Sæunnarmál

Sæunn Jónsdóttir fæddist á Geitaskarði í Langadal kringum 1790. Hún var fullkomlega eins og önnur börn nema að einu leyti. Fyrstu árin var henni stirt um mál og gekk jafn illa að skilja aðra og öðrum hana. Smám saman fór hún að þroska með sér eigið tungumál og á tíunda aldursári var hún orðin altalandi á það.

Systkini hennar lærðu Sæunnarmál - eða alla vega nóg til þess að systir þeirra gæti gert sig skiljanleg við þau. Sæunn lærði aldrei að tala né skilja íslensku. Hún talaði þetta tungumál sitt ævina á enda og dó gömul kona með það á vörum. Íslenska var henni alltaf framandi tunga.

Sæunnarmál þótti merkilegt mál. Árið 1858 birtust um það lærðar greinar í dönskum blöðum. Önnur var rituð af háskólaprófessor í Kaupmannahöfn, Eschricht að nafni. Út af því spunnust deilur og diskúsjónir fræðimanna um fyrirbærið.

Sum orð í Sæunnarmáli líktust íslenskum. Brauð var t. d. brauja, skór dóna, ljár heyjádd, fiskur fikk, svart fakk.

Önnur virtust algerlega ótengd íslensku. Sæunn var mjög trúuð og Guð hét Iffa. Heiti hans virtist dregið af ljósi á Sæunnarmáli, iff-iff. Sólin var iffa-umha, tunglið úfa-hara ho-fakk og stjörnurnar úta-da-da ho-fakk. Hof-fakk var nótt. Hvítasunnuna kallaði Sæunn offína húja, en venjulega sunnudaga offína morða. Snjór var hújara, sumar mah-mah en vetur mah-mah hújara.

Sæunn var skírð og fermd og hafði mikla unun af því að koma í kirkju. Oft grét hún undir altarisgöngunni. "Iffa í-inna da-arðigga" þýddi "Guð er alls staðar nálægur". Iffa í addigga, Guð veit allt. Iffa komba sagði Sæunn þegar hún vildi að Guð hjálpaði sér.

Karlmenn voru fúffa, stúlka hall-hall, barn ro-ro, svefn ibo, sjór sa-odo, regn fa-fa, prestur faff-faff, kaupmaður trapa, kóngur kondúra, fátækt doju, að syngja fí-fí og að gefa mamba.

"Hæja offo-umh igg avv-avv" þýddi: "Sæunni þykir fjarska leitt að geta ekki talað."

Sæunnarmál virtist einungis hafa nafnorð, lýsingarorð, töluorð og sagnorð, en sagnorðin notaði hún þannig að tvö ólík orð voru höfð um sama hlutinn eftir því hvort setningin var jákvæð eða neikvæð, í stað þess að nota "ekki". Fornöfn og beygingar þekkti hún ekki.

Jón Helgason segir frá þessu í bók sinni Íslenskt mannlíf, III. bindi, Reykjavík 1960.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mér finnst það athyglisverðara hvers vegna á þessu uppátæki stóð en málið sjálft. Var þetta ekki eins konar geðklofi eða þroskafrávik?

Sigurður Þór Guðjónsson, 1.12.2007 kl. 12:30

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Hvort tveggja þykir mér athyglivert.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 1.12.2007 kl. 12:44

3 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Stórmerkilegt...hafði ekki heyrt um þetta Sæunnarmál áður...eða kannski haldið að þar væri átt við eitthvert sakamálið í fortíðinni, í líkingu við Agnesarmálið.

Segi eins og Heimir, hvort tveggja athyglivert. Hef reyndar einhvern tíma lesið í blöðum um tvíbura sem áttu sér eigið tungumál sem þeir notuðu sín á milli. Svona mál eru athygliverð rannsóknarefni bæði sálfræðinga og málvísindamanna. (Að maður tali nú ekki um þá sem aðhyllast endurholdgunarkenningar).

Mér þykir þú hafa sett þig allvel inn í Sæunnar-tungutakið!

Greta Björg Úlfsdóttir, 1.12.2007 kl. 13:51

4 identicon

Sæunn hefði unnt sér vel í bloggheimum. Bloggmál er rannsóknarefni.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 14:37

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Fyrir u.þb. 30 árum gerðist áþekkur atburður hér á landi. Tvö fluggáfuð systkini þróuðu með sér eigið mál sem enginn annar fékk skilið. Þessi börn fengu að sjálfsögðu þá meðhöndlun talmeinafræðinga sem í boði var.

 Systkinin náðu að lokum fullum tökum á töluðu máli en nokkurn tíma tók það.   

Árni Gunnarsson, 1.12.2007 kl. 17:04

6 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

já stórmerkilegt og takk fyrir þessa frásögn.  ..sannar ekki tilvist guðs á röklegum skynsamlegum  forsendum...en segir margt!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 1.12.2007 kl. 21:18

7 Smámynd: Viðar Eggertsson

Þetta er stutt endursögn af málinu. Hvet alla til að lesa stórskemmtilega frásögn Jóns Helgasonar ritstjóra (1914-1981) af Sæunni sem hann skrifaði í eitt bindið af sagnaflokki sínum, Íslenskt mannlíf. Stórskemmtilegar bækur! Þessi frásögn birtist í 3. bindi og heitir "Hæja umh igg avv-avv". Fyrir svona 15 árum gerði ég einmitt útvarpsþátt uppúr frásöguþætti Jóns Helgasonar, fyrir Rás 1 í þáttaröð sem ég kallaði Kíkt út úm kýraugað.

Viðar Eggertsson, 1.12.2007 kl. 23:28

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Stórmerkilegt og forvitnilegt.  Börn mynda sín eigin orð um hluti í fyrstu og hafa þau tekið sér bólfestu í tungumálum eins og mama og dada. Væri vert að safna saman gögnum um þetta og gefa út. 

Jón Steinar Ragnarsson, 1.12.2007 kl. 23:35

9 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Á austur grænlensku þýðir mamma að borða. Amma þýðir meira og aftur. anana: Mamma; Adada: Pabbi; Í er já.  Mjög skemmtilegt mál, sem er hljóðmál og á sér ekkert formlegt ritmál.  Veit ekki hvort vísindaheimurinn hefur reynt að fanga þetta áður en það spillist og deyr út.  Held að um 600-700 manns tali þetta afbrigði.  Tölur og mælieiningar eru tjáð með handahreifingum og bendingum á kjúkur, handleggi og liði. Tölur í talmáli eru tjáðar á dönsku og oft kostulegt að heyra þau kunnuglegu orð í samkrulli við hið einfalda og fdrumstæða mál.

Jón Steinar Ragnarsson, 1.12.2007 kl. 23:41

10 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

...en Sæunn var víst ekki tvíburi, eða hvað...

Greta Björg Úlfsdóttir, 2.12.2007 kl. 01:03

11 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Skemmtileg og forvitnileg frásögn sem ég þekkti ekki til. Eins og Jón kemur inná þá mynda börn mörg skemmtileg orð meðan þau eru að læra að tala. Varðandi grænlensku mömmuna og ömmuna hjá Jóni þá hefur amma á skandinavísku líka svona matar merkingu, því það að amma er að gefa barni brjóst.

Hólmgeir Karlsson, 2.12.2007 kl. 17:37

12 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég er þeirrar skoðunnar að Sæunn hljóti að hafa verið einhverf.  Get ímyndað mér að börn með slík einkenni móti sinn tjáningarmáta, ef þau fá ekki tilhlýðilega kennslu.  Svona teoría. Væri gaman að fá komment frá einhverjum, sem þekkir vel til einhverfu og Asberger.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.12.2007 kl. 20:00

13 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Jón Helgason þessi var ekki sá i Köben heldur sá er var lengi ritstjóri Lesbókar Tímans og skrifaði Íslenskt mannlíf í mörgum bindum. Mig minnir að það sé í Sögum Ísafoldar rakin dæmi um mál Sæunnar á mörgum blaðsíðum.

Sigurður Þór Guðjónsson, 3.12.2007 kl. 00:10

14 Smámynd: krossgata

Mjög athyglisvert mál.

"Sæunn lærði aldrei að tala né skilja íslensku."  Ég hef einhvern veginn ekki trú á að hún hafi ekki skilið íslensku, ekki var hún frædd um Guð og trú á Sæunnarmáli?  Hvernig tengdi hún Hvítasunnu við sól eða ljós?

krossgata, 3.12.2007 kl. 12:20

15 identicon

Skondið.  Ég var að ljúka við að lesa Skugga-Baldur eftir Sjón og þetta er einmitt tungumálið sem Abba talar, nema hvað að hún kallar Guð Itza og ljós Iff-itz.  Iffa ku-ku er himnaríki.

Ragnheiður (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 17:55

16 identicon

Var ekki stúlkan bara heyrnarskert. Ég las þessar bækur allar um 13-14 ára aldurinn fyrir 50 árum. Kom í Hindisvík og þá spurði frk Ingibjörg. Rákuð þið við á Illugastöðum.? Það þýðir á nútímamáli létuð þið reka að Illugastöðum   Við vorum í hópferð á rútubíl frá Sleitustöðum....bara datt þetta svona í hug.!

Margrét Sig (IP-tala skráð) 10.12.2007 kl. 13:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband