Andrés og frelsið

Ekki eru nema nokkrar vikur síðan ég átti í örlitlu orðaskaki um frelsið og þá einkum málfrelsið.

Nú standa yfir enn meiri deilur um frelsið. Að þessu sinni athafnafrelsið.

Athafnafrelsið er sama eðlis og annað frelsi. Það þarf að lúta reglum, skráðum og óskráðum. Það þarf að hafa tilgang. Annars er það óskapnaður. Annars eyðir það sjálfu sér.

Annars gleypir það sig sjálft á sama hátt og byltingin getur étið börnin sín.

Eins og dæmin sanna sem við erum að upplifa þessa dagana.

Allt frelsi þarf ramma og allir leikir reglur.

Andrés Björnsson, fyrrverandi útvarpsstjóri, orðar þetta vel í ávarpi sem hann flutti þjóðinni á gamlárskvöld árið 1970.

Lögmál er takmörkun á frelsi, - frelsi, þessu undurfagra orði, eftirlætisorði skálda, hugsjóna- og stjórnmálamanna. - Víst er orðið fagurt og merking þess göfugleg. Það merkir lausn úr fjötrum, lausn frá helsi, frá hvers kyns oki og áþján, frelsi og frelsun einstaklinga og þjóða frá kúgun og harðstjórn. Ósigrandi herir hafa brotist áfram um víðar lendur undir gunnfána frelsisins. - En frelsishugtakið er mjög hált og afstætt. Eftir stjórnarbyltinguna frönsku sem óneitanlega leysti mikil öfl úr læðingi og jók frelsi margra, voru mælt þessi fleygu orð: "Ó, frelsi, hvílíkir glæpir eru ekki drýgðir í þínu nafni." Frelsið má misnota freklega - til frelsissviptingar annarra og stundum til að fara sjálfum sér að voða.

Og þessi orð gamla útvarpsstjórans eru mjög eftirtektarverð, ekki síst fyrir okkar tíma:

Það kann að virðast þversögn, en frelsi er í bestu merkingu það að menn leggi sjálfviljugir hömlur á vissar tilhneigingar sínar svo að aðrir megi njóta frelsis. Frelsið er fórn frelsis fyrir aðra. Að öðrum kosti er það aðeins hefndargjöf. Án lögmálsins, án siðgæðis og sjálfsafneitunar er ekkert frelsi fyrir einn né neinn, aðeins taumlaus ótti og skelfing.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Góð og hnitmiðuð hugvekja, Svavar minn, eins og töluð beint út úr mínu eigin hjarta!

pax Vobiscum!

Magnús Geir Guðmundsson, 23.10.2008 kl. 00:55

2 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Frelsið í höndum þess sem kann ekki að fara með það, er afar hættulegt. Hið illa, sjálfseyðingarhvötin, rær föstum tökum að vondum straumum ef frelsinu ekki eru settar einhverjar skorður.  

Baldur Gautur Baldursson, 23.10.2008 kl. 08:00

3 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Þetta eru ágætis pælingar um frelsið, sérstaklega þessi hugsun að frelsið sé fórn frelsis fyrir annarra frelsi.

Eitt rak ég þó augun í. Hvaða lögmál er Andrés að tala um? Er hann að vísa til sáttmála Gyðinga við Guð, eða Karmalögmálsins - varla þyngdarlögmálsins?

"Lögmál er takmörkun á frelsi ..." já, vegna þyngdarlögmálsins get ég ekki flogið - varla er hann að meina það?

Brynjólfur Þorvarðsson, 23.10.2008 kl. 20:28

4 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Vel er spurt, Brynjólfur. Guðfræðingur gæti freistast til að skilja Andrés þannig að hann sé þarna að tala í hugtakaandstæðunum lögmál og fagnaðarerindi. Það hefur þótt gæðastimpill á guðfræðingum að kunna að beita þeim. Andrés var sleipur í þeim fræðum eins og allir sjá sem lesa bókina hans (Töluð orð - Áramótahugleiðingar 1968 - 1984, Reykjavík 1985) en þó held ég að hann noti lögmálshugtakið þarna nokkuð almennt. "Lögmál er takmörkun á frelsi." Ég held að þú hittir naglann á höfuðið. Lögmálið er þarna hugtak sem notað er um hvaðeina sem takmarkar frelsi mannsins. Reglur, lög, takmarkanir og höft.

Svavar Alfreð Jónsson, 23.10.2008 kl. 21:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband