Markaðurinn ræður

DSC_0475

Hið umdeilda fjölmiðlafrumvarp var fyrsta þingmálið í lýðveldissögunni sem skotið var til úrskurðar þjóðarinnar allrar.

Nýlega tók Alþingi þá ákvörðun að sækja um aðild að ESB. Ekki þótti ástæða til að leita til þjóðarinnar um það mál. Þó segja margir það hið stærsta og afdrifaríkasta sem Alþingi hefur fjallað um.

Fyrir þinginu liggur líka samningur sem leggja mun drápsklyfjar á íslenska alþýðu og komandi kynslóðir.

Fátt bendir til þess að íslenska þjóðin verði spurð álits um það.

Taka ber fram að ekki kom til þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlafrumvarpið. Það var dregið til baka áður en til hennar kom.

Fróðlegt er að rifja upp fjölmiðlafrumvarpið sem sagt var árás á tiltekna auðmenn.

Það var reyndar varla frumvarp heldur breytingar á gildandi útvarpslögum.

Frumvarpið svokallaða má lesa hér.

Á þessu bloggi fann ég þessa ágætu sundurliðun á frumvarpinu:

  1. Í stað þess að Alþingi kjósi sjö í Útvarpsréttarnefnd skv. hlutfallskosningu mun Menntamálaráðherra velja einn og Hæstiréttur tvo í nefndina. Gerð er krafa um að nefndarmenn séu lögfræðingar. Þá er tekið fram að nefndinni sé heimilt að kalla sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða aðila.
  2. Fyrirtæki sem eru með meginrekstur á öðru sviði en fjölmiðlun geta ekki fengið útvarpsleyfi.
  3. Fyrirtæki sem er að meira en 5% í eigu fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu í markaðsráðandi stöðu getur ekki fengið útvarpsleyfi. Undantekning á þessu er ef ársvelta fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu er undir tveimur milljörðum kr.
  4. Það er óheimilt að veita fyrirtæki útvarpsleyfi ef annað fyrirtæki eða fyrirtæki í sömu fyrirtækjasamstæðu eiga meira en 35% eignarhlut.
  5. Fyrirtæki sem á hlut í dagblaði getur ekki fengið útvarpsleyfi.
  6. Þeir sem hafa útvarpsleyfi þurfa að tilkynna útvarpsréttarnefnd um breytingar á eignarhaldi. Ef breytingar valda broti á ofangreindum reglum getur útvarpsréttarnefnd afturkallað útvarpsleyfi. Með þeim fyrirvara þó að leyfishafi fær 120 daga til að koma eignarhaldi í lag.
  7. Útvarpsréttarnefnd getur vikið frá skilyrðum 4. mgr. ef um er að ræða leyfi til svæðisbundins hljóðvarps.
  8. Samkeppnisstofnun þarf að fylgjast með hvort fyrirtæki hafi markaðsráðandi stöðu og láta útvarpsréttarnefnd í té upplýsingar um slíkt. Viðkomandi fyrirtæki skal veittur hæfilegur frestur til andmæla.

Sjálfsagt hefði mátt hafa þetta frumvarp einhvern veginn öðruvísi.

Það þarf samt held ég engan speking til að sjá að íslenskir fjölmiðlar hefðu fjallað á annan hátt um peningaglannana ef þeir hefðu ekki verið í eigu peningaglannanna.

Íslenskir fjölmiðlar brugðust í umfjöllun sinni um fjölmiðlafrumvarpið.

Þeir bruðgust líka í aðdraganda hrunsins. Þeir dönsuðu með peningavaldinu og hömpuðu útrásarvíkingunum. Þeir sáu ekki hættuna sem steðjaði að þjóðinni, heyrðu ekki gagnrýnisraddirnar og vöruðu skjólstæðinga sína, almenning, ekki við því sem í vændum var.

Á tímum fjölmiðlafrumvarpsins höfðu íslenskir fjölmiðlar engan áhuga á kjarna málsins.

Kjarni málsins var ekki Baugur eða Árvakur.

Kjarni málsins var ekki Davíð eða Jón Ásgeir.

Kjarni málsins var hlutverk fjölmiðla í nútímasamfélagi og hvernig búa eigi um hnútana til að þeir geti sinnt því sem best og mest.

Enn er stór hluti íslenskra fjölmiðla í eigu spillingaraflanna sem keyptu hér nánast allt, bæði fjölmiðla og heilu stjórnmálaflokkana.

Svokölluðum "styrkjum" stórfyrirtækja og auðhringa til stjórnmálaflokka hafa verið settar skorður.

Enn sem fyrr er takmarkaður áhugi á því að frelsa upplýsingagjöf til almennings undan oki auðvaldsins.

Ísland hrunsins var ofurselt markaðslögmálunum. Þar var sá guð sem allir skyldu lúta.

Afstaða Fréttablaðsins til fjölmiðlafrumvarpsins kemur ekki á óvart en á tímum þess var þetta sagt í leiðara blaðsins:

Þetta góða fólk virðist gleyma því að í lýðfrjálsu landi er dómur um fjölmiðla á degi hverjum kveðinn upp á hinum frjálsa markaði. Þeir miðlar sem standa sig ekki, þykja óspennandi, óvandaðir eða ótrúverðugir, tapa kaupendum og auglýsendum og lúta í lægra haldi fyrir vandaðri eða vinsælli miðlum. Um þetta eru nokkur nýleg dæmi á okkar litla fjölmiðlamarkaði, bæði hvað varðar dagblöð og ljósvakamiðla. Þetta hlutverk markaðarins eiga stjórnvöld eða stjórnmálamenn ekki að taka að sér, enda stríðir það gegn grundvallarreglum lýðræðisins.

Stjórnmálamenn eiga ekkert að vera að trufla markaðinn, sagði Fréttablaðið.

Markaðurinn á að fá að vera í friði, sagði Fréttablaðið.

Og svo sannarlega fékk markaðurinn að vera í friði fyrir Fréttablaðinu.

Myndina tók ég í Borgarnesi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Þetta er vandamál sem við erum í enn að glíma við Svavar, og það fer versnandi núna þegar fjármagnseigendur eru aftur farnir að leita í fjárfestingar í íslensku atvinnulífi. Nú vantar hugaða þingmenn til að dusta rykið af þessu frumvarpi og endurflytja það kannski með málamyndabreytingum, ég er viss um að það rennur í gegn um þingið. Ólafur hafnar því ekki aftur, hann veit upp á sig skömmina.

Guðmundur Jónsson, 29.7.2009 kl. 16:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband