Ráð handa Íslendingum

DSC_0182 

Nýlega áskotnaðist mér gamall og merkilegur bæklingur. Hann heitir Heilræði fyrir unga menn í verzlun og viðskiftum. Höfundurinn hét George H. F. Schrader, þýskur auðkýfingur. Hann kom hingað til Akureyrar frá Englandi en hafði starfað á Wall Street.

Schrader var hér árin 1912 - 1915 en á þeim tíma voru beinar samgöngur milli Akureyrar og útlanda. Hann bjó á einu flottasta hóteli landsins, Hótel Akureyri.

Fjármunum sínum vildi Schrader umfram allt verja til góðgerðarmála. Þegar hann dvaldist vestanhafs stofnaði hann í því skyni félagið Society for Improving the Condition of the Poor.

Á Akureyri lét Schrader reisa hestahótel. Það gat rúmað 130 hross og 30 knapa. Hótelið nefndi Schrader Caroline Rest eftir móður sinni. Það starfaði til ársins 1947 en var rifið 1979.

Hið víðfræga Kaffi Karólína í Listagilinu fékk líka nafn sitt af móður Schraders enda er kaffihúsið á svipuðum stað og hestahótelið var.

Schrader lét sér mjög umhugað um aðbúnað hrossa og ritaði bókina Hestar og reiðmenn á Íslandi. Hann vildi kenna Íslendingum betri og meiri hestamennsku. Ekki gekk þó áfallalaust að kenna þeim þau fræði. Um það sagði Schrader:

Þeir gegna því ekki, þeir þykjast kunna alt miklu betur. ... Alt hvað er lagt til að gera "dugir ekki á Íslandi, við verðum að hafa það eins og við gerum." Þannig gætum vér hugsað oss, að Ísland tilheyrði alt öðrum heimi, og Íslendingar væri guðs útvalin þjóð - eða þá útskúfuð þjóð, eftir því hvort farið er eftir raupi þeirra af sjálfum sér og öllu íslenzku, eða þá eftir kveinstöfum þeirra yfir fátæktinni og jarðveginum.

Hér virðist lítið hafa breyst í þjóðarsálinni. Fyrir hrun voru Íslendingar bestir í heimi en eftir hrun algjörir aumingjar sem hvorki eru færir um að framfleyta sér né stjórna.

Það er stutt á milli mikilmennskubrjálæðisins og minnimáttarkenndarinnar.

Heilræði Schraders eru gagnleg lesning og flest eru þau enn í fullu gildi. Á sínum tíma voru þau þýdd af Steingrími Matthíassyni. Saga Capital Fjárfestingarbanki lét gefa þau út á ný í fyrra. Formála þeirrar útgáfu ritar dr. Ásgeir Jónsson.

Við hefðum sennilega betur hlustað á t. d. þetta heilræði Schraders:

Reyndu ekki til að græða peninga í flughasti. "Kemst þó hægt fari," og flýtisverk er vanalega flaustursverk. Sá sem dreymir um að auðgast fljótt, verður vanalega fljótt fátækur.

Myndina tók ég við Bægisárhyl í morgun. Þar veiddi ég sjóbirting sem ég grillaði í kvöld. Ef þú getur gefið mér betri mat en ferskan og sólarlagsbleikan sjóbirting, framborinn með nýuppteknum og mánaskinsgulum kartöflum, skal ég éta kínversku loðskinnshúfuna mína.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Döner Teller tvímælalaust...

Sonurinn (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 08:18

2 Smámynd: Jón Lárusson

Komst yfir bókina fyrir einhverjum tveimur eða þremur árum, þá útgefinni af Háskólanum að mig minnir. Þessi bók er mjög góð og þörf lesning, en það sem mest er um vert er að lesandinn geti lesið á milli línanna. Ég tel að margt væri vitlausara en að skoða Schrader og þá lífssýn sem hann virðist hafa fylgt. Ég held að margir yrðu hissa yfir því sem kæmi út við þá athugun.

Jón Lárusson, 11.9.2009 kl. 13:19

3 identicon

Sæll gamli vinur.

Alltaf gott að lesa þín skrif, hófstillt og kíminn. Svo er það bónus þegar ég er sammmála þér eins og í dag.

Ég mundi nú sammt til átu veðja á nýveiddan dorgarsilug úr Kálfborgarárvatni með kartöflum og flatbrauði með smjöri ásamt silungssúpu la-Sigrún á Lundarbrekku..

Bestu kveðjur.

Jónas á Lundarbrekku.

Jónas Sigurðarson (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 15:47

4 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Takk fyrir þetta, Jónas. Döner Teller og Kálfborgarárvatnsdorgsilungur? Þarf ég að fara að marínera loðhúfuna?

Svavar Alfreð Jónsson, 12.9.2009 kl. 19:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband