Grímsey og Grímseyingar

Gr%C3%ADmsey_Iceland[1]Síðustu dagana hef ég verið að glugga í stórskemmtilega bók, Grímsey og Grímseyingar. Hún var gefin út af Akrafjallsútgáfunni árið 2003 (ISBN 9979-9558-1-3). Ritstjóri var Helgi Daníelsson, faðir Friðþjófs ljósmyndara, sem á margar frábærar myndir í bókinni. Myndefni hennar er mjög fjölskrúðugt. Ekki síst er gaman að skoða gömlu myndirnar.

Nokkur ár var ég prestur í Grímsey, meðan henni var þjónað héðan frá Akureyri. Þá kynntist ég því góða fólki sem þar býr. Minningarnar um Grímsey og Grímseyinga eru einungis ljúfar og enn á ég góða vini þar ytra sem ég met mikils. Fyrir kemur að ég fái egg frá þeim á vorin.

Þegar ég fór út í Grímsey hélt ég venjulega til í Vogi hjá sómahjónunum Aðalheiði Sigurðardóttur og Sigfúsi Jóhannessyni, sóknarnefndarformanni og hringjara, alias Diddi hringjari. Þar var sko ekki í kot vísað. Hjá Heiðu fékk ég t. d. þá bestu signu grásleppu sem ég hef nokkurn tíma smakkað. Mér er minnisstætt að ég skolaði góðgætinu niður með Mixi, þeim eðaldrykk.

Ég er stoltur af því að geta rakið ættir mínar út í Grímsey. Langamma mín var þaðan. Hún hét Kristín Baldvinsdóttir og var fædd á Eiðum í Grímsey. Mér skilst að félagsheimilið Múli sé í landi Eiða.

Þar, þ. e. a. s. í Múla, sat ég einhverja dýrlegustu veislu sem ég hef í komið. Það var í heimsókn forseta Íslands, herra Ólafs Ragnars Grímssonar, til Grímseyjar. Honum var haldinn kvöldverður þar sem einungis var boðið upp á grímseyskan mat. Borð svignuðu undan fugli í sósu, steiktum og reyktum, alls konar fiskréttum, Grímseyjarlambi og eggjum.

Það eina sem vantaði var signa grásleppan, appelsínugul, með skærgulu Mixi.

Var ekki langt í meðvitundarleysið eftir það borðhald.

Fyrr á tímum var Grímsey alþjóðlegur staður á íslenska vísu og þangað komu oft útlendir fiskimenn. Stöku flækingur hafði þar lengri viðdvöl. Þar á meðal var hinn afgamli norski Larsen sem hafði verið nógu lengi í eyjunni til að vera búinn að gleyma móðurmáli sínu en ekki nógu lengi til að læra íslenskuna. Talaði hann því hvorugt málið.

Einn veturinn varð Larsen eldspýtnalaus. Fór hann á stúfana að bæta úr þeim skorti og gerði það svo duglega að á endanum voru allir orðnir uppiskroppa með eldspýtur nema Larsen.

Var þá ekki um annað að ræða fyrir eyjarskeggja en að leita til karlsins sem seldi þeim fúslega eldspýtur - að sjálfsögðu á uppsprengdu verði.

Höfðu kúnnarnir ekki nema gaman af þessum kúnstum.

Saga Eiðabóndans Guðmundar Bjarnasonar er á öðrum nótum. Hann fæddist stuttu eftir aldamótin 1800. Rúmlega fertugur leitaði hann til læknis á Akureyri "sakir brjálsemi" eins og það er orðað í kirkjubókum.

Ári síðar virðist Guðmundur vera búinn að fá bót meina sinna, altént nóg til þess að hann snéri aftur heim, en þá brá svo við að eiginkonan hleypti honum ekki inn í Eiðabæinn. Við það hraktist Guðmundur úr Grímsey. Fimm árum síðar lenti hann í ógurlegum vetrarhrakningum á Flateyjardalsheiði og náði naumlega til byggða, illa kalinn á fótum.

Annað sinn leitar Guðmundur læknis á Akureyri og í þetta skiptið er ekki hægt að hjálpa honum öðruvísi en með því að taka af honum báða fæturna um mjólegg.

Guðmundur fótalausi, eins og hann var nefndur upp frá því, var fluttur á sveit sína í Grímsey og dó þar árið 1865.

Sögurnar um Larsen norska, Guðmund fótalausa eru í bókinni Grímsey og Grímseyingar. Og ótalmargt fleira.

Ég mæli með henni.

(Myndin með færslunni er af wikimedia.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Það er ljóst að þessa bók verður maður að komast í..

Ragnheiður , 17.5.2008 kl. 22:36

2 Smámynd: Hafdís Lilja Pétursdóttir

Ég var í Grímsey sem barn, á þaðan góðar minningar.  Var í Grenivík hjá Valdimar og Ingibjörgu.

Á þessa ágætu bók sem er fróðleg.

Hafdís Lilja Pétursdóttir, 18.5.2008 kl. 12:36

3 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Svavar. Gaman að þú skulir blogga um þessa flottu bók hans Helga Dan. Ég er í stjórn LEK -landssambands eldri kylfinga með Helga og  veit hvað hann lagði mikið í þessa bók enda er hún vönduð eins og fram hefur komið. Friðþjófur sonur hans er einn besti ljósmyndari landsins svo það skemmir ekki. Hitti þá feðga einmitt í dag upp á Korpu. Ég flaug einu sinni út í Grímsey, þegar ég var að læra til einkaflugmanns, heiman frá Raufarhöfn og það var frábært að koma þangað. Ég hef alltaf borið virðingu fyrir þessu duglega fólki sem þar býr en ekki þýddi að bjóða mér signa grásleppu eða Mix. Soðinn rauðmagi og lifur beint úr sjónum eða siginn fiskur með hnoðmör,soðnum kartöflum og undanrennu eða mjólk væri hinsvegar vel þegið. kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 18.5.2008 kl. 23:58

4 identicon

Faðir minn, Björn Friðfinnsson, var einn þeirra sem unnu að bókinni með Helga og ég tek undir að hún er stórfín. Pabbi er ættaður frá Grímsey og var þar öll sumur sem barn. Ég var þar líka hjá ættingjum sem barn og unglingur og tek undir að þar er skemmtilegt að vera og þar er góður matur. Sérstaklega er mér minnistætt þegar ég í fyrsta sinn kom að matborði þar sem sviðnir svartfuglshausar voru í matinn - lágu á disknum með brostin augu og svarta gogga. Einnig man ég bjargsig og eggjatínslu og matborðið hlaðið eggjum sem frændfólk mitt á Sveinsstöðum borðaði með sykri en ekki salti. Og þegar ég bað um salt á eggin var svarið: Hérna er sykurinn.

Adda Steina (IP-tala skráð) 19.5.2008 kl. 15:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband