Hvíldardagspistill

Sólsetur_í_Eyjafirði5

Óttinn er einn helsti drifkraftur neyslusamfélagsins. Fjölmiðlar ala á ótta til að örva neysluna. Við erum alltaf að missa af einhverju. Við þurfum vera viðstödd þennan atburð. Við þurfum að eignast þennan hlut.

Annars gengur gullið tækifæri okkur úr greipum.

Mennirnir eru dægurflugur. Líf þeirra er stutt og því er um að gera að lifa þessu stutta lífi vakandi.

Daginn út og inn er verið að vekja okkur. Svefninn er orðinn okkar helsti óvinur - enda kaupir sofandi maður ekki neitt.

Svefninn er öruggt flot að feigðarósi.

Svefninn er forsmekkur dauðans.

Það er orðið stórhættulegt að leggjast til svefns.

Og eins gott að vara sig á hvíldinni.

Þess vegna eiga þessir fáu hvíldardagar sem enn eru til undir högg að sækja.

Þegar við sofum lokum við skilningarvitunum sem við notuðum meðan við vorum vakandi.  Við notum hvorki augun né eyrun. Við setjum þau á "hóld". Við leggjum okkur sjálfum og gefum okkur á vald algleymisins.

Svefn útheimtir trú.

Okkur gengur betur að sofna ef við gerum það í þeirri trú að við munum vakna aftur. Ekki sé neitt að óttast þó að hvorki augun né eyrun séu í notkun. Það sé allt í lagi að gera ekkert nema að taka á móti andlegri og líkamlegri næringu hvíldarinnar.

Í svefninum og hvíldinni erum við þiggjendur. Að því leyti kennir svefninn okkur margt um það hvernig við eigum að vaka.

Vakendur geta margt lært af sofendum.

Að vera vakandi er ekki bara að hafa uppglennt og brýnd skilningarvit. Að vera vakandi er ekki það sama og að missa ekki af neinu og njóta alls.

Að vera vakandi er líka fólgið í því að geta sett sig á bið. Að vera vakandi er líka að kunna að þiggja. Vera óttalaus og sátt. Bægja frá sér áhyggjum. Treysta núinu.

Sofandi og vakandi þurfum við að vera móttækileg fyrir blessandi áhrifum.

Myndin: Kvöldsól í Eyjafirði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sæll séra.  Var ekki Hvíldardagurinn í gær, 27.6. ? Annars er þetta góður pistill.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 28.6.2009 kl. 10:36

2 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

> "Þess vegna eiga þessir fáu hvíldardagar sem enn eru til undir högg að sækja"

Hvað er presturinn að dylgja um hér? Ætlar hann að reyna að halda fram þeirri mýtu að til sé fólk sem sé á móti almennum frídögum?

Matthías Ásgeirsson, 28.6.2009 kl. 11:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband