Góð kirkjuáramót í Eyjafirði

kirkjubaerÁ síðasta  degi kirkjuársins var boðað til húsblessunar í Kirkjubæ, nýrri kirkjumiðstöð við sjálft Ráðhústorg á Akureyri. Þar munu starfa Jóna Lovísa Jónsdóttir, rekstrarstjóri Kirkjubæjar og framkvæmdastjóri Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar, sr. Guðmundur Guðmundsson, héraðsprestur og Ásta Garðarsdóttir, umsjónarmaður vinaheimsókna Eyjafjarðarprófastsdæmis. Er hvert horn gjörnýtt í Kirkjubæ því auk þess hafa vígslubiskupinn á Hólum og prófastur Eyfirðinga þar aðstöðu. Fjölmenni var við blessunina og gæddu gestir sér á piparkökum sem rennt var niður með rjúkandi súkkulaði.olafsfjardarkirkja

Nýtt kirkjuár hófst með sama glæsibrag og því gamla lauk. Á fyrsta degi þess lá leið mín út í minn gamla Ólafsfjörð því til stóð að vígja nýtt safnaðarheimili við Ólafsfjarðarkirkju. Gamla fallega kirkjan, sem reist var árið 1916, var lengd og endurnýjuð fyrir nokkrum árum. Nú er söfnuðurinn búinn að innrétta safnaðarheimilið og búa það húsgögnum. Hefur einstaklega vel til tekist, bæði með kirkjuna og heimilið. Er full ástæða til að óska Ólafsfirðingum til hamingju með safnaðarheimilið. Það er lýsandi fyrir þann hlýhug sem þeir bera til kirkju sinnar.

sjukrahuskapellaOg ekki sér fyrir endann á þessu, því næsta föstudag verður vígð ný kapella á Sjúkrahúsi Akureyrar. Ég tók reyndar pínulítið forskot á sæluna því um daginn skírði ég þar barnskríli. Óhætt er að fullyrða að kapellan er fagur og hlýr helgidómur og bætir úr brýnni þörf. Munu þær stöllur sr. Guðrún Eggertsdóttir, sjúkrahúsprestur, og Valgerður Valgarðsdóttir, djákni, taka sig vel út þar, en þær annast trúarlega þjónustu á sjúkrahúsinu.

Það er því heilmikið um að vera í kirkjugeira hinnar eyfirsku tilveru þessa dagana.

(Myndirnar með færslunni eru af vef Eyjafjarðarprófastsdæmis.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Óska ykkur til hamingju með nýju kirkjumiðstöðina og vona að hún verði til að efla starfið enn frekar.

Adda Steina (IP-tala skráð) 8.12.2007 kl. 10:15

2 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Tek undir heillaóskir Öddu Steinu.

Svo ég komi nú umræðu að, - jafnvel í þessari fræðandi færslu - , þá kom móðir mín í dag með röksemdafærslu fyrir því að við ættum að halda áfram að hafa Þjóðkirkju í landinu, í nútímasamfélagi: Hvað með litlu sóknirnar úti á landi?

Þessi rök höfðu að vísu flogið ég gegnum huga mér, því vissulega gæti reynst erfitt fyrir eitt trúfélag, þó svo það yrði áfram það langstærsta í landinu, að mínu áliti, að njóta ekki stuðnings ríkisins við að viðhalda helgihaldi í dreifbýlinu, sem vissulega verður að vera þar til staðar. Óvíða eru önnur trúfélög starfandi í dreifbýlinu en hin evangelísk-lúterska kirkja, það væri þá helst í Vestmannaeyjum. Þjóðkirkjusöfnuðurinn þar er samt sem áður mjög öflugur þar, að mér skilst.

- Það er merkilegt, og þó ekki, að trúmál virðast brenna meira á fólki í slíkum fiskimannabyggðum en inn til landsins, hér eins og t.d. í Noregi, og sértrúarsöfnuðir spretta upp í þessum litlu samfélögum - er eitthvað til í því?

Ég ætla mér nú ekki að stofna til nýrrar umræðu hér við þessa færslu, þetta er meira stílað til þín persónulega, - þú birtir þetta ef þú vilt. 

Í Guðs friði. 

Greta Björg Úlfsdóttir, 9.12.2007 kl. 00:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband