Kristilegt plastsiðgæði

hinheilagafjölskyldaÍ byrjun aðventu stingum við Maríu, Jósef og Jesúbarninu í samband í inngangi safnaðarheimilisins. Þetta eru stórar styttur og hafa ábyggilega gnæft yfir þvottavélarnar og þurrkarana í raftækjaversluninni þar sem þær voru á sínum tíma keyptar. Þær eru úr plasti, búnar til í Tævan og í hverjum fjölskyldumeðlimi er að minnsta kosti ein pera.

Enda þótt ég tali svona óvirðulega um hina heilögu fjölskyldu fyllast börnin sem koma í heimsóknir í kirkjuna núna á jólaföstunni djúpri lotningu þegar þau sjá þessar upplýstu plaststyttur. Sum þeirra mega ekki til þess hugsa að fara án þess að kyssa barnið í jötunni á kinnina.

Einn úr sóknarnefndinni spurði samt hvort ekki færi betur að hafa slíkar eftirmyndir í raunverulegu gripahúsi en á gljáfægðu marmaragólfi Safnaðarheimilis Akureyrarkirkju. Innan um kindur og hesta, þar sem kaldir vindar næða um þil, í týruflökti og jafnvel stækri skepnulykt.

Þó að mér finnist syndsamlega gott að borða og mali eins og gamall högni við kræsingar hlaðborða aðventunnar má ég vita að hin heilaga fjölskylda er ekki þar. Hún er miklu fremur þar sem fólk verður að láta fyrirberast við þröngan kost.

Utanríkisráðherran okkar Ingibjörg Sólrún komst vel að orði um stöðu Íslands efst á lista yfir þær þjóðir sem búa við best lífskjör. Hún sagði að því sæti fylgdi mikil ábyrgð. Eftir því sem við færðumst ofar á þessum lista ykjust skyldur okkar við fátækustu þjóðir þessa heims.

Aðventan er helsti söfnunartími Hjálparstarfs kirkjunnar. Ég minni á þá stofnun og aðrar sem eru útréttar hendur auðugs fólks til þeirra sem ekkert eiga, fátækra fjölskyldna sem hírast í kulda og örbirgð vítt og breitt um veröldina.

Rík þjóð má ekki halda aðventu án þess að muna eftir sínum minnstu systkinum og enn síður þjóð sem er annt um kristilegt siðgæði.

Annars erum við bara að tala um kristilegt plastsiðgæði á Íslandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birna M

Mér hefur stundum verið hugsað til þess hversu hlálegt það er að tala um landið sem best er að búa í og nánast í sama blaði er frétt af öryrkja eða eldri manneskju með innan við 30 þúsund til að lifa mánuðinn borga það sem borga þarf og halda jól. Og las ég það ekki í gær að aldraður eða öryrki fengi þó allavega 25 þúsundkall öruggt, eins og það séu einhver óskup. ég get sagt þér að þetta mun ekki skána ef þeim tekst að útrýma restinni af kristinni útúr skólakerfinu, Öll tillitsemikennsla af hvaða toga sem hún er virðist ekki hafa skilað sér inn í höfuð okkar hæstvirtu ráðamanna.

Birna M, 13.12.2007 kl. 10:49

2 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ég átti mjög ánægjulega stund með foreldrum mínum á tónleikum í Hallgrímskirkju, í tilefni af 15 ára afmæli orgelsins stóra, 8. desember.

Gott var að geta í leiðinni styrkt Hjálparstarf kirkjunnar, sem svo sannarlega lætur gott af sér leiða. Ég veit að kirkjunnar fólk vinnur gott starf og leggur jafnvel hönd á plóg þegar aðrir bregðast, þess veit ég dæmi.

Greta Björg Úlfsdóttir, 13.12.2007 kl. 16:36

3 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Svavar, veist þú ekki alveg örugglega af ÞESSARI umræðu - hún er góð. Þarna er fólk að reyna að komast að niðurstöðu - án upphrópana og aðfinnslna.

Greta Björg Úlfsdóttir, 13.12.2007 kl. 17:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband