Böðlar og bjargvættir

Enda þótt ég sé oft ekki alveg nógu góður og mér sé á margan hátt ábótavant, hugga ég mig við að aðrir eru ekkert skárri. Sumir jafnvel verri. Unga fólkið er á villigötum og heimur versnandi fer. Sagan geymir fjölmörg dæmi um grimmd og mannvonsku. Fortíð og framtíð virðast jafnslæm.

Ýmislegt bendir til þess að þó að ég sé ekki nógu góður sé ég samt illskástur.

Breski sagnfræðingurinn Martin Gilbert skrifaði áhrifamikla bók um Helförina. Ég á erfitt með að ímynda mér að mannfyrirlitning og hatur geti náð hærra stigi en þar er lýst. Mikið getur manneskjan verið vond. Þegar ég les um alla fólskuna sé ég að níðingarnir eru það miklu verri en ég að mér líður eins og einstöku góðmenni, sem er notaleg tilfinning.

Martin Gilbert skrifaði aðra bók, Hinir réttlátu, um hetjurnar í Helförinni, þá sem lögðu eigið líf og líf fjölskyldna sinna í hættu til að bjarga Gyðingum. Bókinn er byggð á 25 ára löngum rannsóknum á staðfestum tilfellum úr Helförinni. Og hún er þykk, ánægjulega þykk og feit, á sjötta hundrað síður.

Á þessum miklu ógnartímum var til fólk sem var tilbúið að fórna öllu til að bjarga einum. Að vísu voru hinir fleiri sem ekki sýndu sama hugrekkið, grátlega miklu fleiri, en þessi veröld átti fólk sem sýndi mennsku, kærleika, fórnfýsi og ótrúlegan kjark, gaf flóttafólki mat, skaut yfir það skjólshúsi og faldi það og varði með öllum tiltækum ráðum. Líka þótt á þessum tíma væru skýr viðurlög við því að hjálpa Gyðingum: Fólk var tekið af lífi, oft á staðnum, og fjölskyldunnar allrar gátu beðið sömu örlög.

Böðlarnir eru verri en maður sjálfur. Auðvelt er að finna fyrir feginleika faríseans þegar óhæfuverk þeirra verða ljós og hugsa: "Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og þeir. Ég þakka þér að þeir eru verri en ég."

Erfiðara er að lesa um bjargvættina, þá réttlátu. Hvernig hefði ég brugðist við? Hefði ég verið tilbúinn að hætta öllu fyrir manneskjur sem ég þekkti ekki neitt?

Ég þori varla að hugsa svarið og um mig fer hrollur þegar ég uppgötva að ef ég hefði ekki verið tilbúinn að hjálpa þessu fólki hefði ég trúlega ekki verið langt frá því að gerast einn af böðlum þess.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: krossgata

Auðvitað ef maður svarar í fljótheitum er maður einn af bjargvættunum og maður vildi svo miklu frekar vera sú manneskja.  En það er ómögulegt að segja hvort maður hefði eða hafi þann styrk þegar á hólminn væri komið.  Á maður að vonast til þess að lenda aldrei í þeim aðstæðum að þurfa að gefa sér svar?

krossgata, 29.9.2007 kl. 12:40

2 identicon

Darley og Batson eru tveir félagssálfæðingar sem settu upp tilraun 1973 útfrá dæmisögunni um miskunnsama samverjann.  Þátttakendur voru nemendur í guðfræðikúrs við Princeton háskóla. Þeim var sagt, einum í einu að þeir ættu að halda tölu í annarri byggingu. Á leið þangað var leikari sem lést vera meiddur. Tilraunin gekk út á að athuga hvort þeir myndu hjálpa manninum.

Nemendurnir áttu annaðhvort að tala um dæmisöguna um miskunsama samverjann eða annað efni. Einnig var nemendunum sagt að hraða sér mis mikið. Einum hópnum var sagt að þeir væru orðnir seinir og þyrftu því að drífa sig, öðrum hóp vavr sagt að ef það legði af stað núna kæmi þa akkúrat stundvíslega og þrðija hópnum var sagt að ef það legði nú af stað myndi það mæta snemma.

Niðurstöður voru þær að það skipti ekki máli um hvað nemendurnir áttu að ræða, það sem skipti máli var í hversu miklum flýti viðkomandi var. 63% þeirra sem voru ekki í neinum flýti hjálpuðu manninum, 45% þeirra sem mundu mæta tímanlega, og einungis 10% þeirra sem voru of seinir.

Oftast nær skipta aðstæðubundnir þætti meira máli varðandi hjálpsemi en innri þættir. Eins varðandi grimmd. Ef áhugi er á því að vita hversvegna svo margir þjóðverjar tóku þátt í helförinni má líta á fræga tilraun Milgram (1963).

Bjarki Þór Baldvinsson (IP-tala skráð) 29.9.2007 kl. 13:02

3 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Þetta er mjög athyglisvert. Samverjinn hefur ábyggilega þurft jafn mikið að flýta sér og presturinn og levítinn í sögu Jesú svo það væri fróðlegt að heyra hvers vegna þessi 10% sem voru of seinir sáu ástæðu til að hjálpa manninum.

Svavar Alfreð Jónsson, 30.9.2007 kl. 17:30

4 identicon

Kristilegt innræti?

Bjarki Þór Baldvinsson (IP-tala skráð) 30.9.2007 kl. 23:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband