Biðspeki

bidskyldaÍ gær kvöddum við Björn Steinar Sólbergsson, organista, við messu í Akureyrarkirkju. Síðustu rúmu tvo áratugi hefur hann leikið á orgel kirkjunnar, stjórnað kórum og látið um sig muna í lista- og menningarstarfi á Akureyri. Nú heldur hann til nýrra starfa í Hallgrímskirkju og stýrir einnig Tónskóla Þjóðkirkjunnar.

Svo fyrirhyggjusamir voru Akureyringar að þegar þeir réðu Björn Steinar var hann enn við nám úti í París. Var beðið meðan hann lauk því og sat söfnuðurinn í festum á meðan, alls í um þrjú ár. Sú bið borgaði sig margfaldlega.

Þess vegna var vel við hæfi að íhuga gildi þess að bíða í messu gærdagsins.

Þrátt fyrir sívaxandi biðraðamenningu og rafræna númeratækni sem á að tryggja að þeir fyrstu verði fremstir og þeir síðustu hinstir fer biðlund fólks minnkandi. Við viljum ekki bíða á Íslandi nútímans. Við lifum hratt og viljum það strax. Pítsusendlar þeytast um úthverfin. Flatskjárinn er kominn á vegginn áður en innistæða er fyrir honum. Börnin þurfa ekki að bíða eftir því að verða fullorðin. Aðventan er ekki lengur biðtími. Á aðventunni tosum við jólin til okkar. Við flýtum fyrir þeim því það er ómögulegt að bíða.

Bið er samt merkilegt fyrirbæri. Hún er ekki algjört aðgerðarleysi. Bið krefst einbeitingar. Sá sem bíður þarf að halda vöku sinni. Hann bíður þess sem kemur. Þess vegna er bið undirbúningur fyrir það sem koma skal. Við sjáum ekki inn í framtíðina en við getum undirbúið okkur fyrir hana ef við kunnum að bíða almennilega. Þar með höfum við gert það sem í okkar valdi stendur til að hafa áhrif á það ókomna.

Bið er líka ákveðin tegund af trausti og trú. Þegar við bíðum leggjum við árar í bát. Við hættum að hamast á hafinu. Reynum ekki að troðast fram úr þeim sem á undan okkur eru. Treystum því að röðin komi að okkur. Treystum framvindunni. Treystum lífinu. Treystum Guði.

Að sýta sárt og kvíða / á sjálfan þig er hrís. / Nei, þú skalt biðja´ og bíða, þá blessun Guðs er vís," segir í þekktum sálmi.

Ekki er hægt að njóta listar nema að kunna að bíða. Maður sem ég þekki rekur gallerí í Lundúnum. Hann segir mér að oft þurfi fólk undarlega lítinn tíma til að skoða sýningarnar þar. Eyði meiri tíma í að virða fyrir sér verðlistann en listaverkin. Fólk er að flýta sér. Það kann ekki að bíða.

Í fermingarfræðslunni í Akureyrarkirkju skoðum við m. a. hinar myndskreyttu gluggarúður kirkjunnar. Þar verður að byrja á því að kenna krökkunum að bíða. Gera ekkert. Bíða sallaróleg þangað til myndirnar taka til máls.

Sama máli gegnir um tónlistina. Um daginn var ég að skúra stofugólfið heima hjá mér og setti disk í bósinn minn. Allt í einu kom svo yndislegt lag að ég varð að hætta hreingerningarstörfum, fá mér sæti og bíða eftir tónlistinni.

Í ræðunni í kirkjunni í gær benti ég líka á að mjög oft væri með óþreyju beðið eftir því að prestarnir kláruðu prédikanir sínar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þór Hauksson

Sæll Svavar, góður pistill.  Ég gaf mér tíma til að lesa hann.  Það er akkúrat þetta að bíða.  Bíða á rauðu ljósi að bíða í biðröð að gefa sér tíma til að hlusta.  Ég dvaldist í USA í eitt ár um árið.  Þar lærði ég góða lexíu en það var það að bíða af sér umferðarsultu (traffic - jam) það tók mig hátt í tvo mánuði að gera mér ljóst að ég færi ekkert lengra með óbiðlund.  Ég færi með sjálfan mig og mína en væri samt á sama stað í tilverunni! 

Þór Hauksson, 19.11.2007 kl. 09:19

2 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir


allt mitt líf
hef ég staðið
á þröskuldi draumanna
vonanna
ekki slæmur staður
að lifa á

Greta Björg Úlfsdóttir, 19.11.2007 kl. 09:43

3 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

257

Hér eru svo vitru brúðirnar enn að bíða...

Greta Björg Úlfsdóttir, 19.11.2007 kl. 10:06

4 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Biðlund er sannarlega ein af höfuðdyggðum kristinnar trúar. Jesús sagði að það væri stutt í endurkomu hans, síðan hafa kristnir menn beðið í næstum því tvö þúsund ár. Maður getur ekki annað en dáðst af þessari "biðspeki".

Hjalti Rúnar Ómarsson, 19.11.2007 kl. 21:37

5 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Svo, svo, enga óþolinmæði, Hjalti,...þú manst: ...fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár og þúsund ár, dagur ei meir...

...ég held að Guð gangi ekki með úr...

Greta Björg Úlfsdóttir, 20.11.2007 kl. 12:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband