Fyrst kemur fagnaðarerindið

DSC_0227 

Ég átti frí í dag. Hóf daginn í ræktinni. Fór svo í bókakaffi og las Spiegel sem ég skolaði niður með tvöföldum espressó.

Mánudagar hafa á sér illt orð en þessi mánudagur hefur svo sannarlega ekki verið mér til mæðu.

Í mörgum dagatölum er mánudagurinn fyrsti vikudagurinn. Fólk byrjar á því að vinna. Endar vikuna á hvíld. Byrjar á hamaganginum en endar í rónni.

Meðan sunnudagurinn fékk að vera fyrsti dagur vikunnar var hugsunin þveröfug.

Þá byrjaði fólk vikuna með því að slappa af og njóta lífsins. Byrjaði á því að hlaða batteríin.

Einhvers staðar las ég að samkvæmt gyðinglegri hefð byrji dagurinn klukkan sex að kvöldi. Þar er sama hugsun. Maður byrjar daginn ekki á því að rífa sig upp úr rúminu, gera á sér morgunverkin, smyrja nesti í krakkana og koma öllum á sína staði, maður byrjar daginn á því að steikja sér fisk og les síðan í góðri bók.

Fyrst kemur fagnaðarerindið. Síðan lögmálið. Fyrst koma góðu fréttirnar. Fyrst finnum við okkur skjól og öryggi. Fyrst endurnærum við okkur og látum uppbyggjast. Fyrst bíðum við róleg og öðlumst en síðan getum við farið að vinna og strita.

Vikan sem er hugsuð sem vika en ekki bara vinnuvika segir að ekki sé hægt að gefa nema hafa öðlast fyrst.

Enginn kunni að gefa nema hann kunni að þiggja.

Mánudagarnir eru ekki til neins nema maður hafi átt almennilegan sunnudag.

Náðin er til alls fyrst.

Myndin: Sunnudagslabbitúrinn var að þessu sinni um Lystigarð okkar Akureyringa. Hann er ekki síður fallegur í haustlitunum en í sumarskrúðanum. Það er nú töluverð eign fyrir eitt bæjarfélag, Lystigarðurinn og Pollurinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svavar.

Thakka pistilinn.

Hvernig myndavel ertu med ?

Kvedja

Islendingur (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 23:58

2 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Nikon D60.

Svavar Alfreð Jónsson, 15.9.2009 kl. 07:23

3 identicon

Takk fyrir vekjandi pistil!  Megum vera duglegri að staldra og njóta, taka á móti og hlaða.  Til þess er sunnudagurinn góður og ákveðin kúnst að lifa á gjöfum sunndagsins út allan mánudaginn og enn flóknara að ætla að fljóta á því vikuna á enda.  En er hægt, þarft og gott.  Kostar bara smá aga.  :)  Þú ert listagóður penni, Svavar!

Lena Rós Matthíasdóttir (IP-tala skráð) 15.9.2009 kl. 10:01

4 identicon

Góð lesning flottur pistill Svavar.

Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 15.9.2009 kl. 12:16

5 Smámynd: Brattur

Þetta er alltaf spurningin um upphaf og endi... hvenær eru voru aldamótin, áramótin 1999-2000 eða áramótin 2000-2001 ?

Annars eru mánudagar fínir dagar... einhver könnun sagði að fólki þættu miðvikudagarnir verstir... veit ekki af hverju.

Brattur, 15.9.2009 kl. 13:30

6 identicon

tjahh öldin er ekki liðin fyrr en 100 ár eru liðin.  Svo að strangt til tekið þá eru aldamótin 2000-2001

Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 15.9.2009 kl. 14:21

7 Smámynd: Brattur

Akkúrat Arnar Geir... þar er ég sammála... en það eru samt margir á öðru máli !!!

Þetta er eins og í sundi. Þú ætlar að synda 50 metra í 25 metra laug... þú ert ekki búinn með 50 metrana þegar þú snýrð við, það er ekki fyrr en þú snertir bakkann hinum megin sem þú ert búinn að synda 50 metra...

Getur ekki verið einfaldara.

Brattur, 15.9.2009 kl. 17:00

8 identicon

Mánudagarnir eru ekki til neins nema maður hafi átt almennilegan sunnudag.

Náðin er til alls fyrst

Amen og takk Svavar.

Þórhallur Heimisson (IP-tala skráð) 15.9.2009 kl. 18:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband