Hreinar meyjar í hjólbörum

wheelbarrow[1]Einn frægra prédikara kirkjunnar, Abraham a Santa Clara, fyllti kirkjur Vínarborgar á 17. öld. Hann flutti ræður sínar af sannri snilld en gat látið tilfinningarnar ná tökum á sér lægi honum mikið á hjarta.

Einn góðan drottinsdag fjallaði Abraham um lauslætið í Vínarborg sem honum blöskraði. Í hita augnabliksins gleymdi hann sér og staðhæfði í stólnum að ekki væru fleiri hreinar meyjar í borginni en svo, að aka mætti þeim út úr henni í einum hjólbörum.

Safnaðarfólki sárnaði mjög að sitja undir þessum ummælum prédikarans. Eftir messu var honum gert ljóst að ekki kæmi annað til greina en að hann leiðrétti þau.

Abraham þráaðist eitthvað við en lofaði síðan að færa þetta til betri vegar strax næsta sunnudag.

Þá sté hann í stólinn og hóf prédikun sína á þessum orðum:

"Kæri söfnuður!

Síðasta sunnudag fullyrti ég að lauslætið í Vín væri svo mikið að ekki þyrfti nema einar hjólbörur til að aka út úr borginni þeim hreinu meyjum sem enn fyrirfinnast hér.

Ég viðurkenni fúslega að þau ummæli mín voru ekki fullnægjandi og því má auðveldlega misskilja þau.

Ég gleymdi nefnilega að geta þess hversu margar ferðir þyrfti að fara með hjólbörurnar en læt ykkur eftir, góðu vinir, að ráða þá gátu."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Góð saga. Minnir mig á, þegar einhverjir grallarar veðjuðu við prest, að hann þyrði alls ekki, að mæla frá predikunar stólnum "mér stendur". Prestur hélt því nú fram, að það yrði létt verk og löðurmannlegt. Næsta sunnudag í guðsþjónustu biðu prakkararnir eftir því að prestur annað hvort þyrði ekki, eða brysti kjark til til fyrrnefndra ummæla.  En viti menn í ræðu sinni kom, að hann segir ; ó mér stendur, ó mér, ó mér stendur ógn af mínum syndum. Þar með hafði prestur unnið veðmálið.

Þorkell Sigurjónsson, 18.1.2008 kl. 14:03

2 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Skemmtileg saga - og líka þessi frá Þorkeli

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 18.1.2008 kl. 15:11

3 identicon

42, ekki satt?

Trausti (IP-tala skráð) 19.1.2008 kl. 02:37

4 Smámynd: Íris Fríða

Góð saga

Íris Fríða , 23.1.2008 kl. 21:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband