Íslenska viðskiptavitið

hlæjandihesturÞessa dagana les ég hinar skemmtilegu og vel skrifuðu bækur Jóns Helgasonar, Íslenskt mannlíf. Bloggfærslan mín um Sæunnarmál var þaðan ættuð.

Í fjórða bindi ritraðarinnar segir frá heimsókn hins danska krónsprins Friðriks til Íslands. Hann kom hingað árið 1834. Ekki var för sú af hans fúsa og frjálsa vilja því prinsinn mun hafa verið sendur hingað eftir að hafa lent í hjónabandsveseni sem lauk með skilnaði.

Þetta var heilmikill leiðangur. Var Hannesi Johnsen, kaupmanni, falið að kaupa eitt og annað hér á landi sem prinsinn þurfti til ferðarinnar. Þar á meðal voru þrjátíu hestar.

"Hannes tók að fala hesta, sem fljótt stigu í verði við eftirspurnina..." skrifar Jón.

Í maílok kom krónprinsinn til landsins og hófst löng ferð hans um landið. Lenti hann í miklum ævintýrum, m. a. frægri drykkju með amtmanninum á Möðruvöllum. Lyktir hennar urðu þær að prinsinn skondraði með byssuhólk sinn upp í Staðarfjall og skaut tvo spóa.

Prinsinn komst líka í hlutverk bráðarinnar. Vergjörn kona á Akureyri lagði fyrir hann snörur og voru menn ekki á einu máli um hvern árangur hún hafði.

Landsmönnum féll vel við krónprinsinn. Hann þótti um margt sérstakur en gat verið alþýðlegur og hið mesta vaskmenni.

Um haustið kom snekkja að utan að sækja Friðrik krónprins. Þannig lýsir Jón Helgason viðbrögðum skipverja við því þegar höfuðstaður Íslands blasti við þeim:

"Þótti skipsforingjum undarlegt um að litast, og varð þeim starsýnt á kotaþyrpingarnar uppi í holtunum. Spurðu þeir, hvaða rústir þetta væru eða hverju slíkt jarðrask sætti."

Þegar prinsinn var farinn seldi Hannes kaupmaður Johnsen hestana sem hann hafði keypt um vorið undir krónprins Dana á uppsprengdu verði. Er þeirra viðskipta getið í Íslensku mannlífi með þessum orðum:

"En nú brá svo við, að verð á hestum hafði mjög fallið....."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Skemmtileg frásögn.

Þeir hafa víst ekki alltaf verið barnanna bestir, dönsku prinsarnir, hvorki í nútíð né fortíð. 

Greta Björg Úlfsdóttir, 10.12.2007 kl. 15:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband