Kirkjan og skólarnir

Ég skil ekki alveg umræðuna um kirkjuna og skólana. Heyrði í fréttum að einhverjir leikskólar fyrir sunnan hefðu ákveðið að úthýsa þjóðkirkjuprestum.

Mér þótti það pínulítið fyndið. Sá fyrir mér einhvern kollegann klappandi á leikskóladyr í reykvíska rigningarsuddanum og grátbiðja: "Hleypið mér inn, hleypið mér inn....!"

Börnin stóreygð fyrir innan spyrja kennarann: "Af hverju má greyið maðurinn ekki koma inn?"

Kennarinn sprakri röddu: "Þetta er prestur."

Hérna fyrir norðan förum við prestarnir helst ekki í leikskólana - nema sem foreldrar.

Fyrir kemur þó að til okkar er leitað úr skólunum og við beðin um að veita þjónustu. Er hún þá veitt á forsendum þeirra sem um hana biðja.

Kennararnir vita að við erum til taks hafi þeir þörf fyrir okkur.

Nú á aðventunni er vinsælt að koma í kirkjuna með hópa úr skólum bæjarins. Hafa þær stundir verið einstaklega ánægjulegar og heldur fjölgað ef eitthvað er.

Sum börn mega ekki taka þátt í neinu sem tengist trú eða kirkju. Ég veit að innan skólanna er enginn áhugi á því að misbjóða neinum og allt gert til að koma til móts við þarfir slíkra barna og foreldra. Sé hægt að gera betur í þeim efnum er ekki nema sjálfsagt að benda á það.

Kristindómsfræðslan er dálítið vandræðafag, vanrækt víða og of fáir kennarar treysta sér að kenna greinina. Að mínu mati er hún samt nauðsynleg. Skólinn á að gera börnum kleift að vera virkir og ábyrgir þjóðfélagsþegnar. Kristni og kirkja er hluti hins þjóðfélagslega veruleika hvað sem fólki kann að finnast um þau fyrirbæri.

Einnig þarf að stórefla trúarbragðafræðsluna í skólunum, ekki síst á framhaldsskólastigi.

Við í Akureyrarkirkju ætlum að efna til málþings í mars næstkomandi um kirkju og skóla og erum þegar byrjuð að viða að okkur fyrirlesurum.

Ég hlakka mikið til að ræða þessi mál og skiptast á skoðunum við kennarana.

Samvinna kirkju og skóla er hreint ekki ný af nálinni. Sumum finnst að efla þurfi samstarfið, aðrir vilja draga úr því en allir geta held ég verið sammála um að gagnlegt sé að ræða það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vantrú

En þú veist vel að málið snýst um mánaðarlegar heimsóknir sóknarprests í leikskóla í hverfinu - heimsóknir þar sem presturinn boðar kristna trú.

Ekki þykir mér drengilegt að loka fyrir athugasemdir þeirra sem þér andmæla.

Matthías Ásgeirsson (má ekki kommenta hér með mínu nafni)

Vantrú, 29.11.2007 kl. 23:20

2 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Hvað segirðu, lokar hann? Kirkjan þolir náttúrulega illa opnar umræður, þess vegna reyna þeir að pukrast í staðinn inn á börnin. Mér finnst þetta viðurstyggilegt. Eitthvað fullorðið fólk sem ætti að fá sér alvöru vinnu en er í staðinn að troða skoðunum sínum inn á saklaus börn. Sonur minn var að segja mér áðan í óspurðum fréttum hversu mikið hann er búinn að líða fyrir endalausum kirkjuferðum í fleiri fleiri ár. Kirkjuferðum sem ég, faðir hans, vissi ekki um! Hvernig er hægt að taka mark á orðræðu fólks sem hegðar sér svona, kemur aftan að öllu, traðkar á réttindum foreldra til að ráða trúarlífi barna sinna, hlær að grunnskólalögum og þorir svo ekki að tala um málið opinberlega!

Brynjólfur Þorvarðsson, 29.11.2007 kl. 23:53

3 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Auðvitað er prestinum boðið inn í kaffistofu í kuldanum ...en hann á ekkert með að ráðgast með börnin okkar fremur en Ásatrúargoða, mormona, buddista eða vantrúrarsinna...svo dæmi séu nefnd.

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 30.11.2007 kl. 00:14

4 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ég skal alltaf vera sammála því að samræður séu gagnlegar - það er að segja samtal, dialog, discussion - ekki ómerkilegt þras um keisarans skegg.

Greta Björg Úlfsdóttir, 30.11.2007 kl. 01:10

5 identicon

Mér þykir það skrýtið ef Matti fær ekki að tjá sig hérna hjá þér Svavar.  Mér þykir hann ekkert hafa farið yfir strikið.  Matti er ágætur náungi og rómaður fyrir hve fjárglöggur hann er. Hann getur þekkt kind af andlitsdráttunum einum saman úr margra álna fjarlægð.

Mér þykir þessi pistill þinn ekkert galinn.  það þarf að ræða þessi mál. Þ.e.a.s aðgengi trúfélaga að leik og grunnskólum.   Sem betur fer virðist eitthvað vera að rofa til í þeim efnum.   Málið er allavega komið upp á borðið og því ber að fagna.

Teitur Atlason (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 01:17

6 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ég get satt að segja alveg skilið að Svavar hafi lokað á Matthías, ég tók eftir því að eftir síðustu "atlögu" Matthíasar svaraði hann honum að þolinmæði sín væri ekki endalaus - ólíkt frelsarans. Þó svo að Matthías sé ef til vill fjárglöggur þá hefur mér virst af því sem ég hef lesið eftir hann að hann kunni sig ekki alveg í mannlegum samskiptum og held að hann ætti kannski að halda sig við sauðféð. En ef til vill myndi Svavar taka títtnefndan Matthías aftur í sátt brygði hann sér í líki hins týnda sauðar og beiddist ásjár hans?

Greta Björg Úlfsdóttir, 30.11.2007 kl. 01:37

7 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Gréta...ef þessi Matthías hefur sagt...

"atlögu" Matthíasar svaraði hann honum að þolinmæði sín væri ekki endalaus - ólíkt frelsarans. 

..ber ekki að fagna einlægni?...um hvað var annars rætt? Þetta er ekki nóg til að loka á lýðræðislega rödd...eða það finnst mér ekki??

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 30.11.2007 kl. 01:41

8 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Jú, Anna, það ber að fagna einlægni. Reyndar voru þetta orð Svavars, ekki Matthíasar, en það skiptir varla máli hvaðan einlægnin kemur, er það?

Að vísu lagði ég Svavar óvart í munn orðin "öfugt við frelsarann"  sem kannski gerðu það að verkum að þú áleist þetta vera orð Matthíasar, þetta átti að vera mín viðbót, en kom út eins og Svavar hefði sagt þetta.

En þarna ruglaði ég víst saman orðunum þolinmæði og fyrirgefningu, sem ég er viss um að í báðum tilvikum er endalaus, samkvæmt því sem Kristur beindi til okkar um að fyrirgefa ekki aðeins 77 sinnum heldur...æ...var það 7 x 77 sinnum eða 700x77 sinnum...hef aldrei verið góð að muna tölur...alla vega oft og mörgum sinnum og alveg endalaust...

Greta Björg Úlfsdóttir, 30.11.2007 kl. 04:36

9 Smámynd: Vilborg Eggertsdóttir

Get ekki tekið þátt í umræðunni, er að telja hversu margar fyrirgefningar ég á eftir að gera, þó sýnist mér að þær gætu verið flestar gagnvart sjálfri mér, æ, nú ruglaðist hjá mér talningi af því ég fór að skrifa. Nenni svo ekki að fara að ryfja það upp, hvert ég var komin, svo ég ákvað að sleppa bara fortíðinni alveg, hafa ekki áhyggjur af framtíðinni og lifa only í augnablikinu.

Eigið öll góðan dag

Vilborg Eggertsdóttir, 30.11.2007 kl. 06:13

10 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Kirkjuferðir eru á vegum skólanna en ekki kirkjunnar. Kvarti menn undan endalausum kirkjuferðum ætti ekki síður að gera það við skólana en kirkjuna. Skólastarf er á ábyrgð skóla en ekki kirkju.

Hafi fólk eitthvað að athuga við að prestar veiti þar umbeðna þjónustu er á sama hátt auðvitað eðlilegast að snúa sér til skólanna.

Það gera menn á hinn bóginn ekki og ekki þarf neina ofurgreind til að sjá þá sögu sem það segir.

Ég er húsbóndi á mínum heimili. Þeir sem koma þangað inn og míga í blómapottana líða að mínu mati ekkert píslarvætti þótt þeim sé orðlaust vísað  á dyr.

Ég bið fólk svo að halda sér við efnið. Athugasemdir eiga að vera við efni viðkomandi pistils.

Vilji menn ræða annað má hafa samband við mig eftir öðrum leiðum.

Svavar Alfreð Jónsson, 30.11.2007 kl. 08:01

11 identicon

Kristilegt umburðarlyndi & kærleikur er rekin ofan í kok á okkur sem er hið besta mál því almenningsálitið er ekki bara púra álit trúarsöfnuða

DoctorE (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 10:54

12 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Já Svavar...gott að benda foreldrum á að þetta er alfarið á ábyrgð skólanna og þangað á að láta rödd sína heyrast.

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 30.11.2007 kl. 10:56

13 identicon

Nei það má alls ekki vera með kristnifræðslu í skólum börnin gætu lært að elska náungann eins og sjálfan sig og fyrirgefa öðrum, það má alls ekki hafa fyrir börnunum.

Olgeir Marinósson (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 12:12

14 identicon

Gunner, ef kristnir elskuðu náungann eins og sjálfa sig þá myndu þeir ekki bjóða okkur upp á þetta

DoctorE (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 16:04

15 Smámynd: Púkinn

Prestar eiga ekkert erindi með að koma inn í leikskólana til að "kenna börnunum að tala við Guð", eins og þau orðuðu þetta.  Ef foreldrar vilja að börnin stundi slíkt, þá er minnsta málið að þau kenni það sjálf, eða sendi börnin í sunnudagaskóla eða eitthvað slíkt.

Púkinn, 30.11.2007 kl. 16:16

16 identicon

Frábært að heyra af því að þið hafið ekkert frumkvæði af því að fara í skólana eða falast af fyrra bragði eftir skólabörnunum í kirkjuheimsóknir á skólatíma.

Ber ykkur vitni um góða og heilbrigða dómgreind. Þú átt alla mína virðingu fyrir þetta.

Staðreyndin er hins vegar sum staðar á hinn veginn og satt er það að skólastjórnendur ættu ekki að leita eftir þessari þjónustu af ykkar hendi. Það er alfarið hlutverk foreldra að uppfræða börn sín í þessu.

Kristín Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 17:02

17 identicon

Ég kláraði víst ekki alveg síðustu setninguna en síðasta málsgreinin átti að vera svona hjá mér:

Staðreyndin er hins vegar sum staðar á hinn veginn og satt er það að skólastjórnendur ættu ekki að leita eftir þessari þjónustu af ykkar hendi. Það er alfarið hlutverk foreldra að uppfræða börn sín í þessu og nýta sér þá ykkar þjónustu ef þeim sýnist svo.

 

Kristín Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 17:07

18 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ég tek undir orð "púkans" um þetta, hann skýrir mitt sjónarmið í þessu vel.

Til hvers eru sunnudagaskólarnir, ef ekki til að kenna litlu börnunum að biðja - þeir eru starfræktir á vegum kirkjunnar, en ekki ríkisins nema óbeint. Það er reyndar þetta "óbeina" sem þarf að endurskoða í því lýðræðisríki sem Ísland vill kalla sig. Kristnir foreldrar eiga líka að vera fullfærir um að kenna börnum sínum að biðja, inni á eigin heimili er það ekki í trássi við guðleysingja eða fólk af annarri trú, eins og það er inni á leikskólum. Ég veit líka af skrifum þínum, Svavar, að þú ert þessu sammála, nema sjálfsagt/kannski þessu um að við eigum að fá sjálfstæða lúterska kirkju, óháða ríkisvaldinu.

Greta Björg Úlfsdóttir, 30.11.2007 kl. 17:10

19 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Kristín: Ég þekki nú víðar til en hér á Akureyri og hef aldrei kynnst öðru en að þessar kirkjuheimsóknir séu að frumkvæði skólanna. Prestar að draga skólakrakka í kirkjur eru held ég fyrst og fremst skrípamyndir búnar til í áróðursskyni.

Fróðlegt væri samt að heyra raunveruleg dæmi hafir þú einhver slík.

Sama máli gegnir um þjónustu sem kirkjan veitir í skólum landsins. Ég veit engin dæmi þess að kirkjan sé að "troða" henni inn í skólana og hef sjálfur aldrei veitt slíka þjónustu án þess að skólinn hafi átt frumkvæði að henni. Hins vegar finnst mér meira en sjálfsagt að veita hana sé eftir henni leitað.

Ég er ekki sammála því að það sé eingöngu hlutverk foreldra að uppfræða börn um kristindóm eða trú. Það er tvímælalaust hlutverk skólans að veita slíka fræðslu - en auðvitað mega foreldrarnir auka einhverju við hana eins og á fleiri sviðum.

Ég get tekið undir með Gretu um að skólarnir eigi ekki að annast trúaruppeldi á börnum. Hins vegar er ég ekki viss um að erfitt sé að gerilsneyða skólaumhverfið þannig að tryggt sé að börn verði ekki fyrir neins konar trúarlegum áhrifum þar.

Dæmi: Mér finnst ótækt að börn læri ekki helstu dæmisögur Jesú Krists - þó ekki væri nema til annars en að gera þau læs á bókmenntir og listir. Enginn kennari, hversu "hlutlaus" sem hann telur sig vera, getur tryggt að börn verði ekki fyrir áhrifum af sögunum.

Umræðan sýnir líka að ekki er vanþörf á að uppfræða bæði börn og fullorðna um ýmiskonar trúarlegt atferli. Hér á Moggablogginu eru alls konar fordómar í gangi um tilgang bænahalds og notkunar kristinna manna á Biblíunni. Af hverju ætti skólinn ekki uppfræða börnin um það?

Ég er ekki að segja að bænahald eigi að vera í skólum en mér finnst sjálfsagt að bæði börn trúaðra og trúlausra geri sér grein fyrir því hvers vegna og hvernig beðið er, hvert sé eðli helgihalds og hver sé tilgangur trúarlegra texta, svo nokkuð sé nefnt. 

Það gæti útrýmt fordómum og ranghugmyndum og aukið bæði umburðarlyndi og víðsýni.

Síðast en ekki síst - þótt það tengist ekki efni pistilsins: Við eigum sjálfstæða lúterska Þjóðkirkju á Íslandi. Hún er í góðu sambandi við ríkisvaldið en er alls ekki nein ríkiskirkja. Hún ræður öllum sínum innri og ytri málum algerlega sjálf.

Svavar Alfreð Jónsson, 30.11.2007 kl. 18:00

20 identicon

Þarna gerðist ég sek um það að nota rangt orð yfir það sem ég ætlaði að segja. Ég ætlaði mér algerlega að tala um trúaruppeldi eins og þú talar um og virðumst við því vera sammála þar.

Fræðsla um trúarbrögð á að sjálfsögðu fullt erindi í skólana en hún er vandmeðfarin og þarf að vera eins hlutlaus og framast er kostur og algjörlega og eingöngu í höndum kennaranna.

Ljóður á efni til kristinfræðikennslu til þessa hefur oft verið sá að þeir sem samið hafa efnið hafa augljóslega dregið taum þeirra sem telja að sem flestir ættu að vera kristnir. M.ö.o. það hefur verið efni sem setur upp kristnina í draumórastíl í hugum barnanna í stað þess að fjalla hlutlaust um kristnina, jafnt galla hennar sem kosti.

Varðandi það hvort prestar dragi skólakrakkana í kirkjurnar, þú biður um dæmi:

Í Seljahverfi var það Bolli sjálfur sem fór fram á það að fá að heimsækja leikskólabörnin. Hann hringdi í skólana og bauð fram þessa "þjónustu". Flestir skólarnir sögðu já við henni en í alla vega einum skóla fór fram áður könnun á meðal foreldranna, úr bréfi leikskólastjórans þar kom meðal annars þetta fram orðrétt:

"Eins og kom fram á foreldrafundinum 5. september s.l. hafa okkur borist óskir frá Seljakirkju um aukið samstarfs, sem felst í því að Sr. Bolli Pétur Bollason myndi koma í leikskólann einu sinni í mánuði og eiga með börnunum samverustund."

Þessi samverustund var líka kölluð leikstund. Börnunum voru sagðar sögur af guði, sungnir voru trúarsöngvar og svo kenndi Bolli þeim að biðja bænir. Og börnin sem sé báðu bænir með honum!

Mér þætti gaman að verða vitni að því að foreldrar kristinna barna samþykktu álíka heimsókn frá íslömsku trúfélagi.

Vinaleiðin er annað sem kirkjan á frumkvæði að og það eru kirkjunnar menn sem eru að berjast fyrir því með kjafti og klóm að vinaleiðin fái að starfa áfram í skólunum, ekki foreldrar.

Þú talar líka um nauðsyn þess að útrýma fordómum og fáfræði. Hér með skora ég á þig að hætta að tala um trúleysi með þeim neikvæða hætti sem þú hefur stundum gerst sekur um hér á blogginu þínu. Ert þú til í það leggja eina hugleiðingu eða blogg undir það að trúlaust fólk geti, eins og hver annar, átt innihaldsríkt, gjöfult og gott líf? Að trúlaust fólk sé á allan hátt jafnfært um það að sýna af sér samúð og hluttekningu eins og hver annar?

Reyndar myndi mér nægja það bara að þú myndir einbeita þér að því að selja þína kristni í gegnum það góða sem kristin hefur gert fyrir þig og aðra. Mér þætti vænt um það, og virðingarvert, ef þú getur laðað fólk til trúar í gegnum það jákvæða eingöngu í stað þess að ala á fordómum í garð trúleysis bara vegna þess að þú ert ekki maður í það að fúnkera í trúleysi.

Ég sem trúleysingi hef ekkert að boða annað en það að ég lifi mjög góðu lífi án trúar. En á meðan trúarbrögðin berja á mér með dómi um það að ég sé siðlaus skepna sem á helvítisvist vísa þá mun ég gagnrýna þá birtingarmynd fordóma og fáfræði fullum hálsi. Ég get ekki samþykkt þegjandi og hljóðalaust hugmyndakerfi sem svo augljóslega getur ekki þróast áfram í takt við þann tíðaranda sem ríkir í samfélagi okkar og flokkar mig þar af leiðandi sem einhvers konar annars flokks manneskju.

Kristín Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 19:24

21 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Kristín, ég er sammála því að kennsla um trúarbrögð sé vandaverk - og þótt við séum ekki á einu máli um ágæti núverandi kennsluefnis má örugglega gera enn betur en þar er gert.

Eins og ég sagði veit ég ekki um nein dæmi þess að prestar dragi skólabörn í kirkjur. Vel má vera að í einhverjum tilfellum bjóðist prestar að fyrra bragði til að koma í skólana til að hitta börn en ég held að það sé fátítt.

Dæmið sem þú nefnir um Seljaskóla þekki ég ekki en mér finnst ekki nema gott mál að kirkjan láti skólana vita af því hvaða þjónustu hún geti boðið þeim, hafi áhuga á samstarfi og hvers eðlis þjónusta kirkjunnar er.

Ég kannast heldur ekki við að barist sé fyrir því með kjafti og klóm af kirkjunni að koma svonefndri Vinaleið á í skólunum - en ég hef hins vegar oft verið spurður um þá þjónustu af skólafólki og verð var við töluverðan áhuga á henni þar á bæ.

Er eitthvað athugavert við að ímam heimsækti íslömsk börn í skóla - sé það gert á forsendum skólans og með hans samþykki?

Ég væri meira að segja til í að leyfa mínum börnum að hitta ímam. Ef til vill gæti það eytt fordómum og aukið umburðarlyndi þeirra í garð. múhameðstrúar?

Ég ætla ekki að lofa því að hætta að tala neikvætt um trúleysi - skárra væri það nú ef trúleysingjar þyldu ekki gagnrýni frá vesælum Þjóðkirkjupresti - en ég skal reyna að gera það málefnalega og auðvitað þykir mér ekki gott ef ég fell í fúlan pytt persónuníðs og svívirðinga. Þú mátt gjarnan benda mér á ef svo er.

Ég er viss um að trúlaust fólk getur átt innihaldsríkt, gott og gjöfult líf. Ég þekki marga gefandi og góða trúleysingja. Og trúað fólk getur farið í taugarnar á mér ekki síður en trúlaust fólk.

Ekki gat ég samt varist brosi þegar ég sá að áeggjunum þínum til mín um að vera nú góður við trúleysingjana fylgdu föst skot. Að ég væri ekki maður í að "fúnkera í trúleysi" og aðhylltist trúarbrögð sem gerðu þig að siðlausri skepnu og sendu þig til helvítis.

Vel má vera að ég sé ekki mikill bógur að þínu mati en ég er held ég alveg fullfær um að mynda mér mínar trúarskoðanir sjálfur.

Þakka samt viðleitnina.

Svavar Alfreð Jónsson, 30.11.2007 kl. 21:19

22 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Svavar, af því að þetta er mér ofarlega í huga þessa dagana, þá þætti mér vænt um, þó það sé utan við efni þessarar færslu, að þú færðir fram rök sem mæla með því að hafa þetta ákvæði áfram í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands:

,,Hin evangelíska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda”

Ég fæ nefnilega ekki séð hvernig það getur samrýmst hugsjónum um lýðræði að íslenska ríkið styðji og verndi eitt trúfélag frekar en annað, jafnvel þó það sé gert á sögulegum forsendum. ???

Greta Björg Úlfsdóttir, 30.11.2007 kl. 22:28

23 identicon

Svavar, ertu aðeins á þeirri skoðun að það væri sjálfsagt að einhver færi inn í skólana til að biðja með börnunum samkvæmt íslam ef börnin í þeim skóla væru íslömsk?

Kristín Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 22:38

24 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Trúfræðsla - trúaruppeldi. Þessu er held ég oft ruglað saman í umræðunni. Kannski væri full þörf á að einhver sem er vel heima í efninu gerði smá úttekt á muninum á þessu tvennu.

Greta Björg Úlfsdóttir, 30.11.2007 kl. 22:38

25 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Eins mætti kannski hugsa sér að útskýra hlutverk presta sem sálusorgara í leiðinni.

Greta Björg Úlfsdóttir, 30.11.2007 kl. 22:48

26 identicon

Svavar Alfreð Jónsson telur betra að þagga niður í mönnum en svara þeim. Skyldi ég hafa sagt eitthvað ljótt? Migið í blómapottana? Ekki mér vitanlega.

Svavar Alfreð Jónsson kaus að banna mér, sem binntho, að setja inn athugasemdir á vefsíðuna sína. Kannski ætti ég að taka því sem hrósi? Jú, sjálfsagt ætti ég að gera það.

En ég get ekki haldið þeirri hugsun frá mér að Svavar Alfreð Jónsson sé óheiðarlegur. Og það líkar mér illa.

Hér kemur athugasemd sem ég reyndi að setja inn fyrr í dag:

Svavar, ertu að segja að það sé að frumkvæði skólanna sem verið er að draga börnin í kirkjur? Til að sitja guðsþjónustur?

Þar sem mín börn eiga í hlut þá blanda ég mér ekki nema þau biðji um það, eða mér hreinlega blöskri. Fyrir nokkrum árum var mér sem foreldri boðið að vera viðstaddur leiksýningu sem dóttir mín tók þátt í. Sýningin var ekki trúarleg, en samt var okkur foreldrum boðað að koma í kirkju til að horfa á hana. Þetta var í Álftamýrarskóla, til að komast í kirkjuna þarf að fara nokkra vegalengd og yfir mestu umferðaræð landsins. Ágætis salir eru í Álftamýrarskóla enda eru þar aðeins um 300 nemendur núna en skólinn byggður fyrir miklu fleiri.

Presturinn hélt einhverja tölu um eitthvað kristilegt en börnin létu svo illa út um alla kirkju (ekki mín notabene!) á meðan að ég náði ekki nema hluta af því sem hann sagði. Það var þá sem ég ákvað að kvarta ekki, ég sá að þetta var einhver albesta and-kristnun sem hægt var að setja börnin í.

Ef frumkvæðið er skólanna þá eiga auðvitað prestarnir að benda skólunum á að kirkjur eru ekki staðir fyrir almennt skólahald. Nú þegar um 80% þjóðarinnar er skráð í Þjóðkirkjun má búast við að 4-6 í hverjum grunnskólabekk sé utan hennar. Eiga þeir að fara heim til sín á meðan, eða bíða á göngunum? Hvar eru kennararnir? Tíu ára börn, til dæmis, í einum árgangi í Vallaskóla (þar sem börnin mín eru núna) væru það kannski 20 krakkar sem ættu að vera eftir í skólastofunum að láta sér leiðast (eða kannski skemmta sér betur), og skólinn þarf auðvitað að sinna þeim líka. Dóttir mín er búin að biðja um að fara ekki í kirkju. Hver sinnir henni á meðan? Man einhver eftir grunnskólalögum?

Brynjólfur Þorvarðarson (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 22:54

27 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Þið eruð nú meiri krúttin, Greta og Kristín. Ég sit hér og er að skrifa aðventuprédikun og nótífæerinn blikkar eins og stefnuljós. Skal sinna ykkur þegar ég er kominn eitthvað áleiðis - er í miðjum klíðum að lýsa brjálæðissjarma aðventunnar.

Svavar Alfreð Jónsson, 30.11.2007 kl. 22:54

28 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Þakka þér fyrir það, kæri Svavar. Gangi þér vel við skriftirnar!

Greta Björg Úlfsdóttir, 30.11.2007 kl. 23:02

29 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Og kemur þá ekki Brynjólfur Þorvarðarson inn um stofugluggann!

Best að fjarlægja blómapottana.

Svavar Alfreð Jónsson, 30.11.2007 kl. 23:07

30 identicon

Bara ekki setja kaktusa.

Brynjólfur Þorvarðarson (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 23:14

31 identicon

Annars sé ég ekki í hvaða merkingu ég hafi "pissað í pottana" hjá þér nema þeirri einni að vera ósammála.

Viltu benda mér á það?

Brynjólfur Þorvarðarson (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 23:16

32 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Það er ómögulegt að úthýsa mönnum sem svara svona snilldarlega. Komdu fagnandi, Brynjólfur! (Ég vona að ég kunni að afbannfæra þig. Láttu vita ef dyr uppljúkast ekki.

Svavar Alfreð Jónsson, 30.11.2007 kl. 23:18

33 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Brynjólfur, þú mátt gjarnan vera ósammála mér, en ég lokaði á þig eftir þessa athugasemd (hér ofar):

"Hvað segirðu, lokar hann? Kirkjan þolir náttúrulega illa opnar umræður, þess vegna reyna þeir að pukrast í staðinn inn á börnin. Mér finnst þetta viðurstyggilegt. Eitthvað fullorðið fólk sem ætti að fá sér alvöru vinnu en er í staðinn að troða skoðunum sínum inn á saklaus börn."

Ég held að þú getir alveg komið skoðunum þínum á framfæri án svona stórra orða. Engum finnst held ég notalegt að vera sakaður um að níðast á börnum. Eða um viðurstyggilegt athæfi. Eða að maður sé sakaður um að vinna ekki alvöru vinnu. Ég bið þig alla vega að nota ekki svona orðalag í mínum húsum. Annars verð ég að biðja þig að yfirgefa samkvæmið.

Dugi það ekki verður gripið til kaktusanna.

Svavar Alfreð Jónsson, 30.11.2007 kl. 23:32

34 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Greta (aths. 22): Þetta er býsna mikið mál og erfitt að svara því í stuttu máli. Ef til vill væri réttast að skrifa um það sérstaka færslu við tækifæri. Þangað til læt ég nægja að segja að Þjóðkirkjan sé sjálfstæð - t. d. eins og íþróttahreyfingin - en njóti stuðnings ríkisins - t. d. eins og íþróttahreyfingin.

Kristín (aths. 23): Nei, ekki endilega. Mér fyndist allt í lagi að ímam kæmi í íslenskan skóla til að biðja með íslömskum börnum. En vera hans þar þyrfti engu að síður að vera á forsendum skólans.

 Greta (aths. 24 & 25): Þetta er mjög góð spurning, því það getur verið mjög á reiki hvað telst fræðsla og hvað "innræting". Ég varð fyrir miklum áhrifum frá landafræðikennaranum mínum. Sálgæsla er ekki trúboð - en skilin þarna á milli geta líka verið á reiki. Hvenær fer umhyggja að verða boðandi? Líka spennandi og réttmæt spurning. Reyndar held ég að hlutleysi sé ekki til - en það er annað mál.

Brynjólfur (aths. 26): Skólahald getur farið fram víðar en í kennslustofum. Skólahald er heldur ekki einungis bóknám eða beinn lærdómur. Skóli er samfélag og þar þarf að sinna ýmsum þörfum. Uppeldishlutverk skólanna verður sífellt viðameira. Ég er ekki að segja að skólarnir eigi að taka að sér trúarlegt uppeldi, þar erum við held ég komin inn á mjög grátt svæði, en ég sé ekki að trúarlegar og andlegar þarfir skólabarna eigi að vera eitthvert tabú. Ég vona svo sannarlega að þörfum dóttur þinnar verði sinnt - og þörfum allra barna.

Haukur (aths. 30): Ég er ekki viss um að Vinaleiðin sé hugsuð sem trúboð. Sálnaveiðar í skólum samræmist að mínu mati ekki skólastarfi. Nú ber kirkjan ekki ábyrgð á skólastarfi og hafi skólarnir liðið sálnaveiðar innan sinna veggja á að koma kvörtunum þar að lútandi til þeirra sem ábyrgðina bera.

Pax et bonum!

Svavar Alfreð Jónsson, 1.12.2007 kl. 00:06

35 identicon

Ah hverju þessi sárindi? Það er fullréttmæt meining á bak við orð Brynjólfs þótt kjarnyrt séu. Af hverju svarar þú ekki bara ásökunum hans málefnalega, kallar eftir rökum og hrekur þau?

Af hverju eru málefnalegar rökræður einatt svo erfiðar þegar talið berst að trúmálum og trúarstarfsemi? Hvað er þetta með boðendur trúar og tilhneigingu til sárinda?

Er það rétt eða rangt hjá Brynjólfi að kirkjan þoli illa opnar umræður og pukri? Þarna færi best fram á að sýna fram á annað.

Er réttmætt að tala um að trúarinnræting gagnvart börnum sé ekki heiðarleg vinna? Þarna væri líka gott að sjá sýnt fram á annað.

Athugaðu, Svarar, að með því að sussa á viðmælandann með sárindarökum drepurðu niður heiðarlega umræðu um þessi mál.

Birgir Baldursson (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 00:08

36 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Svavar, takk fyrir þetta, ég var nú einmitt að vona að þú gerðir sérfærslu um þetta stjórnarskrármál, þar sem þetta vefst fyrir mér, það er að segja að gera mér fyrir hvaða gildu rök þeir sem vilja halda ákvæðinu inni áfram hafa fyrir því. Mér eru satt að segja eingöngu ljós þau rök sem ég sé á móti því, en ég er þannig gerð að ég vil helst alltaf skoða mál frá fleiri en einni hlið.

Geri mér grein fyrir því núna að ég veit í sjálfu sér ósköp lítið um sögu stjórnarskrár okkar, eða hafi ég lært um það í skóla er ég löngu búin að gleyma því. En ég reikna með á hún sé að stofni til frá 1874 (sú sem Kristján IX færði okkur), með endurskoðunum 1918 og 1944 og einhverjum fleiri viðbótum. Það væri fróðlegt að fá að vita frá hvaða tíma þetta tiltekna ákvæði er og rökin fyrir því að það var sett þar inn upprunalega.

Greta Björg Úlfsdóttir, 1.12.2007 kl. 00:54

37 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Persónuleg spurning: Hét landafræðikennarinn þinn nokkuð Björgvin?

Greta Björg Úlfsdóttir, 1.12.2007 kl. 01:01

38 identicon

Þetta ætlar að verða erfið fæðing :)

Finnst þér í lagi að ímam kæmi í íslenskan skóla til að lesa upp úr sínum trúarritum og biðja samkvæmt sinni trú þó að þar væri hátt hlutfall af kristnum börnum?

Kristín Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 01:17

39 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Nú blánar yfir berjamó...

Greta Björg Úlfsdóttir, 1.12.2007 kl. 01:30

40 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Birgir (aths. 36): Algjörlega ósammála þér. Ég held að það sé fullkomlega eðlilegt að sárna sé maður sakaður um að níðast á börnum. Og þeirri þjóð  er ekki viðbjargandi sem þykir ekki nema sjálfsagt að skiptast á þannig trakteríngum.

Greta (aths. 37 & 38): Það hljóta að vera gildi rök fyrir því að halda þessu ákvæði - varla væri það þarna ef svo er ekki. Landafræðikennarinn sem ég tala um er enginn annar en öðlingurinn Benni Haralds, sem síðar varð skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri. Björgvin kenndi mér í Barnaskóla Íslands. Hann var líka eftirminnilegur maður.

Kristín (aths. 39): Mér fyndist það í lagi. Mér fyndist líka í lagi að trúleysingi kæmi og spjallaði við trúlaus börn - og líka mín. Ef til vill gæti hann eytt fordómum þeirra um að trúleysingjar væru siðlausar verur? En mér finnst ekki í lagi að kristinn prestur mæti í skóla til að reyna að snúa íslömskum börnum til kristinnar trúar, eða ef trúlaus maður færi að reyna að útmála illsku íslam fyrir íslömskum börnum - enda væri slíkt starf engan veginn á forsendu skólans. Það veitir víst ekki af því að glæða tilfinningu okkar fyrir fjölbreytileikanum. Trúarlíf heimsins er ekki síður fjölbreytt en kynhegðun mannsins, svo nærtækt dæmi sé tekið.

Svavar Alfreð Jónsson, 1.12.2007 kl. 11:13

41 identicon

Brynjólfur sakaði þig alls ekki um að níðast á börnum, hann sagði í vinnu þinni værir þú að "troða skoðunum sínum inn á saklaus börn".

Er það ekki hluti af starfi þínu að innræta litlum börnum trúarskoðanir? Vill ekki svo heppilega til að börn eru grandalaus og trúgjörn og því ólíkleg til að efast um það sem fullorðinn karlmaður í flottum búning segir þeim?

Áhugavert væri svo að vita af hverju þú lokaðir á mig.

Matthías Ásgeirsson (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 11:25

42 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Voðalegur orðhengilháttur er þetta Matthías, er það "að troða skoðunum sínum inn í saklaus börn" ekki að níðast á þeim?

Ég held að ástæðan fyrir því að hann lokaði á þig opinberist ágætlega í þessari síðustu athugasemd þinni; það sem þú setur fram í henni heitir í minni orðabók TUÐ. 

Greta Björg Úlfsdóttir, 1.12.2007 kl. 12:09

43 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ég held, satt að segja, Matthías, að þú gerir málstað trúleysingja meira ógagn heldur en gagn, hér á moggablogginu. Hætti mér samt ekki út í nánari útskýringar á hvers vegna, þar sem það gæti leitt af sér langlokuskrif um þína persónu hér í athugasemdakerfi í annars manns bloggi.

Greta Björg Úlfsdóttir, 1.12.2007 kl. 12:12

44 identicon

Ég vil benda Grétu og öðrum lesendum þessarar ágætu bloggsíðu á grein sem birtist í 24 stundum í dag (laugardaginn 1. des) sem heitir "Þjóðkirkjan er ríkiskirkja". í henni eru nefndir til 10 liðir sem hvernir um sig rökstyðja heiti greinarinnar. Þar kemur m.a fram að biskup er með DIPLÓMATAVEGABRÉF...

Annars lýsi ég ánægju með tiltölulega skýra afstöðu þina til sambands kirkju og skóla.

Teitur Atlason (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 12:12

45 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Takk fyrir ábendinguna, Teitur, ég kíki á greinina, vonandi birtast þar einhverjar haldbærar upplýsingar um sitthvað sem ég vissi ekki áður.

Greta Björg Úlfsdóttir, 1.12.2007 kl. 12:48

46 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Vei ég er kominn inn.

Rétt að taka það fram Svavar að ég vil ekki vera að gagnrýna þig persónulega, okkur hlýtur að takast að halda þessu á málefnalegum grunni.

Varðandi eitt sem rætt hefur verið um hérna, hver eigi frumkvæðið að því að skólar fari í kirkju, þá er vel fjallað um það á vef Biskupsstofu:

http://kirkjan.is/biskupsstofa/?stefnumal/kirkja_og_skoli

 Þar stendur til dæmis:

"Samstarf grunnskóla og kirkju sé með eftirfarandi hætti:

  • Kirkjuheimsókn á aðventu og föstu.
  • Kirkjuheimsókn í tengslum við kristinfræði- og trúarbragðafræðslu.
  • ...

  • Samkeppni í skólum um þemu sem tengjast kirkju eða kristni.
  • ... 

  • Hátíðlegar athafnir í sóknarkirkjunni."

Brynjólfur Þorvarðsson, 1.12.2007 kl. 17:44

47 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Löng hefð er fyrir heimsóknum skóla í kirkjur á aðventu . Þær heimsóknir eru hluti af samstarfi kirkju og skóla eins og fram kemur í því sem þú bendir á.

Tilhögun heimsóknanna er þannig að skólarnir hafa samband við kirkjuna og biðja um að fá að koma með hópa þangað. Það er ekki kirkjan sem hefur samband við skólana og biður þá um að koma. Þetta getur skólafólk staðfest - altént í minni sókn.

Svavar Alfreð Jónsson, 1.12.2007 kl. 18:18

48 Smámynd: Sigurður Hólm Gunnarsson

 Satt og logið um stefnu Siðmenntar

Ég hef ákveðið að taka saman á einn stað flestar (en ekki allar) þær greinar sem ég hef skrifað vegna rangfærslna um Siðmennt. Satt að segja er ég orðin þreyttur á að hrekja sömu rangfærslurnar ofan í oft sama fólkið aftur og aftur. Ég hvet lesendur því að lesa þessar greinar fyrst og gagnrýna svo stefnu Siðmenntar. Það fer ótrúlega mikill tími í að svara fyrir stefnu sem Siðmennt hefur alls ekki.

<a href="http://www.skodun.is/archives/2007/01/12/satt_og_logid_um_stefnu_sidmenntar.php">http://www.skodun.is/archives/2007/01/12/satt_og_logid_um_stefnu_sidmenntar.php</a>

http://www.skodun.is

Sigurður Hólm Gunnarsson, 1.12.2007 kl. 20:39

49 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Þú átt samúð mína alla, Sigurður Hólm. Fjölmiðlar virðast oft hreinlega gera í því að rangtúlka orð manna og slíta þau úr samhengi og erfitt getur verið að sía vitleysuna úr þegar hún kemst út í stórfljót umræðunnar. Ég veit alveg hvað þú ert að tala um. Siðmennt hefur aldrei lagst gegn kristindómsfræðslu í grunnskólum - hvað þá trúarbragðafræðslu. Samt er það tuggið upp aftur og aftur - jafnvel af ráðamönnum þjóðarinnar. Ég þekki svona af eigin raun. Kirkjan hefur heldur betur orðið fyrir þessu líka og í þessari umræðu - um kirkjuna og skólana - gera menn í báðum fylkingum sig seka um að gera öðrum upp skoðanir. Hér þurfum við að taka okkur á. Takk fyrir þessa ábendingu.

Svavar Alfreð Jónsson, 1.12.2007 kl. 20:59

50 identicon

Tuggið upp af ráðamönnum þjóðarinnar, já. En líka af prestum og biskupum.

http://www.vantru.is/2005/05/06/00.00/

http://www.vantru.is/skrar/biskup.wmv

Birgir Baldursson (IP-tala skráð) 2.12.2007 kl. 04:02

51 identicon

Eftir á að hyggja þykir mér svolítið einkennilegur málflutningur trúfélaga þegar þau sækjast eftir því að komast inn í skólanna með trúboðið sitt, að segja þetta vera mál skólanna.  Að kvörtunum skuli beint til viðkomandi skóla heldur en til trúfélagsins sjálfs.  Trúfélagið segir:  "Ekki kvarta við okkur.  Kvartaðu við skólana.." 

Þetta er álíka og ef stjórnmálaflokkur sækti það fast að vera með reglulega kynningarfundi í grunnskólum.  Mér fyndist eðlilegt að beina kvörtunum til téðs stjórnmálaflokks.  Og auðvitað viðkomandi skóla....

Teitur Atlason (IP-tala skráð) 2.12.2007 kl. 11:52

52 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ekki þó af prestinum sem skrifar bloggið sem þú er að gera athugasemd í, Birgir!.....og alls ekki öllum prestum, það er ég viss um...

Jú, að vísu biskupi Íslands, nú í morgun í útvarpsræðu í beinni útsendingu, mér til vonbrigða (en kannski barnaskapur að búast við öðru), en hef þó ekki heyrt neitt um þetta frá vígslubiskupum... 

Held ég sé ekkert að svara Teiti, þó ég gæti að vísu ýmislegt sagt við hann um öfugsnúning og lygar(svona í anda Vantrúar). Tel best að Svavar svari honum sjálfur, þar sem þetta stendur nú reyndar upp á hann, en ekki mig, - vil reyna að forðast að vera meira bisíbodý

Greta Björg Úlfsdóttir, 2.12.2007 kl. 20:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband