Kreppukímni

brosMér finnst gaman að lesa pistla eftir pólska heimspekinginn Leszek Kolakowski sem safnað hefur verið í örlitla bók (Mini-Traktate ueber Maxi-Themen). Þar veltir hann fyrir sér ótrúlegustu fyrirbærum, lyginni, ferðalögum, lukkuhjólinu, munaði, leiðinlegheitum, Guði, hjátrú, kynlífi, aðgerðarleysi og hryðjuverkum, svo nokkuð sé nefnt.

Hláturinn fær líka umfjöllun í bókinni. Allir geta hlegið, segir Kolakowski, en ekki hafa allir húmor. Sá sem hefur húmor þarf að geta horft á sig úr fjarlægð kaldhæðninnar. Allir geta hlegið en sá sem getur hlegið að sjálfum sér hefur húmor.

Í þrengingum öðlast húmor sérstakt gildi. Húmor er ein aðferð til að þola betur kreppur og harðræði.

Bankakreppan íslenska virðist ekki hafa miklar tengingar við það spaugilega.

Þó skilst mér að við Íslendingar séum eitt helsta aðhlátursefni fólks í útlöndum þessar vikurnar.

Sem flestum Íslendingum finnst ekkert fyndið.

Ég get ekki að því gert að mér finnst stappið við að drösla Davíð Oddssyni út úr Seðlabankanum stundum pínulítið fyndið.

Ég sé hann fyrir mér grípa í gerefti.

Ekki gat ég heldur varist hlátri í hádeginu þegar ég heyrði Jón Ásgeir kenna Davíð um gjaldþrot Baugs með þeim formála að það hljómaði kannski eins og gömul tugga.

Læt fylgja hér dæmi um gyðinglegan húmor úr pistlinum eftir Kolakowski.

Kona á dánarbeði segir við eiginmann sinn: "Elsku Pinkus minn. Nú er ég að kveðja og eitt ætla ég að biðja þig um: Við útförina situr þú við hliðina á henni mömmu eins og þið væruð bestu vinir. Ég veit ósköp vel að þú þolir hana ekki en við útförina mína verður þú að láta eins og þú elskir hana."

"Já, Sara," segir maðurinn, "fyrst þú ferð fram á það mun ég gera það, en eitt verð ég að segja; þessi útför verður mér ekki til neinnar gleði."

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Hahaha góður þessi. Ég hef stundum hugsað um hláturinn og sönginn. Það virðist ekki fara eftir efnum eða aðstæðum fólks hversu mikið er af þessum þáttum í daglegu lífi fólks. Mér hefur stundum fundist, dreg þá ályktun af bókum og bíómyndum,  að þeir sem búa á mörkum örbirgðar séu meira brosandi og dansandi en við hér í alsnægtunum. Nú fékkst skýring á þessu. Þetta er þá náttúruleg aðferð til að lifa af þrengingar. Er ekki líkaminn stórkostlegt tæki. Snilldar samantekt, takk fyrir mig. kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 4.2.2009 kl. 23:48

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Verður það ekki örugglega í beinni þegar Jóhanna leiðir Davíð út úr Svörtuloftum?

Sæmundur Bjarnason, 4.2.2009 kl. 23:48

3 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þær eru líka frekar fáar, gleðilegu útfarirnar. Hollt og gott að lesa þetta.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 5.2.2009 kl. 01:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband