Blessaðar freistingarnar

epliVið skulum passa okkur á freistingunum. Þær eru stórvarasamar. Þær ætti að merkja vel eins og sígarettupakka eða hættulega vegi.

Þó eru freistingar ekki bara neikvæðar. Þær geta verið eins og prófin í skólunum. Próf eru ekki einhver kvöð. Þau eru réttur. Ekki fær hver sem er að taka próf. Ég fæ til dæmis ekki að taka meiraprófið bara si svona. Fyrst þarf ég að klára þar að lútandi námskeið. Þegar ég er búinn með það öðlast ég rétt til að taka prófið.

Freistingar eru ekki einhverjar refsingar. Þær eru á vissan hátt líka tækifæri.

Hver freisting er tækifæri því í henni er ekki einungis fólgin hættan að falla fyrir henni heldur einnig sú vegsemd að standast hana.

Freistingarnar herja ekki bara á okkur þar sem við erum veikust. Mönnunum er ekki síður hætt við að falla fyrir freistingum sem höfða til styrkleika þeirra. 

Freistingarnar eru svo útsmognar að þær sitja fyrir okkur í hæfileikum okkar.

Sá sem er gæddur miklum persónutöfrum freistast til þess að nota þá til að komast upp með hvað sem er. Mælskumaðurinn fellur oft í þá freistni að réttlæta sig með lipru tungutaki og draga athyglina frá eigin brestum.

Pössum okkur á freistingunum. Þetta eru ólíkindatól. Samt skulum við ekki hörfa undan þeim. Tökumst á við þær.

Þeim sem tekst að standast lævísa og öfluga freistingu líður eins og manni sem er búinn að landa digrum laxi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hef aldrei landað digrum laxi eða laxi yfirleitt. En freistingarnar eru á hverju horni og ekki alveg víst að það standi á þeim "freistingar". Eitt sinn var sagt að   -freistingar væru til að falla fyrir þeim-  Jafnvel voru lagðar freistingar fyrir frelsarann.... en það er erfiðara fyrir okkur breiska að standast þær. Það sýna biðraðir við opnanir leikfangaverslanna.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 17.11.2007 kl. 18:27

2 Smámynd: Júdas

Góð skrif Svavar og gefa nýja sýn á freistingunum og það tækifæri sem þær gefa manni til að sigrast á þeim.

Júdas, 17.11.2007 kl. 20:24

3 identicon

Eru freistingar alltaf slæmar?

Er allt sem við látum eftir okkur, þegar við viljum vera góð við okkur sjálf, samkvæmt skilgreiningu að falla í freistni? 

Fer það ekki eftir inntaki girndanna hversu slæmar freistingarnar eru?

Er ekki stundum nauðsynlegt að láta vissa hluti eftir sér? 

Bjarki Þór Baldvinsson (IP-tala skráð) 17.11.2007 kl. 21:11

4 Smámynd: Vilborg Eggertsdóttir

Þegar ég er farin út úr heimi - skilgreiningarinnar -, þá eru allir merkimiðar farnir.

Ekkert er lengur vont eða gott, freisting eða ekki freisting - ÞAÐ AÐEINS ER - hvað sem það er.

Vilborg Eggertsdóttir, 18.11.2007 kl. 03:56

5 identicon

,,Ég get staðist allt nema freistingar."  

Oscar Wilde.

Óli Ágústar (IP-tala skráð) 18.11.2007 kl. 10:35

6 identicon

Takk fyrir þennan pistil Svavar. Talaði til mín í góðu samhengi við eitt og annað sem ég er að takast á við þessa dagana...

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 18.11.2007 kl. 11:37

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég freistast hér til að koma með einskisnýta athugasemd. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 18.11.2007 kl. 18:24

8 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Þakka viðbrögð. Ég freistast til að svara þeim þótt sennilega ætti maður að vera duglegri við að halda kjafti.

Bjarki, að sjálfsögðu verður maður að láta eitt og annað eftir sér og njóta góðra Guðs gjafa. - Þó er ég ekki frá því að freistarinn talaði alveg nákvæmlega eins og þú í þinni athugasemd þegar hann þarf að vanda sig (hvaða hvaða, það er nú ekki eins og heimurinn sé að farast þótt þú....).

Auður: Gangi þér vel í því sem þú ert að takast á við. Við kvöddum Björn Steinar í dag með þrotlausu helgihaldi og tertuáti.

Sigurður: Ef þær eru ekki verri en þetta freistingarnar sem þú ert að falla fyrir ertu í góðum málum. Einskisnýtar athugasemdir geta hitt beint í mark - þínar eru alltaf vel þegnar.

Svavar Alfreð Jónsson, 18.11.2007 kl. 18:45

9 identicon

Ég held ég þurfi að staldra að eins við og hugsa minn gang þegar prestur tekur sig til og líkir mér við kölska....

Bjarki Þór Baldvinsson (IP-tala skráð) 18.11.2007 kl. 20:42

10 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Nei, skrattinn getur ekki vænst þess að vera tekinn einhverjum vettlingatökum hér á þessu bloggi.

Svavar Alfreð Jónsson, 18.11.2007 kl. 22:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband