Nýjar dyggðir: Lygi og svik

lygiFunheitir sunnanvindar bera góða gesti hingað norður yfir heiðar. Splunkuný ríkisstjórn ætlar að funda í höfuðstað Norðurlands. Komi hún fagnandi. Ég óska henni góðs gengis og Guðs blessunar.

Fleira flutti hnúkaþeyrinn að sunnan á þessum morgni, nefnilega fagnaðarklið fjölmiðlafólks vegna nýmæla í stjórn landsins.

Nýmælin eru þessi: Lögð verður fram á Alþingi tillaga um að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu. Stjórnarmeirihlutinn mun ekki samþykkja þá tillögu sem slíkur. Þingmenn eiga að greiða atkvæði samkvæmt samvisku sinni.

Fjölmiðlafólk á ekki til orð að lýsa aðdáun sinni á þessu fyrirkomulagi.

Í leiðara DV talar Jón Trausti um þingræðislega tilvistarkreppu stjórnarandstöðunnar og gamalgróna andstöðu Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks gegn þingræðinu og lýðræðinu.

Hann fagnar þessum skrefum frá "nöldurkeppni tveggja liða" í átt til lýðræðisumbóta.

Jón Kaldal er ekki síður glaður í leiðara Fréttablaðsins. Hann bendir á að umsókn að Evrópusambandinu sé þverpólitískt mál. Þar sé ekki um að ræða reiptog milli meirihluta og minnihluta. Afstaðan til aðildar fari ekki eftir flokkslitum.

Síðan segir Jón:

Þessi leið, að leggja málið í fang þingsins, er sem sagt athyglisverð vegna þess að í henni felst tækifæri fyrir flokkana til að hugsa út fyrir hefðbundinn ramma átakastjórnmálanna.

Egill Helgason er líka frá sér numinn. Í morgun skrifaði hann færslu á bloggið sitt undir yfirskriftinni Þrammað í takt og á þá ósk heitasta að hægt verði að "riðla flokkslínum í fleiri málum".

Tvennt finnst mér athyglisvert við þessi miklu gleðilæti fjölmiðlafólks.

Í fyrsta lagi lætur enginn ofangreindra manna þess getið að einungis einn stjórnmálaflokkur hefur lýst því yfir að þar muni allir flokksmenn greiða atkvæði samkvæmt flokkslínunni í þessu máli.

Sá flokkur er Samfylkingin.

Og Samfylkingin er ekki í stjórnarandstöðu.

Í öðru lagi virðast Jónarnir báðir og Egill gleyma því að hér voru nýlega kosningar. Þar voru flokkar í framboði. Og flokkarnir höfðu stefnur.

Fjölmiðlafólk lagði sig fram við að kynna okkur, kjósendunum, þessi stefnumál flokkanna.

Samfylkingin sagði kjósendum að hún vildi ganga í Evrópusambandið.

VG sagði kjósendum á hinn bóginn að flokkurinn vildi ekki ganga í Evrópusambandið.

Nú ryðst fjölmiðlafólk fram og segir stefnumálin í raun ekki skipta neinu máli.

Ég hef miklar efasemdir um að sækja um aðild að ESB. Engu að síður stend ég með Samfylkingunni í því að ljúga ekki að kjósendum.

Flokkurinn sagði kjósendum fyrir kosningar að hann vildi í Evrópusambandið. Ég veit að margir kusu Samfylkinguna vegna þess að hún vill í ESB. 

Flokkurinn er sjálfum sér trúr eftir kosningar. Og kjósendum.

VG vildi ekki í ESB og ég veit að margir kusu VG vegna þess að flokkurinn vildi ekki þangað.

Ætli flokkurinn að standa að því að Ísland sæki um aðild að ESB er hann að svíkja þá kjósendur sína.

Og auðvitað kemur ekki á óvart að hann uppskeri hrós fjölmiðlafólks fyrir slík svik.

Því finnst til fyrirmyndar að svíkja þá kjósendur sem eru ekki á sama máli og það.

Flokkslínum á að riðla - alla vega í sumum flokkum.

Afstaðan til ESB á ekkert að vera í neinum flokkslitum - nema þá í Samfylkingunni

Fjölmiðlarnir áttu sinn þátt í því að skapa það þjóðfélag sem leiddi til kreppunnar. Þeir lögðu sitt af mörkum við að upphefja græðgina sem dyggð.

Nú eru þeir byrjaði að dubba upp nýjar syndir og klæða þær í dyggðarskrúða:

Lygi og svik.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Páll A. Þorgeirsson

Ég tel það nokkuð ljóst að ESB hefur fullmótaðar hugmyndir um það hvað þeir bjóða Íslendingum uppá í samningaviðræðum.  Eina leiðin fyrir okkur til að komast að "sannleika samningsins" er að fara í viðræður við ESB.

Því sem stjórnmálamenn, fjölmiðlafólk og aðrir "höfðingjar" á blessuðu skerinu reyna að troða í minn haus, hefur ekkert með Ísland/ESB að gera svo ég geti metið kosti og galla ESB, þar eru að mestu "tilgátur" sem byggjast fyrst og fremst á "pólitískum skoðunum" manna og ekki síst "flokksræðinu".  Á Íslandi á "flokkurinn" að hafa vitið.  Það sem íslenskir stjórnmálamenn "óttast mest" varðandi ESB er að missa völd.  Völd sem sumir þeirra hefðu aldrei átt að fá í hendur. 

Er það ekki ótrúlegt að ríkisstjórn sem er ósammála um aðild skuli samt ætla að sækja um aðild.  Mér finnst hins vegar "ekkert ótrúlegt" hvað ráðamenn gera til að halda í ráðherrastóla og völd.

Þjóðin á að leiða hjá sér þessar "nýju dyggðir", athuga hvað ESB hefur raunverulega uppá að bjóða og láta sína samvisku ráða óháð öllum sjálfskipuðum ESB-sérfræðingum sem allt þykjast vita hvort sem þeir eru með eða á móti ESB.  Til að svo verði þarf þjóðin að fá samninginn í sínar hendur.

Páll A. Þorgeirsson, 12.5.2009 kl. 11:55

2 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ég er sammála þér, Páll: ESB hefur nokkuð fullmótaðar hugmyndir um hvað sambandið getur boðið okkur. Ekki hef ég á móti viðræðum við það til að leiða það í ljós. Ég er á hinn bóginn efins um að rétt sé að sækja um aðild ef tilgangurinn er sá að sjá bara til - ef umsóknin á bara að vera til fróðleiks. Þá má allt eins segja: Eina leiðin til að sjá hvað ESB hefur upp á að bjóða er að vera í ESB. En segjum sem svo að við sækjum um aðild bara til þess að sjá hvað hægt er að semja um - finnst þér við vera í góðri samningsaðstöðu um þessar mundir, Íslendingar?

Svavar Alfreð Jónsson, 12.5.2009 kl. 12:09

3 Smámynd: Haraldur Hansson

Frábær færsla sem hittir naglann á höfuðið.

Þessi sjá-hvað-er-í-boði söngur er lýðskrum af síðustu sort. Ef menn vildu viðhafa alvöru lýðræði væri sambandið kynnt vandlega og lagt í dóm kjósenda hvort sækja ætti um. Það á að treysta fólki til þess. Enda er þetta stærsta ákvörðun sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir frá stofnun lýðveldisins.

Haraldur Hansson, 12.5.2009 kl. 13:19

4 Smámynd: Helgi Viðar Hilmarsson

Mér þykir presturinn taka í þessum pisli full stórt upp í sig.

Í fyrsta lagi lygi og svik dyggðir góðærisins og því ekki nýjar af nálinni.

Í öðru lagi er ekkert nýtt að stjórnmálaflokkar þurfi að gefa eftir í sínum stefnumálum við stjórnarmyndanir.

Í þriðja lagi kom fram í málflutningi VG að þeir vildu leiða málið til lykta með lýðræðislegum hætti þó svo að þeir væru á móti því að Ísland gengi í ESB.

Í fjórða lagi getur það því ekki talist svik að heimila hinum stjórnarflokknum að bera upp tillögu á Alþingi um að Ísland sækji um aðild að ESB og áskilja sér á sama tíma rétt að greiða atkvæði gegn tillögunni.

Niður staðan er því að atkvæðagreiðsla in fyrri fer fram í þinginu og hin seinni hjá þjóðinn ef af verður.

Að lokum vil ég svo minna prestinn á máltækið góða sem segir að ekki sé kálið sopið þó komið sé í ausuna.

Helgi Viðar Hilmarsson, 12.5.2009 kl. 16:47

5 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Það er rétt hjá þér, Helgi Viðar, að lygi og svik eru engin nýmæli. Það er á hinn bóginn eftirtektarvert þegar fjölmiðlar telja þá til fyrirmyndar sem skrökva að kjósendum.

Aldrei hef ég heyrt nokkurn halda því fram að ekki ætti að leiða ESB-málið til lykta með lýðræðislegum hætti. Ekki ætti að þurfa að áskilja sér rétt til að svoleiðis stórmál fái slíka afgreiðslu.

VG er á móti aðild að ESB. Fjölmargir kusu flokkinn vegna þess. Ég veit ekki hvað þú kallar það að vera á móti aðild að ESB fyrir kosningar en kjósa svo með því að sótt verði að aðild strax á eftir. Ég hef mínar skoðanir á þannig framkomu.

Svavar Alfreð Jónsson, 12.5.2009 kl. 17:19

6 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Það er víst ekki hægt að ætlast til þess að prestar séu vandaðri að virðingu sinni en annað fólk. Þessi Svavar Alfreð sómir sér vel í hinum stóra flokki sem tignar flokksleiðtoga sinn, Gróu á Leiti.

Sigurður Grétar Guðmundsson, 12.5.2009 kl. 17:52

7 identicon

Sæll Svavar og þakka þér fyrir góða grein og athugasemd.

Númer 1.  Við þurfum að koma þessum ESB umræðum út af borðinu, hvort sem við endum þar eða ekki, svo hægt verði að snúa sér ákveðið að uppbyggingu landsins, ESB umræðan tefur fyrir að mínu mati.

Ég er á því að eina leiðin til að sjá þessar fullmótuðu hugmyndir ESB sé að sækja um og fara í aðildarviðræður.  Leggja fullmótað samningsplagg fyrir þjóðina og hún tekur ákvörðun.  Það mun ég gera þegar ég hef séð þann samning.  Ég veit ekki hvers vegna ég ætti að treysta og hverjum væri treystandi hér innanlands varðandi það að kynna "sambandið vandlega" eins og kemur fram hjá Haraldi H. hér ofar.  Hafa ráðamenn verið traustsins verðir ef við horfum til baka.  Er það í alvöru "meira" lýðræði ef  embættismenn, "sérfræðingar í ESB", tækju saman gögn fyrir þjóðina og hún tæki ákvörðun út frá því í kosningum.  Ég veit satt að segja ekki hvernig þau gögn kæmu til með að líta út, jafn ósammála og hámenntaðir sérfræðingar um málefni ESB eru svo ég tali nú ekki um "venjulega" menn eins og mig og fleiri, sem hafa þó reynt að afla upplýsinga framhjá þeim "sérfróðu" til að reyna að ná áttum.  Jafnvel í nákvæmlega sömu ESB atriðum hafa skoðanir sérfróðra manna í ESB málum verið jafn margar og þeir sérfróðu eru hér á Íslandi og svo bætast allar hinar við frá mönnum sem sumir hverjir vita greinilega ekki haus né sporð á ESB.  Öll þessi ósköp snar-rugla fólk og gerir málið enn flóknara. Samningsstöðu okkar get ég einfaldlega ekki dæmt um frekar en aðrar fullmótaðar hugmyndir ESB "um okkur".  Svavar, ég verð þó viðurkenna að tilfinning mín segir hana ekki góða en ég ítreka að sannleikurinn liggur í "fullmótuðum hugmyndum ESB um okkur" og þær vil ég sjá.

Svavar, smá viðbót:

Til hamingju með "höfuðborgina" Akureyri.  Nú styttist brátt í það að dreifbýlisfólkið sem býr á Reykjavíkursvæðinu fari að týna upp bita sem falla af borðum okkar höfuðborgarbúa á Stór-Akureyrarsvæðinu.  Þökk sé Steingrími og Jóhönnu fyrir það.  

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 12.5.2009 kl. 18:08

8 Smámynd: Jón Sigurðsson

Mæltu manna heilastur. Ég stend með þeirri Jóhönnu sem nú syngur fyrir Íslands hönd í Rússlandi, af henni er sómi. Það er gaman að vera íslendingur einfaldlega vegna þess að við þurfum ekki hjálp við lagasmíðar. 

Jón Sigurðsson, 12.5.2009 kl. 20:18

9 Smámynd: Jóhann Pétur Pétursson

Þarna hittir þú sem og Haraldur naglann á höfuðið. Þessi sjáum-hvað-við-fáum predikun er argasta bull og ef þjóðin hefði vilja og yfir höfuð nennti kynna sér Evrópusambandið þá gætum við skorið úr um þetta þrætuepli bara strax.

Evrópusambandið og regluverk þess er markað í stofnsáttmálum. Varanlegar undanþágur frá stofnsáttmálunum eru mjög fátíðir og ná yfirleitt yfir mjög takmarkað svið, ef frá er talin undanþága frá þátttöku í myndsamstarfi með upptöku Evru. Helst er líklegt að við fengjum undanþágu hvað varðar landbúnaðinn, en það er mjög ólíklegt að við fengjum undanþágu frá sjávarútvegskaflanum.

Þessi leið vinstri manna til þess að koma Evrópusambandsaðild en samt þannig að VG geti haldið andlitinu er vægast sagt hlægileg. Hlægileg fyrir þær sakir að þær sýna svart á hvítu hver samstaðan milli þessara flokka er mikil.

Og hvað varðar fögnuð fjölmiðlamanna þá hef ég aðeins það að segja að við göngum til kosninga, kjósum flokk til þess að starfa á þingi. Svo þegar kosningunum er lokið þá ætlumst við til þess að þeir flokkar taki saman og móti sér í sameiningu stefnu sem að þeir ætla að fylgja eftir. Í eðli sínu á ríkisstjórn og ríkisstjórnarsamstarf að vera íhaldssamt og ósveigjanlegt af því að ríkisstjórn eru ekki bara stjórnmálamenn heldur líka stjórnvald. Ef að ríkisstjórn ætlar að leggja fram málefni og svo kemur bara í ljós hvernig því reiðir af, þá er ríkisstjórnin veik sem stjórnvald og það er mjög varhugaverð stefna.

Jóhann Pétur Pétursson, 12.5.2009 kl. 23:20

10 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Les pistla þína oft - en verð að segja að mér finnst svo óþægilegt þegar þú gerir þínar skoðanir á málunum að þeirri stóru og grafalvarlegu synd að ljúga !

 Sjálf er ég ekki hrifin af aðild að Evrópusambandi en - tel það lýðræðislegustu og réttustu leiðina að þetta mál farið fyrir Alþingi Íslendinga.  Í raun og réttu eina leiðin.   Mér finnst bara eðlilegt þar sem er um þvílíkt stórmál að ræða- að farið verði í aðildarviðræður - til þess að hvað er í boði, kosti og galla og takast þá málefnalega um aðild.

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 13.5.2009 kl. 00:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband