Einn einfaldan, takk!

3enighed[1]Nú vilja menn hafa það einfalt. Vélræna veröld. Diggital manneskjur. Allt á hreinu, tæru og þurru.

Guð er vandræðastærð í svoleiðis heimsmynd og sé pláss fyrir hann verður hann líka að vera einfaldur og óflókinn. Fara vel í vasa - til að hann verði jafn viðráðanlegur og við viljum hafa heiminn og manneskjuna.

Þegar talað er um Guð almáttugan er verið að segja að ekkert afl sé honum meira. Það finnst mörgum erfiðast við Guð.

Þess vegna þola þeir ekki Guð. Hann ógnar þeim í þeirra eigin almættisórum.

Auk þess að flækja heiminn, raska einfaldleikanum.

Samkvæmt kristinni kenningu er Guð ekki einfaldur heldur að minnsta kosti þrefaldur - eða þríeinn eins og það er víst venjulega orðað.

Á gömlu evrópsku veggmálverki er heilög þrenning sýnd sem fjölskylda, móðir, faðir og sonur.

Mér finnst það flott lýsing á Guði. Hún nær vel að koma því til skila að Guð sé ekki föst stærð.

Hann er karl, kona og barn og um leið samband þeirra þriggja.

Hann er ekki eitthvað sem liggur fyrir og er svona, heldur er hann að verða.

Hann er líf. Hann er ferli.

Hann býr yfir karllegum eiginleikum og kvenlegum. Hann er líka það sem einkennir barnið. Hann er það smáa og veika.

Hann býr í hverri einlægri spurn og heiðarlegri undrun.

Hann er alltaf nýr og er alltaf að gerast.

Hann er andstæða fordómanna, óbilgirninnar, þess steinrunna og fyrirfram gefna.

Og eins og einhver sagði: Það er í raun ekki hægt að tala um Guð nema maður geri sér grein fyrir að í raun er ekki hægt að tala um Guð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Kæri Svavar, þú snýrð öllu á haus.

Heimurinn er flókinn, veröldin er flókin.  Við vitum ekki öll svörin.  Við erum ekkert betur stödd ef við skáldum upp svör.

Trúarbrögð koma með einföld svör, Gvuð gerði það.  

Þess vegna þola þeir ekki Guð. Hann ógnar þeim í þeirra eigin almættisórum

 Finnst þér þetta virkilega gáfulegt - trúir þú þessu sjálfur?

 Og eins og einhver sagði: Það er í raun ekki hægt að tala um Guð nema maður geri sér grein fyrir að í raun er ekki hægt að tala um Guð.

 En þú ert alltaf að tala um Gvuð!  Þú talar um gvuð við leikskólabörn, grunnskólabörn, unglinga sem eru að fermast, fólk sem er að gifta sig, skíra börnin sín og grafa ættingja.

Þú snýrð öllu á haus. 

Matthías Ásgeirsson, 16.5.2008 kl. 11:08

2 identicon

Sæll Svavar!

Ég  veit að það er erfitt að sætta sig við þetta en Guð er ekki til, og hefur aldrei verið til hvort sem þú trúir því eða ekki....  Ég verð líka að viðurkenna það að ég get ekki flogið eða gengið á augnhárunum eða vatni hvort sem þú trúir því eða ekki þá er það víst staðreynd.

Að trúa á e-h og eða einhverju, er sannarlega raunveruleiki í hugarheimi þess er trúir, en það þarf samt ekki að vera raunverulegt fyrir því, gildir þá einu um hvort það séu margir eða fáir sem trúa.

Til þess að komast að því hvað er raunverulegt og hvað ekki höfum við ákveðnar aðferðir til að beita. Þetta hefur t.d. eðlisfræðiprófessorinn Victor J. Stenger gert og komist að því alvitrir, almáttugir og algóðir guðir standast enga vísindalega skoðun.

Segjum samt að svo ólíklega vildi til að Guð sé raunverulegur, kemur þá nokkuð í veg fyrir að aðrir Guðir séu einnig til?  Er t.d. Óðinn og Þór ekki til líka? Ásatrúarmenn trúa því.  Eða allar þeirra miljónir Guða í Indlandi? Af hverju er bara þinn Guð til en ekki hinir?

enda virðist nánast ómögulegt að átta sig á hvað hann er í dag sbr. pistil þinn. Hann virðist vera allt og ekkert), 

Nei Svavar minn þetta getur einfaldlega aldrei gengið upp. Ekki dugar heldur að bregðast þannig við gagnrýni,  að flækja Guðinn þinn. Enda veistu að sú flétta finnst einungis í hugarheimi þínum, þetta er ekki raunveruleiki. Breytir þá engu um hversu margir já-bloggarar koma hér á eftir með fyrirbænir, þar sem þeir biðja þennan ímyndaða vin ykkar um að blessa þig og varðveita, Það er ekki raunveruleiki, frekar en að ég geti gengið á vatni.

Halldór Halldórsson (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 11:32

3 identicon

Og enn eitt!

Til að útskýra þetta enn betur, þá vita flestir að draumar eru ekki raunveruleiki heldur ímyndanir í huga okkar.

Guð er líkt og draumur eða ímyndun, hann fyrirfinnst einungis í huga þess er trúir. Guð hefur ekki og eða getur ekki átt tilvist utan huga þess trúaða líkt og draumar okkar. Guð er því ekki raunverulegur..

Halldór Halldórsson (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 11:48

4 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Halldór: Það er óneitanlega vel af sér vikið hjá eðlisfræðiprófessornum þínum, Viktori J. Stenger, að hafa uppgötvað hvað sé raunverulegt og hvað ekki. Hann á alla mína aðdáun.

Svavar Alfreð Jónsson, 16.5.2008 kl. 11:54

5 identicon

Alger óþarfi að dá Stenger bara að virða hann.

Að brosa út í annað um leið og þú segist dá Stenger fyrir "að hafa uppgötvað hvað er raunverulegt og hvað ekki", túlka ég á þann veg að, þú gefir, fyrirfram, lítið fyrir rök hans. Því fellur yfirlýsing þín um aðdáun þína, á honum, um sjálfan sig.. sem sagt er ekki sönn eða á mannamáli lygi. Þetta hæðnislega svar þitt á einnig að sannfæra áhangendur Guðs um að ekkert sé að óttast þú hafir allt undir fullkominni stjórn... Guð er víst til..  Það er þín skoðun og trú. 

Eins og ég benti þér á í fyrra svari mínu þá kaupi ég alveg að þetta sé raunveruleiki fyrir þér og áhangendur Guðs, það breytir því ekki að rök hinna trúuðu hljóma heldur ótrúverðug í mín eyru: t.d. ég trúi bara..  ja svona af því bara... ef ske kynni... mamma og pabbi kenndu mér þetta...  hvað gerist eftir dauðan?? það hlýtur að vera til himnaríki, (ergo þá einnig helvíti)??   óhrekjanleg sönnun um tilvist hans kemur einhvertíma seinna sjáið bara til..  Amen. 

Þetta hljóta allir heilbrigðir menn að sjá að heldur ekki vatni, og er röksemdarfærsla er byggir á sandi, svo ég taki mér biblíulegar tilvitnanir. 

Tökum dæmið um aðra guði:  Eingyðistrú inniber að það sé bara til einn Guð, sem sé alvitur, almáttugur og algóður... Hversvegna þarf fyrsta boðorðið að hljóma þannig "Ég er Drottinn Guð þinn, Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig"? Þetta mætti túlka á þann veg að Guð sjálfur viti af því að það séu til aðrir guðir og menn skuli ekki trúa á þá heldur sig....  bara sig... ja þvílík frekja..

Þar sem ég tel mig vera mikinn mannvin þá finnst mér það vera borgaraleg skilda mín um að upplýsa þig og aðra um staðreyndirnar um Guðinn ykkar. Hann er bara einfaldlega ekki til...   Veigamikil rök er einnig fyrir því að biblíu-Jesú hafi heldur aldrei verið til og texti biblíunnar er ekki sannur eða byggður á neinum staðreyndum. 

Halldór Halldórsson (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 18:57

6 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Halldór, þakka þér innilega fyrir að upplýsa mig og aðra um staðreyndirnar.

Svavar Alfreð Jónsson, 16.5.2008 kl. 20:15

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hmmm? Er þá heilagur andi kona? Það sýnist mér samkvæmt þessum rökfærslum. Kristnin og skyld trúarbrögð hafa þá ekki í öllu hundsað konurnar, þótt þarna vanti dótturina. Það er sem ég segi..Maður er alltaf að læra eitthvað nýtt, þó svo að það komi ekki að neinu gangni eða breyti nokkrum hlut. Hafa skal það sem skemmtilega reynist.

Jón Steinar Ragnarsson, 16.5.2008 kl. 21:41

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Svo er það þtta með samkvæmnina.

Þess vegna þola þeir ekki Guð. Hann ógnar þeim í þeirra eigin almættisórum.

Og svo...

Hann er andstæða fordómanna, óbilgirninnar, þess steinrunna og fyrirfram gefna.

Það rúmast greinilega allt til jafns hjá gvuði. Jafnvel hið himinhrópandi ósamræmi.

Jón Steinar Ragnarsson, 16.5.2008 kl. 21:45

9 Smámynd: Víðir Benediktsson

Hver á að sanna mál sitt? Á presturinn að sanna að Guð sé til að eiga hinir trúlausu að sanna að hann sé ekki til. Það eru til milljón kenningar um tilveru heimsins, meðan ekkert er sannað verður það bara áfram kenning. sbr. Afstæðiskenningin, Þróunarkenningin o.fl. Kenning biblíunnar stenst alveg jafnt og hinar. Hún hefur allavega ekki verið hrakin enn, nema með öðrum kenningum og það segir sína sögu.

Víðir Benediktsson, 16.5.2008 kl. 22:03

10 Smámynd: Atli Fannar Ólafsson

En eru menn ekki sem trua ekki a Gud ad gleyma kaerleik?

Atli Fannar Ólafsson, 16.5.2008 kl. 22:33

11 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Víðir: Þetta kallast hundalógík í minni sveit. Eðli aðdrattaraflsins er líka kenning, sem studd er af fjölda líkinda og mælinga og samræmist vel öðrum kenningum um gang og eðli himintungla.

Við finnum fyrir aðdráttaraflinu og getum tæplega afneitað því, né unnið gegn því, hvað þá sagt okkur úr lögum við það. Kenning sprettur af því að eitthvað er fyrir hendi, sem er sýnilegt eða áþreifanlegt. Eitthvað sem við skynjum óumdeilanlega og allir skynja óumdeilanlega. T.d. ljósið og eðli þess.

Þú segir guð vera kenningu. Þar eru fæstir sanntrúaðir sammála þér, því tilvist guðs er er samkvæmt þeim algildur sannleikur, sem ekki hleypir neinum vangaveltum að. Hann verður ekki rannsakaður.  Hann er ekki áþreifanlegur eða sýnilegur og því síður finna menn fyrir honum með skilningarvitum sínum. Hann er semsagt akkúrat ekki neitt nema orðin tóm.

Sumir segjast þekkja hann og finna fyrir honum eða skynja. Langt í frá allir og í raun aðeins fáir útvaldir, eins og Svavar. Honum ber að segja slíkt. Kenningar má rannsaka og staðreyna með ýmsum ráðum og þær sem menn taka nánast sem gefnum, eru kenningar, sem hafa verið studdar með rannsóknum, ekki hjárænulegum fullyrðingum. Þær kenningar samræmast einnig öðrum kenningum eins og flís við rass og því styðja kenningar hver aðra innbyrðis og jafnvel eru öll viðurkennd svið vísindanna tengd einni kenningu.

Kenning þín um guð hefur ekki verið hrakin fremur en sönnuð. Ekki hefur hún verið rannsökuð, því enginn veit hvar á að byrja, né hvað á í raun að rannsaka. Hvað er guð t.d.?  Það er þó til aragrúi rannsókna, sem hafa bæði sannað og leitt sterkum líkum að því að flest það, sem hönd á festir í hinni misgóðu bók, á sér enga eða litla stoð.  Þar er jarðfræðin, fornleifafræðin, ættfræðin og fleiri fræðigreinar, sem koma að málum.

Nú, ef höfuð "vísindarit" guðdómsins á sér svo veikan grunn, hverjar eru þá líkurnar að hitt sé satt og rétt?  Ekkert hefur ræst af spádómum biblíunnar. Ekki er Kristur kominn, þótt hann sé búinn að vera rétt-ókominn í tæp 2000 ár. Ekki hefur demónískum geðklofavaðli opinberunnarbókarinnar verið fundin staðfesting, enda hefur það kannski lítið upp á sig þegar allt á að ganga um garð, þegar það verður sannað. Flest er í er jú þannig uppsett í trúheimum.

Engin hefur verið til vitnis um eftirlíf, eðlilega, né þá hefur tilvist eðli eða staðsetning himnaríkis verið staðreynt, þott margar séu ógrundaðar fullyrðingarnar. Ekki má gleyma helvíti, og því að sú "kening" er einnig sköpun trúarbragðanna, því það er ekki nokkur leið að telja fólki trú um fásinnuna, nema að hræða það til þess.

Í hverju felst kenning þín og á hverju byggir hún? Hvað á hún að skýra og hver er áþreifanleg ástæða þeirrar leitar? Hverju getur hún bætt við skilning okkar á samsetningu lífsins og tilverunar? Hvar nýtist hún okkur til að prómótera líf og lífsskilyrði manna? Hvaða framfarir myndu rannsónir á kenningunni leiða af sér?

Hvenær ætla menn að byrja þessar rannsóknir og hvar væri hentugast að byrja?

Maður bara spyr eins og fávís klerkur. 

Jón Steinar Ragnarsson, 17.5.2008 kl. 00:04

12 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hvað er díllinn með búninginn þinn Svavar? Er hann til að hreykja þér yfir aðra sauði og gefa þér trúverðugleika, sem ekki væri sjálfsagður án hans? Er hann kannski til að greina þig frá öðrum sauðum hjarðarinnar?  Gefur það þér yfirbragð heilafleika? Og í framhaldi af því, er heilagleiki eitthvað sem á mannamáli heitir stikkfrí?

Maður er hreinlega eins og Ari í Aravísum, þegar að ykkur kemur.

Jón Steinar Ragnarsson, 17.5.2008 kl. 00:11

13 identicon

Það má vera að Guð sé ekki ennþá "til" í hugum og hjörtum sumra manna. En aðrir þekkja hann nú þegar - samt ekki umfang hans og allt eðli hans, því það er manninum ógerningur. Samt hefur Guð leyft mönnunum að kynnast sér, þrátt fyrir smæð þeirra.

Nafn Guðs: Hann segist heita "Ég er".

Staða Guðs gagnvart mönnum: Elskandi faðir.

Það sem Guð vill að mennirnir geri: "Elskið óvini yðar."

Þessum Guði vil ég ekki loka augunum fyrir, ekki fyrir 10000 blindar kenningar!

Vinur.

Vinur (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 03:04

14 Smámynd: Víðir Benediktsson

 Jón Steinar, maðurinn er gerður úr efnasamböndum sem eru þekkt. ef þú tekur þessi efni og blandar þeim í réttum hlutföllum færðu samt ekki út mann.

Það sem vantar er lífið. Eitthvað sem fær manninn til að hugsa, elska, hata,  o.s.frv. Þetta köllum við sál.  Úr því þú spyrð hvar eigi að byrja  þá mæli ég með eð byrjað verði á sálinni. Þarna eru eru vísindin algerlega á gati og ekki einu sinni til kenningar.

Vísindin eru  ná ekki út fyrir efnisheiminn. Það er enginn efnismunur á látnum manni og lifandi en samt grundvallarmunur sem hvorki ég eða þú  höfum skýringu  á. Allavega ekkert sem er fast í hendi nema ef skildi vera trúin.

Fólk elskar börnin sín en getur ekki sannað það. Skítt. Samt efast enginn, þetta er andlegt fyrirbæri.

Víðir Benediktsson, 17.5.2008 kl. 09:37

15 identicon

Víðir spyr: Hver á að sanna mál sitt?  Svar: Auðvitað sá er heldur staðhæfingunni um Guð fram!

Kenningar biblíunnar standast enga skoðun og hafa verið marghraktar, staf fyrir staf. Reyndar er það svo að í raun veit enginn hver upphafstexti biblíunnar er því gerð hafa verið svo mörg (handskrifuð) afrit, sem getið hafa af sér það margar ósamstæður að enginn veit neitt í sinn haus.

Vinur skrifar "Það má vera að Guð sé ekki ennþá "til" í hugum og hjörtum sumra manna." Svar þar hittirðu nagla á höfuðið..  eins og ég skrifaði hér áður þá á Guð sér enga tilvist utan höfuðs þess trúaða.

Vinur hvernig hefur Guð leyft þér að kynnast sér?

Vinur: Staða Guðs gagnvart mönnum: Elskandi faðir   Svar: Var jarðskjálftinn í Kína og eða fellibylurinn Burma, þar sem hundruð þúsunda saklausra barna og fullorðina fórust, kannski ein kynningin á Guðinum ykkar?  Allt heilbrigt fólk sér þetta að sjálfsögðu sem vísbendingu um að biblíu-Guð er alls ekki til..

Eins og Richard Dawkins sagði, hérna um daginn: Þjáist ein persóna af ranghugmyndum er það kallað geðveiki en þjáist fjöldin af ranghugmyndum er það kallað TRÚ! 

Halldór Halldórsson (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 10:09

16 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Mikið lifandi ósköp getur verið gaman að lesa snillinga á borð við HH hérna í sínum sjálfskapaða, og uppskrúfaða gáfumannagír!Ekki bara veit hann að hann VEIT, heldur TRÚIR hann því svo sannarlega, er VISS Í SINNI SÖK!Þetta er eiginlega alveg drepfyndið í öllum sínum alvarleika, til dæmis ekki síst með guð og tilvist hans eða ekki og þá bara í höfðinu á mannskepnunni. Síðast þegar ég vissi, þá varð nefnilega flest eða allt sem hún gerir og skynjar og skapar YFIR Höfuð til í höfðinu!

Þegar menn taka svona spekingslega til orða að eitthvað sé "bara" til í höfðinu á þeim, þá ættu þeir hinir sömu því að nota heilan í sínu eigin og hugsa sig aðeins um fyrst!

En kannski er þetta of flókið í sínum annars sáraeinfaldleika til að HH og fleiri spekingar he´rna skilji það!?

VErð annars svona í lokin SVavar minn góður, að láta vísuna síguldu um þingeyingin fljóta með. "Aldrei er góð vísa of oft kveðin" og hún á finnst mér einkar vel við hérna núna.

Hvernig þekkist þingeyingur?

Það er ekki þörf á leitum.

Hann VEIT ALLT sem ENGIN veit um,

upp á sína tíu fingur!

Magnús Geir Guðmundsson, 17.5.2008 kl. 21:35

17 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Þakka þér fyrir þetta, Magnús Geir! Þingeyingurinn í mér kannast vel við sig í þessari snjöllu vísu.

Svavar Alfreð Jónsson, 17.5.2008 kl. 21:43

18 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Haha Svavar minn, segjum tveir, segjum tveir!

Magnús Geir Guðmundsson, 17.5.2008 kl. 22:29

19 identicon

Magnús Geir: "Síðast þegar ég vissi, þá varð nefnilega flest eða allt sem hún gerir og skynjar og skapar YFIR Höfuð til í höfðinu!"

Svar hárrétt hjá þér Magnús enda skapaði maðurinn Guð..

Enn og aftur á Guð sér ENGA tilvist utan höfuðs þess trúaða...  Það er staðreynd!

Halldór Halldórssn (IP-tala skráð) 18.5.2008 kl. 11:41

20 identicon

Víðir skrifar: Jón Steinar, maðurinn er gerður úr efnasamböndum sem eru þekkt. ef þú tekur þessi efni og blandar þeim í réttum hlutföllum færðu samt ekki út mann.

Ég tek undir með Jóni Steinari.. þvílík hundalógík!!

Hversu gáfulegt hljómar þetta?.. Öll efnasambönd í vöfflu eru þekkt og ef þú blandar þeim saman í réttum hlutföllum færðu ekki vöfflu.!!  Þú færð vöffludeig... Ergo Guð hlýtur að hafa búið til vöffluna!! 

Svona málatilbúnaður er lóð á vogaskálar þeirra er segja að hugmyndin "Guð" sé fyrirbæri sem maðurinn hafi skapað til þess að fylla upp í götin.

Ef við tryðum bara öllu sem biblían segir okkar.. er þá nokkur tilgangur í að rannsaka? Á nokkuð að vera að eyða tíma í rannasaka himintunglin, uppruna okkar og tilurð heimsins? Biblían er með svör við þessu..  Guð gerði þetta allt 23. október 4004 f. kr. klukkan 9 að morgni. Þar hafið þið það.

Dæmalaust að maður skuli þurfi að segja svona, að maður skildi ætla, við vitiborið fólk

Halldór Halldórsson (IP-tala skráð) 18.5.2008 kl. 15:17

21 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Á nákvæmlega sama hátt og að guð hafi skapast og sé bara til í höfðum hinna trúuðu, þá er skoðun HH um það undir sömu sök seld, einungis til í hans höfði og annara af sama sauðahúsi.

Og það sem meira er, það er ekki síður "Staðreynd" og kannski bara meir en hitt!

En skildi HH nokkuð átta sig á því!?

Magnús Geir Guðmundsson, 19.5.2008 kl. 19:28

22 identicon

Magnús!  Þú ert smá saman að átta þig á því, að fullyrðing kristinna, um að Guð sé til, gæti allt eins verið undir sömu sökina seld og mín? En í því að þú áttaðir þig, þá fannst þér réttara að bæta við, að þín hugmynd væri kannski bara aðeins réttari en mín.  Hver er viss í sinni sök? ....

Það er auðvitað ógerningur, að afsanna tilvist fyrirbæris sem enginn getur eiginlega útskýrt hvað er því það er í tísku núna að hver hafi sýna hugmyn (útgáfu) af fyrirbærinu.  Og skildi það ekki einmitt vera tilgangurinn.  Mér finnst það ekki óeðlileg krafa að sönnunarbyrgðin liggi hjá þeim er setja fram tilgátuna en ekki hinna sem vefengja hana.

Ég hef þó reynt að færa rök fyrir mínu máli og bent á að guðstilgátur eingyðistrúarbragðanna þriggja og meintir eiginleikar guða þ.e. alvitrir, almáttugir og algóðir, standast ekki gagnrýna vísindalega skoðun, sbr. bók Victor J. Stenger, God: The Failed Hypotesis. How Science Shows that God Does not Exist 

Halldór Halldórsson (IP-tala skráð) 20.5.2008 kl. 09:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband