Skólar og trú

helgileikur[1]Þessa dagana er tekist á um skólastarf og trúmál. Ekki er alltaf gott að sjá um hvað deilurnar snúast nákvæmlega. Sumir segja að trúboð í skólum sé ásteytingarsteinninn. Ég ekki viss um að svo sé. Í formála að þeim kafla aðalnámskrár grunnskóla sem fjallar um kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði segir:

"Skólinn er fræðslustofnun en ekki trúboðsstofnun og er því fyrst og fremst ætlað að miðla þekkingu og auka skilning á kristinni trú og öðrum trúarbrögðum."

Hér eru sýnist mér tekin af öll tvímæli. Skólinn hefur það ekki á sinni stefnuskrá að boða trú. Kennsla í kristnum fræðum hefur það markmið að miðla þekkingu og auka skilning á kristindómi. Um það er held ég ekki ágreiningur.

Þjóðfélagið er að breytast. Lífsskoðanir fólks verða fjölbreyttari. Að mínu mati eru það mikil mistök að bregðast við þeim breytingum með því að gera trúmál og lífsskoðanir fólks að feimnismálum í skólunum. Eitthvað sem helst megi ekki koma til tals eða sjást.

Íslensk börn þurfa að þekkja eiginn menningararf. Þau þurfa að skilja kristni. Og vissulega þurfa þau líka að skilja önnur trúarviðhorf en sín eigin.

Til þess er nauðsynlegt að láta ekki nægja að fjalla um trúarbrögðin heldur þarf að gera börnunum kleift að "setja sig í annarra spor og skoða viðkomandi átrúnað innan frá..." eins og segir í aðalnámskrá grunnskólanna.

Það gerum við ekki með því að gera trúarlegar stofnanir tortryggilegar. Það gerum við heldur ekki með því að þurrka út allt trúarlegt í skólunum, afnema helgileiki á litlu jólunum, leggja af heimsóknir skólabarna í kirkju á aðventunni og banna prestum að koma í skólana.

Í aðalnámskrá grunnskóla segir:

"Vettvangsferðir í kirkjur og aðra helgidóma, á söfn, sögustaði, tónleika o. fl. eru til þess fallnar að tengja sögu og samtíð með lifandi hætti og hjálpa nemendum að kynnast margvíslegri trúarlegri túlkun og tilbeiðsluháttum."

Er hættulegt að börn fái að kynnast "margvíslegri trúarlegri túlkun og tilbeiðsluháttum"?

(Myndin með færslunni er af hríseyskum skólabörnum að sýna helgileik. Hún er tekin af akureyri.is.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"mikil mistök að bregðast við þeim breytingum með því að gera trúmál og lífsskoðanir fólks að feimnismálum í skólunum. Eitthvað sem helst megi ekki koma til tals eða sjást."

Æ, af hverju talarðu svona? Enginn hefur sagst vilja úthýsa kristinfræðikennslu eða trúarbragðafræði úr skólum.

Ég hvet þig til að vera vandur að virðingu þinni og taka á þessu máli eins og það er, en ýkja ekki með þessum hætti. Þetta kemur út hjá þér eins og þeir sem gagnrýna heimsóknir presta í leikskóla og grunnskóla vilji ekki bara henda þeim út, heldur allri umræðu um trúmál og kristniarf þjóðarinnar.

Þetta er ekki satt Svavar. Þú þarft ekki að mála þessa mynd af umræðunni, til þess að sannfæra aðra, og vonandi ekki til að sannfæra sjálfan þig. 

Til dæmis gætu rök þín um vettvangsrannsóknir alveg staðið ein og óstudd, án þess að þú þurfir að grípa til þess að setja hinum aðilunum svona ljót orð í munn, á borð við að þeir vilji "þurrka út allt trúarlegt í skólunum".

Ég fæ sting fyrir hjartað, að sóknarprestur skuli leggjast svona lágt. 

Kristinn B. Þorgrímsson (IP-tala skráð) 8.12.2007 kl. 13:10

2 identicon

Nokkrir punktar: 

Það þarf að gæta jafnræðis í  trúmálum. Mér sýnist hugmyndin vera að hygla kristninni sökum menningararfleifðar hennar. En þá þarf líka að huga að því að kenna Hávamál og Snorra-Eddu. 

Helgileikir einnar ákveðinnar trúar, og engrar annarrar, eiga ekkert erindi í opinbera skóla. 

Það er talað um "þörf" barnanna til að "setja sig í annarra spor og skoða viðkomandi átrúnað innan frá...". Hvað þýðir þetta?

Ein spurning í lokin. Er átrúnaður á krist nauðsynlegur til að samsama sig íslensku samfélagi? 

Bjarki Þór Baldvinsson (IP-tala skráð) 8.12.2007 kl. 13:23

3 identicon

Svavar, Geturðu yfirleitt ímyndað þér fólk með aðrar lífsskoðanir en þæŕ sem þú sjálfur stendur fyrir, hvað þá tekið tillit til þeirra? Þú talar um fjölbreytileika annars vegar og svo nauðsyn þess að kristni sé í hávegum höfð sökum arfleiðar. Hvað varð um ásatrú og kaþólsku?

Hitt er áhugavert að sjá hvernig kristin trú þjappar íslendingum saman í að úthrópa þá sem eru ekki kristnir og fara með ofbeldi gegn þeim. Það held ég að hvert einasti einstaklingur utan trúarbragða með barn í íslenskum skóla þekki alltof vel eða eins og kennari afkvæmi míns orðaði einhvern vegin "við ætlum bara að kenna kristna siðfræði og gildi ásamt kristina sögu, það hefur ekkert með trúarbrögð að gera".  Eitthvað reyndi ég að malda í móinn og uppskar tiltal á þann veg að mér væri best að þegja og láta sérfræðingana um það sem væri barninu fyrir bestu. Þarna er verið að troða uppá afkvæmi mitt EINNI tegund lífsskoðanna og ekki endilega þeirri sem ég tel vera æskilega í svona miklu magni fyrir afkvæmi mitt.

Það er hægt að hugsa lífið á fleiri vegu, getur kristin kirkja viðurkennt það? 

Magnús (IP-tala skráð) 8.12.2007 kl. 20:20

4 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Sæll Svavar Alfreð, og takk fyrir mjög velkomna hugleiðingu um ágreiningsefni. Sýnir einlægan vilja þinn til að skilja hvað er í gangi í þjóðfélaginu og hugrekki og þor að takast á við þu málefni.  Það skal virða og vonandi tekst mér að koma mínum sjónarmiðum á framfæri, án ærumeiðinga, enda hefur það aldrei verið mín meining.

Þú segir

"Sumir segja að trúboð í skólum sé ásteytingarsteinninn. Ég ekki viss um að svo sé. Í formála að þeim kafla aðalnámskrár grunnskóla sem fjallar um kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði"

 Af minni hálfu er þetta hæalfur sannleikur...trúboð í skólum (eða vantrúboð) er óásættanlegt út frá sjónarhóli mínu, sem foreldri

Í grunnskólum fellur kristnifræði greinilega undir kennslu í Íslandssögu (árið 1000 urðum við rómversk kaþólks og svo við siðaskipti (1550) urðu íslendingar lútherstrúar við drápið á Jóni Arasyni, seinasta biskupi Kaþólskunnar....(þetta er kristni). Hins vegar hefur mér alltaf verið kært í huga hvernig íslendingar snérust til kristni í byrjun (999) þegar Þorgeir Ljósvetningagoði vildi ekki brjóta í sundur lögin, því þá væri friðurinn farinn!

Mjög svo flott og hver þjóð ætti að vera stolt af (í anda Ghandi og Sókrates).

 Svo ég vitni í þig aftur Svavar...

"Þjóðfélagið er að breytast. Lífsskoðanir fólks verða fjölbreyttari. Að mínu mati eru það mikil mistök að bregðast við þeim breytingum með því að gera trúmál og lífsskoðanir fólks að feimnismálum í skólunum. Eitthvað sem helst megi ekki koma til tals eða sjást. "

Hérna erum við algerlega sammála svo ég læt það kyrrt liggja

Siðan segir þú...

"Er hættulegt að börn fái að kynnast "margvíslegri trúarlegri túlkun og tilbeiðsluháttum"?"

Aftur er ég SAMMÁLA!

...en getum við þá ekki verið sammála um aðskilnað kirkju og ríkis Svavar Alfreð? 

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 8.12.2007 kl. 20:31

5 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Skólinn hefur það ekki á sinni stefnuskrá að boða trú.

Frábært. Ertu þá t.d. sammála því að heimsóknir á leikskóla þar sem trúboð er stundað ættu ekki að eiga sér stað?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 8.12.2007 kl. 20:44

6 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

"Helgileikir einnar ákveðinnar trúar, og engrar annarrar, eiga ekkert erindi í opinbera skóla."

Hvað með helgidaga einnar ákveðinnar trúar? T.d. páskana?

Hjörtur J. Guðmundsson, 8.12.2007 kl. 20:52

7 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Annars, hvað varð um síðustu færsluna þína "Siðmennt???"?

Hjörtur J. Guðmundsson, 8.12.2007 kl. 20:54

8 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Ok, fann hana. Hélt einhverra hluta vegna að hún hefði verið sú síðasta.

Es. Þarft ekki að birta þessar tvær síðustu athugasemdir mínar mín vegna :)

Hjörtur J. Guðmundsson, 8.12.2007 kl. 20:56

9 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Vel á minnst, helgidagar, ég man ekki betur, frá því að ég bjó í Tanzaníu fyrir mörgum árum síðan, en að börnin fengju frí á ÖLLUM helgidögum þeirra opinberu trúarbragða sem fyrirfinnast í landinu, þ.e.a.s. kristni, íslam, hindúismi, held samt ekki fleiri. Skolli góður slatti af frídögum það!

(Og allir skemmtu sér vel)

Greta Björg Úlfsdóttir, 8.12.2007 kl. 21:09

10 Smámynd: Egill

Hjörtur þú heldur þó ekki virkilega að þetta tímabil sem jólin ganga yfir og páskar, séu sá tími sem hafa aldrei verið haldin hátíðleg í neinum samfélögum þar til kristin trú kom?

Ef svo er, mæli ég með að þú lesir þig til um sögu þessara hátíðisdaga, og ekki bara biblíuna

Egill, 9.12.2007 kl. 00:01

11 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Kristinn B.: Þegar ég talaði um að gera trúmál og lífsskoðanir fólks að feimnismálum átti ég ekki við fræðsluna, heldur trú fólks og trúarlega siði, t. d. í tengslum við jólin. Ég hef ekki heyrt marga sem vilja trúarbragðafræðsluna út úr skólunum en allnokkra sem vilja kristinfræðikennsluna þaðan, sbr. þessa umræðu sem ég tók nýlega þátt í hjá bloggvinkonu minni, Jónu. Ég vona svo að stingurinn sé liðinn hjá.

Bjarki B.: Engin trúarbrögð eru jafn fyrirferðarmikil á Íslandi og kristni. Þess vegna er mest þörf á að fræða börn um hana. Það breytir því ekki að efla þarf fræðslu um önnur trúabrögð en kristni. Ég er nokkurn veginn viss um að ég þarf ekki að útskýra fyrir þér hvað sé í því fólgið að setja sig í annarra spor - né heldur nauðsyn þess að kunna það.

Magnús: Einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að hér gildi tilmælin: Lesa fyrst, skrifa svo.

Anna: Gleður mig að ég sé sammála þér og þú mér að þessu leyti. Ef til vill eigum við fleira sameiginlegt? Ábyggilega má hugsa sér breytt samband ríkis og kirkju en þau tengsl eru að mínu áliti afskapklega lítil. Sú umræða er engu að síður efni í feitan pistil og ef til vill heitan.

Hjalti Rúnar: Ég hef áður sagt hér á þessu bloggi að ég telji allt skólastarf eiga að fara fram á forsendum skólanna. Þú ert sýnist mér að tala um sérstakt dæmi sem ég vil síður tjá mig um því ég þekki það ekki nógu vel.

Og Egill: Það er voðalega lítið talað um jólin í Biblíunni eða aðrar kristnar hátíðir. Þó að til til séu heiðin jól og páskahátíð gyðinga eiga kristin jól og kristnir páskar sér aldalanga sögu.

Öllum þakka ég góðar og málefnalegar athugasemdir.

Svavar Alfreð Jónsson, 9.12.2007 kl. 21:41

12 identicon

Það er nokkuð teygjanlegt hvað fellst í því að skoða trúarbrögð "innan frá" og sérstaklega hvernig það tengist því að setja sig í spor annarra. Er verið að vísa til þess að nauðsynlegt er að fara á tilbeiðslustaði til þess að vita hvernig helgiathafnir fari fram? Hversu oft eða hve lengi á slíkt að eiga sér stað? Samræmist það jafnræðisreglunni um trúarfræðslu? Hvað með staði þar sem einungis er kirkja en engir aðrir helgistaðir? Spurningin snéri ekki að nauðsyn þess að finna til samkenndar gagnvart náunganum og skilja hann, heldur að því hvað fælist í viðkomandi setningu aðalnámskrá grunnskólanna. Ég býst við því að enginn viti það og því er verið að karpa um þau. Orðalagið þarf að vera skýrt, sérstaklega ef á að fara að ræða um hlutina að einhverju viti.

Bjarki Þór Baldvinsson (IP-tala skráð) 9.12.2007 kl. 23:09

13 Smámynd: Ransu

Ég veigra mér orðið að fara inn í umræðu sem tengist skólakerfinu, enda álit mitt að trúmál séu ekki helsta vandamál menntastefnu á Íslandi. En það er nú önnur saga.

Eitt sem ég átta mig illa í umfjöllun um málefnið. Þ.e. þegar talað er um börn að þá eru þau sett undir einn hatt. En það er gríðarlegur munur á 5 ára og 15 ára barni. Tilhneiging menntakerfis er að setja allt í rökhugsun. En trúarbragðafræðsla á varla erindi til barna fyrr en þau snerta unglingsárin og rökhugsunin er farin að mótast almennilega. Tala ekki um þá tilvistarlegu erfileika sem oft fylgja þessum árum, að þá kynni trúarbragðafræðsla að varpa ljósi á margt ef hún væri í einhverjum takti við heimspeki og listir. Þá kynni hún að fá persónulega meðferð hjá barninu, allavega frekar en ef hún væri kennd innan mannkynssögu, upplýsingar frá A-Ö með tilheyrandi minnisprófi sem börnin fá ekkert út úr. Það væri vís leið til að drepa niður trúna.

Fyrir yngri börn frá 5-11 ára, væru trúmál sem fræðigrein gersamlega út úr korti.  

Ransu, 9.12.2007 kl. 23:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband