Við þjófarnir

breytthus

Vísifingurinn er léttur enda eru þeir nú um stundir margir samtímis á lofti.

Þeir benda á okkur, íslenska þjóð, sem býr á þessu volaða, drepandi, vesæla og hrafnfundna hafísalandi.

Við erum þjófar. Við erum óskilafólk. Við erum óheiðarleg. Við erum siðblind. Við erum úrhrök meðal þjóða og eigum hvergi skilið að vera.

Þessir vísifingur eru bæði íslenskir og erlendir.

Nokkrir vísifingranna benda á okkur frá Alþingi Íslendinga.

Eigendur þeirra segja glæp þjóðarinnar svo mikinn að hún sleppi vel með að þurfa að borga 100 milljónir á dag í sekt næstu árin.

Glæpur þjóðarinnar er sá að einkabanki fór á hausinn og gat ekki staðið við skuldbindingar sínar.

Drjúgur hluti þessara vísifingra, sem benda á okkur þjófana og úrhrökin, eru í eigu fólks sem sat í stjórn landsins þegar bankarnir fóru á hausinn.

Þá vísuðu þeir vísifingur reyndar niður. Sumir voru djúpt ofan í buxnavösum eigenda sinna. Meðal annars vísifingur þess ráðherra sem fór með stjórn bankamála þegar bankarnir hrundu.

Nú er þeim fingri vísað á okkur. Þjófana.

Því er haldið fram að Ísland eigi sér enga málsvara. Alþjóðasamfélagið vilji ekki Ísland sem ekki sé tilbúið að spenna á sig þennan skuldaklafa.

Það er ekki rétt.

Ótalmargir erlendir sérfræðingar hafa bent á ranglæti Icesave-samninganna.

Þeirra á meðal er Eva Joly.

Ég rifja upp búta úr grein hennar sem birtist í fjórum blöðum í fjórum löndum í sumar.

Þar varð Eva Joly fyrri til en íslenskir stjórnmálamenn að taka til varna fyrir Ísland.

Ísland, sem telur einungis 320 þúsund íbúa, sér nú fram á að þurfa að axla margra milljarða evra skuldabyrði sem langstærstur hluti þjóðarinnar ber nákvæmlega enga ábyrgð á og ræður alls ekki við að greiða...

Það hversu mjög Brown hefur beitt sér gegn þessu smáríki er því ekki hægt að skýra á annan hátt en þann að hann hefur viljað ganga í augu eigin kjósenda og skattgreiðenda, fólks  sem að sönnu  varð fyrir miklu fjárhagstjóni og rétt er að halda til haga.. Rétt er að undirstrika að íslenskar stofnanir  bera mikla ábyrgð á þessu máli. En þýðir það að menn eigi að líta fram hjá því að bresk stjórnvöld bera jafn mikla ábyrgð, en láta íslensku þjóðina axla allar byrðarnar?...

Þess ber að gæta að Ísland, sem hefur  einungis tekjur af útflutningi, kemur ekki til með að geta staðið undir þessum ábyrgðum.  Samningurinn um Icesave, sem Alþingi greiðir atkvæði um á næstunni, myndi þýða aukna skuldsetningu Íslands. Hlutfallslega er um að ræða upphæð sem er sambærileg við það að Bretar tækju á sig 700 milljarða sterlingspunda skuld eða að Bandaríkjamenn tæku á sig 5600 milljarða dollara skuld. Það er heldur ekki raunhæft að Ísland geti skilað hallalausum fjárlögum innan fimm ára á sama tíma og fjárlagahalli flestra ríkja eykst gríðarlega. Þar fara fremst í flokki stórveldi heimsins, ekki síst Bretland og Bandaríkin. Ef Evrópa og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn snúa ekki við blaðinu kann vera að þau vinni sannkallað afrek: dragi land þar sem þjóðartekjur á hvern íbúa hafa verið með þeim hæstu í heimi niður á stig þeirra allra fátækustu... Afleiðingin: Íslendingar, sem langflestir eru vel menntaðir, fjöltyngdir og í nánum tengslum við Norðurlöndin þar sem þeir aðlagast auðveldlega, eru þegar farnir að flýja land...

Við þurfum því að krefjast þess að alþjóðasamfélagið veiti svör við því hvernig koma eigi í veg fyrir hrun og hörmungar eins og Ísland lenti í. Það á ekki að líðast að alþjóðasamfélagið yppi öxlum og láti sem engra breytinga sé þörf og beiti lönd eins og Ísland þrýstingi af fullkomnu miskunnarleysi...

Greinina má lesa í heild sinni hér.

Myndin er af álfasteini á aðventu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Einn af fyrrum ráðherrum í hrunastjórninni, Þórunn Sveinbjarnardóttir, sagði blygðunarlaust "að þjóðin yrði að greiða skuldir sínar" þegar hún gerði grein fyrir atkvæði sínu við lok annarrar umræðu á alþingi. Þetta er ekki gott innlegg ef svo vel tekst til að forseti synjar Æsseif, þjóðin fellir það og til málaferla kemur.  Það er illt að hafa slíka "talsmenn" hnípinnar þjóðar í vanda.

Sigurður Þórðarson, 9.12.2009 kl. 20:00

2 Smámynd:

Já að hugsa sér. Samkvæmt hinum háu herrum Alþingis eru það ekki bara við sem erum þjófar og úrhrök heldur líka ógetnir afkomendur okkar í marga liði. Hver þarfnast erlendra óvina þegar þeir sem eiga að gæta hagsmuna þjóðarinnar líta hana þessum augum? Því segi ég: Illt er að vera Íslendingur.

, 10.12.2009 kl. 00:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband