Konfekt, magadans og skosk sjálfstæðishetja

magadansKirkjulistavikan hefur gengið mjög vel. Ég er búinn að blogga um negrasálmatónleika Hauks Ágústssonar og Daníels Þorsteinssonar.

Í hádeginu á miðvikudag hlustaði ég á þá félagana Eyþór Inga Jónsson, organista, og Hjörleif Örn Jónsson, slagverksleikara. Það voru líka frábærir tónleikar. Ótrúleg blanda af hljóðum.

Í gærkvöldi hélt Stúlknakór Akureyrarkirkju vortónleika sína. Þeir voru á léttari nótunum. Sungin var djassmessa og ýmislegt fleira.

Ég fékk ekki gæsahúð við að hlusta á stelpurnar, ég fékk gæsaskráp. Og hann er varla farinn af mér.

Séra Jóna Lísa hitti naglann á höfuðið þegar ég spjallaði við hana eftir tónleikana. Hún orðaði það þannig að þessa dagana ætti hún heima í konfektkassa. Það væri svo margt skemmtilegt og gefandi að gerast á kirkjulistaviku.

Og hann Eyþór Ingi, organisti og helsta driffjöður kirkjulistavikunnar, er þá súkkulaðiverksmiðja.

Ég guggnaði á því að fara á magadansnámskeiðið sem var á miðvikudagskvöldið. Er allur bróderaður að framan og ekki mikið augnayndi.

Námskeiðið tókst vel og hér fyrir ofan sést leiðbeinandinn, Líney Úlfarsdóttir, í fullum skrúða að kynna það á mömmumorgni. Myndina fékk ég á heimasíðu Akureyrarkirkju.

Einhverjir hafa verið að nöldra um að magandans eigi tæplega heima í kirkjunni. Ég er ekki sammála því.

Dansinn á sér trúarlegar rætur. Löngum hafa menn dansað við trúarlegar athafnir. Fjölmörg dæmi eru um trúarlegan dans í Gamla testamentinu og heimildir eru um helgidansa í guðsþjónustum frumkirkjunnar.

Dansinum var því miður úthýst úr kirkjunni. Andúðin á dansinum í kirkjunni á sér sömu rætur og andúðin á holdinu og konum.

Gregorsöngurinn er upprunninn í þeirri andúð - en það er efni í alveg sérstakt uppgjör.

Dr. Eluan Ghazal hefur skrifað bók um heilagar rætur magadansins.

Nú er kominn tími til að tengja, eins og Skriðjöklarnir sungu. Dansinn þarf að komast aftur inn í kirkjuna. Sátt þarf að nást milli þess holdlega og andlega í kirkjunni okkar.

Á morgun flytur dr. David Porter, dómkirkjuprestur í Coventry, erindi í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju um hið stórmerkilega friðar- og sáttargjörðarstarf kirkjunnar þar í borg. Það á sér stað víða um heiminn.

Maður að nafni Kenyon Wright kemur með dr. Porter hingað. Það er líka merkilegur maður, einn af frumkvöðlum skoskrar sjálfstæðisbaráttu. Ég hlakka mikið til að hitta hann.

Ég er viss um að hann getur sagt okkur ýmislegt um þá nýju íslensku sjálfstæðisbaráttu sem nú virðist framundan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlédís

Þú segir bæði mjög skemmtilegar fréttir, kæri Gunnar, og svolítið sorglegri um þröngsýni sem grunnt er á.

Undirritruð segir ekki meir um þetta, enda fædd utan trúfélaga, þó það komi pistlinum lítið við.

Hlédís, 8.5.2009 kl. 23:32

2 Smámynd: TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.

Það er nú bara heilmikið varið í þennan prest satt best að segja!

TARA ÓLA/GUÐMUNDSD., 9.5.2009 kl. 10:16

3 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Mikið er gott að heyra að kirkjuvikan gengur vel.

Hólmfríður Pétursdóttir, 9.5.2009 kl. 10:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband