Blogg sem enn er verið að skrifa

bidukollaUm suma er sagt að þeir séu óskrifað blað. Ég held að ekki sé síður gott en slæmt að vera óskrifað blað. Það er meiri spenna í því að vera óskrifaður.

Sé maður þéttskrifaður er þá nokkru við að bæta?

"Vindurinn blæs þar sem hann vill, og þú heyrir þyt hans. Samt veistu ekki hvaðan hann kemur né hvert hann fer. Svo er um hann sem er af andanum fæddur," sagði Jesús við Nikódemus.

Ekki virðist það beinlínis vera aðlaðandi að vera af andanum fæddur. Finna vindinn blása og vita hvorki hvaðan hann kemur né hvert hann fer.

Við viljum vita hvaðan og enn frekar hvert. Annars verðum við óörugg.

Blöðin okkar þurfa að vera býsna vel skrifuð. Óskrifuð blöð eru ávísanir á svefnlausar nætur, háan blóðþrýsting og magasár.

Þess vegna herðum við tökin á tilverunni. Vitum ekki okkar rjúkandi ráð þegar við missum þau og finnum hvorki hvaðan vindurinn kemur né hvert hann fer.

Sú árátta okkar að þurfa að kasta eign okkar á sem flest og mest er birtingarmynd þess óöryggis.

Mikið er hún sönn sagan af manninum sem hékk í hríslunni á klettabrúninni og bað Guð að bjarga sér.

Og Guð svaraði honum og sagði:

"Þú þarft ekki að gera nema eitt til að ég bjargi þér og það er að sleppa hríslunni."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Önnur útgáfa af sögunni um manninn sem hékk á hríslunni og bað Guð að hjálpa sér. Hann komst svo aftur upp á brúnina og heyrðist segja stundarhátt: "Þurfti ekki, Guð, ég gat!"

Þetta er svo mikið rétt hjá þér með öryggisfíkn okkar, við erum svo mikið í því að reyna að baktryggja okkur á alla kanta. Það er fyrst þegar ógæfan dynur yfir og okkur eru allar bjargir bannaðar að við lærum að skilja að Guð er almáttugur og hjálpar okkur gegnum allar raunir. Veraldlegar eignir og öryggi skipta ekki máli ef við treystum almættinu skilyrðislaust.

Greta Björg Úlfsdóttir, 20.11.2007 kl. 23:22

2 identicon

Þetta eru sko ORÐ í tíma töluð.Takk fyrir færsluna.

Greta Björg Úlfsdóttir. þú kemur með ,  ekki síðri viðbót.

Gott há ykkur báðum.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 21.11.2007 kl. 05:35

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Fyrirgefðu, Svavar Alfreð, en það vantar botninn í söguna. Þegar Guð hafði skipað honum að sleppa hríslunni varð drykklöng þögn, en síðan hrópaði maðurinn skjálfraddaður: Halló, halló, er ekki einhver annar þarna uppi? -- Þegar við sr. Birgir Ásgeirsson vorum samkennarar í GaMos (Gagnfræðaskóla Mosfellssveitar)fyrir 30 árum sagði ég honum þessa sögu og skoraði á hann að nota hana í messu. Mér er enn í minni hvað söfnuðurinn (í Lágafellskirkju) reyndi mikið á sig að halda heilagsandasvipnum. Það sló beinlínis rauðum bjarma á kirkjuna áður en menigheden sprakk! Ég var í kórnum og hafði kjöraðstöðu til að fylgjast með, vissi enda að hverju fór. Þetta var gaman.

Góð kveðja

Sigurður Hreiðar, 21.11.2007 kl. 09:15

4 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Þakka þér, Sigurður, en eins og segir í fyrirsögn er enn verið að skrifa þetta blogg.

Svavar Alfreð Jónsson, 21.11.2007 kl. 09:32

5 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Úps -- fyrirgefðu að ég skyldi grípa fram í fyrir þér…

Sigurður Hreiðar, 21.11.2007 kl. 11:24

6 identicon

Svo er það sagan af manneskjunni sem lenti í flóði en náði að skríða upp á þak á húsi. Þar sem hún var trúuð beið hún róleg og full trúnaðartrausts eftir björgun Guðs. Maður kom á bát og bauð henni um borð. "Nei takk, ekki hafa áhyggjur af mér, Guð sér um að bjarga mér." Svo kom annar og annar, en manneskjan beið eftir björgun Guðs. Að lokum drukknaði hún. Hinumegin hitti hún Guð. "Hvers vegna bjargaðir þú mér ekki?" spurði manneskjan? "Hvað meinar þú," spurði Guð hissa. "Ég sendi þrjá menn í röð til að bjarga þér? En þú neitaðir að fara um borð."

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 22.11.2007 kl. 20:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband