Hvað er fyndið?

Í umræðum um símaauglýsinguna frægu kom margoft fram sá misskilningur að með því að segja hana ósmekklega væri verið að segja hana ófyndna. Þeir sem hneyksluðust á auglýsingunni voru sakaðir um húmorsleysi.

Þær ásakanir hafa ábyggilega átt við rök að styðjast í einhverjum tilfellum en samt er það þannig að þó manni finnist eitthvað ósmekklegt er ekki þar með sagt að manni finnist það ekki fyndið. Smekkleysa getur verið drepfyndin.

Stundum eru m. a. s. einu réttu viðbrögðin við ósmekklegheitum að hlæja að þeim.

Kræfur gagnrýnandi símaauglýsingarinnar þyrfti í raun að byrja á því að skilgreina hvort tveggja, ósmekklegheitin og fyndnina.

Ég hef verið að íhuga það síðarnefnda svolítið og fletti í þeim tilgangi bókinni Erlösendes Lachen eftir félagsfræðinginn Peter L. Berger (heitir á frummálinu Redeeming Laughter).

Heimspekingar hafa ekki fjallað mikið um kómík. Tvennt hafa þeir þó bent á um það fyndna.

Í fyrsta lagi er það fyndna bæði huglægt og hlutlægt. Það fyndna er ekki einungis að finna í skynjun mannsins. Það fyndna „er til" þótt ekki hafi allir sama skopskyn.

Í öðru lagi er það sem er fyndið alltaf á einhvern hátt fólgið í þversögninni milli reglunnar og óreiðunnar. Maðurinn er í stöðugri leit að skikkan í kaótískum heimi. Kómíkin er spennan þar á milli.

Það fyndna verður til þegar reglur eru brotnar, lögmál rofna og það óvænta gerist.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Ég er mjög mikill humoristi og hláturmild en það er að mínu mati ekkert fyndið við þessa auglýsingu mér finnst hún með afbrigðum leiðinleg.

Þórdís Bára Hannesdóttir, 18.9.2007 kl. 17:22

2 identicon

Ég held að ég æli ef ég lesi meira um þessa auglýsingu. Það er í fyrsta lagi liðið sem telur sig yfir það hafið að búa við tjáningarfrelsi, og í öðru lagi fólk sem heldur að það skipti einhverju andskotans máli hvað því finnist um hinar eða þessar auglýsingar.

Ef manni finnst eitthvað ekki fyndið, þá á maður einfaldlega ekki að hlæja. Og fá sér síðan líf við tækifæri, og hætta að velta sér upp úr þvíumlíkum smámunum.

Djöfulsins VÆL alltaf í Íslendingum. Ég skammast mín fyrir að einu sinni taka þátt í þessari "umræðu". Þetta lið, sem telur trúfrelsi þýða að enginn megi móðga trúna, ætti að finna sér eitthvað mikilvægara í lífinu að gera. Að leika sér í bílaleik er betri tímanýting en að hneykslast á einhverju svona.

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 18.9.2007 kl. 19:05

3 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Hér er enginn að hneykslast á neinu, nema þá kannski þú, Helgi Hrafn.

Hér er heldur ekkert væl í gangi - nema þá væl vandlætarans yfir vælinu í öðrum. 

Þessi blessaða auglýsing varð mér einfaldlega tilefni til að hugsa um hvað sé fyndið og hvað ekki.

Eða má kannski ekki tjá sig um það?

Svavar Alfreð Jónsson, 18.9.2007 kl. 20:09

4 Smámynd: Jóhann Elíasson

Já, já Helgi farðu bara í bílaleik.  Það er kannski ekki verið að hneykslast á því að menn "noti" trú í auglýsingar ég er ekki beint hneykslaður því umrædd auglýsing er vel unnin og ekkert undan fagmennsku þar að kvarta en er ekki eitthvað orðið að í gildismati okkar? Er ekkert í dag sem er "heilagt"? Ég man eftir því úr sveitinni í gamla daga, þá var "þjóðsöngurinn" alltaf leikinn í dagskrárlok í sjónvarpinu, ef maður náði ekki að slökkva á sjónvarpinu áður en þjóðsöngurinn byrjaði, þá varð að bíða uns lagið var búið, mér varð einu sinni á að slökkva á sjónvarpinu þegar þjóðsöngurinn var, mér var nú ekki refsað líkamlega en ég fékk ansi hressilegt "tiltal" og það man ég enn þann dag í dag.  Frelsið til að gera alla skapaða hluti er orðið svo mikið að það er jafnvel farið að hefta okkur, margir eru bara í því að reyna á þolrif fólks og reyna að hneyksla sem flesta.  Og tala um djöfuls væl í Íslendingum, þá ættir þú Helgi Hrafn að prófa að búa í öðru landi,  ég bjó í nokkur ár í Noregi og get ég sagt þér að mjög margir hlutir, sem eru OK hér á landi yrðu aldrei samþykktir þar.  Í Noregi er þónokkur agi, sem er ekki hér á landi, en samt sem áður una menn þokkalega við sitt.

Jóhann Elíasson, 18.9.2007 kl. 20:46

5 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Þórdís, Helgi Hrafn og Jóhann: Málið snýst ekki um hvort umrædd auglýsing hafi verið fyndin, ósmekkleg eða vel gerð. Gleymið þessari auglýsingu! Í pistlinum bendi ég á að það ósmekklega geti verið fyndið og ég velti því fyrir mér hvað sé fyndið. Ætlaði að reyna að vera dálítið heimspekilegur en þið sjáið ekkert annað en þessa auglýsingu. Það er eiginlega dálítið fyndið og ég fer brosandi í rúmið. Góða nótt.

Svavar Alfreð Jónsson, 18.9.2007 kl. 22:29

6 Smámynd: Haukur Viðar

Geta ekki allir verið sammála um eftirfarandi?

"Fólk að detta.....það er fyndið"

Haukur Viðar, 18.9.2007 kl. 23:53

7 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Haukur Viðar hittir naglann á höfuðið enda af miklum gáfumönnum kominn. Í einu rita sinna hefur Plató smásögu eftir Sókratesi. Vitringurinn Þales var á göngu og góndi svo mikið upp í loftið að hann datt ofan í brunn. Heimspekingarnir eru m. ö. o. svo uppteknir af því sem er fyrir ofan þá að þeir þekkja ekki það sem fyrir fótum þeirra liggur. Þetta er talinn elsti brandarinn og ágætt dæmi um að það kómíska er alltaf einhvers konar röskun.

Svavar Alfreð Jónsson, 19.9.2007 kl. 08:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband