Heimsmynd sjónvarpsins

sjonvarpSú heimsmynd sem fjölmiðillinn sjónvarp birtir okkur og innrætir okkur sést ekki bara í fréttatengdum þáttum. Til að sjá hana verður að skoða fjölmiðilinn í heild sinni. Miðillinn sjálfur er boðskapurinn.

Bandaríski guðfræðingurin William Fore lýsir heimsmynd sjónvarpsins í fimm liðum. Sá fyrsti er að sjónvarpið boði okkur heim þar sem hinir hæfustu komast af. Það sést glöggt í öllum þeim aragrúa framhaldsþátta þar sem sýknt og heilagt er verið að senda einhverja lúsera heim. Þá sem syngja falskt, líta ekki nógu vel út, hafa ekki lést nógu mikið eða eru mislagðar hendur við endurbætur á húsnæði.

Í öðru lagi gengur sjónvarpið út frá því sem gefnu að ákvarðanir séu teknar uppi á toppnum. Á toppum veraldarinnar gerist það sem raunverulega skiptir máli, hvort sem það er á sviði stjórnmála, viðskipta, menningar eða tísku. Sjónvarpið hefur ekki nema takmarkaðan áhuga á hvað almenningi finnst. Toppfólkið er á hinn bóginn alltaf í viðtölum, stjórnmálamenn, viðskiptajöfrar, rokkstjörnur, menningarvitar og aðrir sérlegir álitsgjafar sjónvarpsins.

Í þriðja lagi er sjónvarpið öflugasti boðandi þeirrar trúar að hamingjan sé fólgin í efnislegum gæðum. Það gerist til dæmis í öllum auglýsingunum, leyndum sem ljósum. Sjónvarpið er æðakerfi neyslusamfélagsins.

Í fjórða lagi segir Fore að sjónvarpið sé gegnsýrt af þróunarhyggju. Það nýja er undantekningarlítið betra en það gamla. Æskudýrkun er áberandi í sjónvarpinu.

Síðast en ekki síst útbreiðir sjónvarpið þá skoðun að flæði upplýsinga um samfélagið sé frjálst og óhindrað.

Þetta og margt fleira má lesa í stórgóðri bók eftir Fore, Television and Religion: The Shaping of Faith, Values and Culture.

Bókina má lesa á netinu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband