einlæg, ekki einungis afsprengi þess að þú fæddist á Íslandi, af trúuðum foreldrum. Hvað hefði gerst ef þú hefðir fæðst í mið-austurlöndum, þá værirðu múslimi, gætirðu hugsað þér að gerast múslimi. En ef þú hefðir fæðst á Indlandi, þá værirðu hindúi. Hvernig dettur þér í hug að þín trú sé réttari en önnur, bara af því að þú fæddist á því svæði sem hún er iðkuð. Þetta kallast hræsni, og hún er mikil. Það á engin að þurfa að vera ofurseldur slíkri hræsni samfélagsins sem það fæðist inn í.

Ég er sannfærður um að þú sért sammála mér, því ég leyfi þér að njóta vafans um að þú ert vitiborin manneskja. Það er hinsvegar hræðslan við að ganga gegn því sem þú ert alinn upp við og kennt alla þína æsku, það krefst hugrekkis og er ein mesta dyggð kristindómsins. Sýndu guði þínum það í verki og kastaðu af þér ríkistrúnni, stofnannavæddu hræsnisbákninu og taktu upp sannan lærdóm Jesú, í einrúmi eða með þeim sem vilja og hafa aldur til að skilja.

Sigurður Karl Lúðvíksson, 16.7.2007 kl. 14:17

12 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Svavar, fyrst þú ert sammála því að það sé dyggð að koma sér beint að efninu, gætirðu þá sagt hreint út hver þessi "tiltekinn hópur manna" er og hvar þeir hafa sagst hafa einkarétt á hvers konar Vantrú?

En svo ég komi mér beint að efninu þá er það rétt að ég hef takmarkaðan áhuga á hugmyndum miðaldarfólks um helvíti. En tilgangur þess að vitna í þessar setningar var tvískiptur:

1. Benda á að það sem þú kallaðir "gullnámu" væri í raun bók sem hefði viðurstyggilegan boðskap, að algóð vera myndi kvelja stóran hluta mannkynsins að eilífu. Þetta tengist efni pistilsins.

2. Að þú myndir af einhverjum ástæðum ekki geta tjáð þig um þetta. Prestar Þjóðkirkjunnar virðast hafa glatað þeirri þekkingu sem kristnir menn hafa haft um lífið eftir dauðann síðustu 2000 árin. Allan þann tíma hafa þeir vitað að sumir myndu kveljast að eilífu á meðan aðrir lentu í eilífri sælu hjá guði.

En það er ekki satt að ég hafi takmarkaðan áhuga á því hvað þér finnst. Þú ert nefnilega þjóðkirkjuprestur, og það er afar sjaldgæft að þjóðkirkjuprestar tali hreint út um hverju þeir trúa.

Já, ég hef oft kallað þjóðkirkjupresta hræsnara, og það sem mikilvægara er, þá rökstyð ég það. Hvað er að því? Eða er það slæmt að kalla presta almennt hræsnara? Er slæmt að fylgja fordæmi Jesú?

"Við höfum líka verið kallaðir lygarar og öðrum jafnvel enn verri ónefnum á þessu sama vefriti."

Ég man ekki eftir því að þið hafið verið kallaðir lygarar, en ef svo var, þá er það líklega ekki að ósekju. Enda kennið þið margt sem sannleika sem þið ættuð, menntunar ykkar vegna, að vita að er ekki satt, t.d. sannleiksgildi fæðingarfrásagna Jesú.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 16.7.2007 kl. 15:22

13 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Áfram skal haldið með skylmingarnar.

Ég er búinn að svara fyrstu spurningunni þinni, gerði það í nr. 11.

Ég dreg ekki í efa að þú sjáir margt "viðurstyggilegt" í Hómilíubókinni. Þú finnur heldur aldrei hreint gull í gullnámum heldur þarftu að leita þess í grjótinu.

Ég er held ég ekkert feiminn við að segja hverju ég trúi. Held m. a. út þessu bloggi þar sem ég hika ekki við að tjá mig um trúarleg efni. Mörgum sinnum í mánuði hverjum tala ég um lífið fyrir og eftir dauðann á opinberum samkomum.

Þér er velkomið að kalla okkur prestana hræsnara og lygara. Be my guest. Mér fannst bara athyglisvert að þú skulir hafa svo mikinn áhuga á að tala við fúskara sem ekkert er að marka.

Og gott ef þú vilt fylgja fordæmi Jesú Krists - að þessu leyti - því sjálfsagt má margt að okkur prestunum finna. Ónýtir þjónar erum vér. Við gætum aldrei unnið vinnuna okkar, að boða fagnaðarerindið, nema með Guðs hjálp og góðra manna.

Svavar Alfreð Jónsson, 16.7.2007 kl. 16:26

14 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

"Ég er búinn að svara fyrstu spurningunni þinni, gerði það í nr. 11."

Mér finnst þetta vera barnalegt af þér. Þú svarar ekki spurningunni með því að segja að þetta sé "ákveðinn hópur manna". Hvaða menn eru þetta? Hvaða hópur er þetta? Ég sem hélt að þér þætti það dyggð að koma sér beint að efninu.

"Ég dreg ekki í efa að þú sjáir margt "viðurstyggilegt" í Hómilíubókinni. Þú finnur heldur aldrei hreint gull í gullnámum heldur þarftu að leita þess í grjótinu."

Málið er ekki svo einfalt, því þessi óhreinindi í gullinu smita út frá sér. Alls staðar þar sem þú sérð talað um gæsku guðs í Hómilíubókinni, þá þarf maður að lesa það í stærra samhengi, þessi guð ætlar að kvelja fólk að eilífu.

"Ég er held ég ekkert feiminn við að segja hverju ég trúi. Held m. a. út þessu bloggi þar sem ég hika ekki við að tjá mig um trúarleg efni. Mörgum sinnum í mánuði hverjum tala ég um lífið fyrir og eftir dauðann á opinberum samkomum."

Fyrst þú ert ekki feiminn, þá gætirðu kannski sagt hvort þú sért sammála því að guð mun láta suma menn kveljast að eilífu eða ekki?

"Þér er velkomið að kalla okkur prestana hræsnara og lygara. Be my guest. Mér fannst bara athyglisvert að þú skulir hafa svo mikinn áhuga á að tala við fúskara sem ekkert er að marka."

Eins og ég benti á í síðustu athugasemdinni, þá er áhuginn svona mikill vegna þess að það er afar sjaldgæft að þjóðkirkjuprestar vilji ræða þessi mál við fólk, fyrir utan auðvitað leik- og grunnskólabörn.

Ég man ekki eftir því að hafa kallað presta almennt lygara, en það gæti vel verið, enda finnst mér það jaðra við lyga að segja, gegn betri vitund, að frásagnirnar af fæðingu Jesú séu sannar. En ég hef oft kallað presta hræsnara og mun gera það áfram, nema einhver sýni mér fram á að rökstuðningur minn í þeim efnum sé gallaður.

En mér finnst ótrúlegt að þú hafir svarað mér núna í þrígang, en enn hefurðu ekki getað komið því út úr þér hvaða hóp þú varst að tala um og hvar þessi hópur sagðist hafa einkarétt á hvers konar vantrú.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 16.7.2007 kl. 17:36

15 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ég ætlaði að hætta skylmingunum en sé að svar mitt í nr. 11 hefur eitthvað klúðrast og því ekki nema sanngjarnt að ég endurtaki það hér, til að taka af öll tvímæli. Þetta er ekkert flókið. Þegar menn taka gagnrýni á vantrú sem persónulega árás á sig sem hóp, sem sérstaka vantrúarsinna, finnst mér að þeir hafi eignað sér vantrúna. Í pistlinum bendi ég á að líka trúað fólk glímir við vantrú. En nafnalista get ég því miður ekki skrifað.

Það er held ég mikill misskilningur hjá þér Hjalti að þjóðkirkjuprestar vilji ekki ræða trúmál. Þeir hafa ánægju af því - auk þess sem þeir vinna í bransanum. Þjóðkirkjuprestar á höfuðborgarsvæðinu eru til viðtals í kirkjum og safnaðarheimilum. Auk þess eru þeir ábyggilega tilbúnir að hitta þig annars staðar, heima hjá þér eða á kaffihúsi - þó að þú sért hvorki leik- né grunnskólabarn.

Ef þú átt leið norður skal ég með ánægju spjalla við þig. Eflaust hefðum við báðir gagn og jafnvel gaman af.

Svavar Alfreð Jónsson, 16.7.2007 kl. 21:20

16 identicon

"Þegar menn taka gagnrýni á vantrú sem persónulega árás á sig sem hóp, sem sérstaka vantrúarsinna, finnst mér að þeir hafi eignað sér vantrúna"

Sami maður skrifar:

"Á sama tíma og þú skrifaðir hér á bloggið mitt birtist grein eftir þig á vefriti nokkru þar sem prestar þjóðkirkjunnar eru kallaðir hræsnarar. Við höfum líka verið kallaðir lygarar og öðrum jafnvel enn verri ónefnum á þessu sama vefriti."

Þannig að Svavar "má" taka því illa þegar talað er hreinskilnislega um presta, en trúleysingjar eiga að hans mati bara að halda kjafti þegar hann (eða biskup) níða trúleysingja.

"Hræsni" er orð dagsins.

Matthías Ásgeirsson (IP-tala skráð) 17.7.2007 kl. 09:46

17 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Í rökþroti er gjarnan til þess gripið að láta sem andstæðingar sínir hafi sagt eitthvað og mótmæla því. Þau úrræði eru notuð hér. Ég hef aldrei sagt að trúleysingjar eigi að þegja, hvað þá að "halda kjafti", þegar þeir eru "níddir". Ég kannast heldur ekki við að hafa "nítt" trúleysingja. Ég hef til dæmis ekki kallað þá lygara eða hræsnara (hvað þá sakað þá um barnaníð).

Mér finnst sjálfsagt að trúleysingjar segi frá því hverju þeir trúa ekki. Mér finnst líka sjálfsagt að þeir gagnrýni trú og kirkju,  á umbúðalausan hátt ef mönnum sýnist. Á sama hátt finnst mér ekki nema eðlilegt að trúað fólk gagnrýni vantrúna. Í pistlinum hér að ofan benti ég að óþarfi væri að taka slíkri gagnrýni sem persónulegri árás á trúleysingja - m. a. vegna þess að trúleysingjar eiga ekki vantrúna. Hin trúarlega sálarveröld er ekki svarthvít. Í hjarta trúaðs manns takast á trú og vantrú. Jesús skammaði lærisveina sína fyrir vantrú. Og ef til vill vottar líka stundum fyrir trú í hjarta þess vantrúaða og jafnvel þess sem lýsir sig trúlausan með öllu?

Svavar Alfreð Jónsson, 17.7.2007 kl. 10:55

18 identicon

Ég hef til dæmis ekki kallað þá lygara eða hræsnara (hvað þá sakað þá um barnaníð).

Tengist það því nokkuð að þessir trúleysingjar hafa ekki logið, hræsnað eða stundað trúleysisboð í leikskólum?

Þetta er einfalt mál.  Svavar skrifar hér pistil þar sem hann talar um vantrú með hætti að trúleysingjum líkar ekki.  Þeir gera því athugasemdir við málflutningar Svavars.

Hvað er athugavert við það?  Hví eyðir Svavar athugasemdum þeirra (minni) og af hverju dylgjar hann um þá, m.a. með því að segja að þeir séu að reyna að eigna sér vantrúna?

Að lokum.  Það er auðvelt að afgreiða Vantrú og þá að honum standa með því að taka orð úr samhengi - en allt sem við skrifum rökstyðjum við og þegar okkur er bent á villur leiðréttum við.

Matthías Ásgeirsson (IP-tala skráð) 17.7.2007 kl. 14:42

19 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

"Þegar menn taka gagnrýni á vantrú sem persónulega árás á sig sem hóp, sem sérstaka vantrúarsinna, finnst mér að þeir hafi eignað sér vantrúna. Í pistlinum bendi ég á að líka trúað fólk glímir við vantrú. En nafnalista get ég því miður ekki skrifað."

Geturðu nefnt einhvern? Eða er þetta bara einhver ímyndaður andstæðingur?

Finnst þér það virkilega skrýtið að trúlaust fólk gagnrýni það að þú sért að
reyna að tengja saman vantrú og græðgi? 

"Það er held ég mikill misskilningur hjá þér Hjalti að þjóðkirkjuprestar vilji ekki ræða trúmál."

Fyrst þú hefur gaman af því að ræða trúmál, þá langar mig að koma með eina litla spurningu: Trúir þú því að þeir sem Jesús mun fordæma muni kveljast
að eilífu? Ef svarið verður það að ég verði að fara alla leið til Akureyrar til þess að fá svar við þessari spurningu, þá held ég að þú getir ekki haft gaman af því að ræða hana.

"Ég kannast heldur ekki við að hafa "nítt" trúleysingja. Ég hef til dæmis ekki kallað þá lygara eða hræsnara (hvað þá sakað þá um barnaníð)."

Af hverju segirðu að ég sé að níða presta þegar ég kalla þá réttilega hræsnara? 

Hjalti Rúnar Ómarsson, 17.7.2007 kl. 16:28

20 identicon

Böðvar ritar:

 "Það er sorglegt þegar maður les þann vef sem Vantrú heitir,hvernig það fólk sem að honum stendur tekur fólk eiginlega af lífi ef það er ekki trúlaust eins og það"

Sniðugt að aldrei taka þeir sem dylgja um Vantrú nokkur dæmi til að rökstyðja mál sitt.

Matthías Ásgeirsson (IP-tala skráð) 19.7.2007 kl. 00:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband