Nýtt Ísland á gömlum gildum

regnbogi

Í upphafi hrunsins var talað um að verkefnið framundan væri ekki eingöngu efnhagslegs eðlis. Ekki bara ákveðin tegund hagfræði hefði brugðist heldur ætti kreppan sér hugmyndafræðilegar ástæður. Hún kom vegna þess að hér varð siðferðisbrestur.

Talað var um Nýja Ísland og um leið nefndu menn gömul gildi sem þyrfti að endurvekja. Hið nýja Ísland var alla vega að hluta til byggt á því gamla sem týndist í óðærinu.

Nú hafa þessar raddir að mestu þagnað. Einar Már er hættur að skrifa í blöðin. Skáldin eru farin að grilla og rithöfundarnir búnir að taka upp gömlu krimmahandritin. Innblásnar ræður heyrast ekki lengur á Austurvöllum þjóðlífsins og risottó kraumar í mörðum pottum búsáhaldabyltingarinnar.

Nú eru það hagfræðingarnir sem eiga sviðið og reglulega flytja fjölmiðlar okkur boðskapinn frá greiningardeildum bankanna. Lífið er að verða 2007 aftur.

Gamla útrásin brást en ný útrás er í smíðum; nú liggur leiðin til Brussel. Þar á Ísland að sjálfsögðu að vera stórast og bestast. Það mun meðal annnars móta nýja sjávarútvegsstefnu fyrir Evrópu.

Ég hef verið að lesa samræðu heimspekingsins Giorgio Baruchello og hagfræðingsins Valerio Lintner. Hana er að finna í fimmta bindi bókaflokksins Death and Anti-Death (Palo Alto: Ria Press, 2007).

Þar ræða þeir m. a. um hamingjuna. Giorgio bendir á að eitt af einkennum nútímans sé röng skilgreining á hamingjunni. Það sé sérstaklega augljóst fyrir mann eins og hann sem er menntaður í forn- og miðaldaheimspeki. Á þeim tímum var málið ekki það að fullnægja löngunum heldur miklu frekar að minnka þarfir (reducing needs, not satisfying wants).

Það ástand að fá aldrei nægju sína var martröð í hugum miðaldamanna. Aðeins sá heimski ánetjaðist slíkum lífsháttum - sem voru nánast til fyrirmyndar í óðærinu.

Nú tala menn gjarnan um hinar "myrku miðaldir" - og vissulega var myrkur þeirra mikið og margvíslegt.

Myrkur okkar tíma er líka óskaplega þétt og hver veit hvernig þeirra verður minnst af komandi kynslóðum.

En við getum margt lært af miðöldum. 

Og ef til vill er það lífsspursmál fyrir okkur að endurheimta skilning miðalda á hamingjunni?

Eða að hafa þennan texta í heiðri sem er enn eldri:

Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufull um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?

Og hví eruð þér áhyggjufull um klæðnað? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins sem í dag stendur en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlítil!
Segið því ekki áhyggjufull: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir og yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.

(Jesús Kristur í 6. kafla Matteusarguðspjalls)

Myndin: Þessi regnbogi tyllti sér á innanverðan Eyjafjörðinn í gær.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábært fara aftur í bronsöld, ég á ekki til orð yfir svona rugl, tala við galdrakarl :)

DoctorE (IP-tala skráð) 30.5.2009 kl. 13:42

2 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Góður pistill og góður boðskapur, hvort sem fólk er trúað eða ekki.

Axel Þór Kolbeinsson, 31.5.2009 kl. 09:53

3 identicon

Sérkennilegt er það hve DoctorE er hlynntur öfgafullum bókstafstúlkunum á trúarritum...

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 2.6.2009 kl. 14:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband