Fjötrar staðalímynda

DSC_0166

 

Þökk sé morgunútvarpinu á Rás tvö sem minntist nýliðins sjómannadags með viðtali við stýrimanninn Aríel Pétursson. Hann samsvarar að mörgu leyti illa staðalímyndum af sjómönnum. Aríel er t. d.  úr Reykjavík en samkvæmt almennt viðurkenndri staðalímynd situr fólk úr því ágæta plássi helst inni á kaffihúsum sullandi lattei niður á lopatreflana sína. Reyndar kom fram í viðtalinu að stærstu verstöð landsins sé að finna í Reykjavík – enda hef ég hvergi fengið betri plokkfisk en á veitingastaðnum Höfninni við smábátahöfnina þar í borg.

Þegar ég var strákur hlustaði ég oft á óskalög sjómanna. Þátturinn gaf þjóðinni mjög skýra mynd af tónlistarsmekk stéttarinnar. Í viðtali RÚV við Aríel Pétursson kom ekki fram hvort hann hefði dálæti á tónlist sem fullnægir skilyrðum þeirrar staðalímyndar. Hlustendur voru á hinn bóginn upplýstir um að Aríel væri flinkur fiðluleikari eins sennilega og það nú hljómar þegar í hlut eiga stirðir frystitogarajaxlar með fingur eins og SS-pylsur.

Víða leynast staðalímyndirnar og máttur þeirra er mikill. Fleiri en sjómenn búa við það að fólk hefur skýrar hugmyndir um hvernig þeir eigi að vera; um klæðaburð, vaxtarlag, hugsun, orðaforða, lífshætti, drykkjusiði og tónlistarsmekk. Fjölmiðlar eru löðrandi í staðalímyndum. Ótrúlega margar manneskjur eru alveg með það á hreinu hvernig við prestarnir eigum að vera – og ekki nóg með það, prestabörn og prestamakar fá oft mjög afgerandi skilaboð um hvað sé þeim sæmandi og hvað ekki.

Einu sinni þegar heimiliskötturinn var staðinn að verki við að murka líftóruna úr þrastarunga hér fyrir utan raðhúsið missti einn nágranni minn út úr sér – sennilega þó meira í gríni en alvöru: „Og þetta gerir prestskötturinn.“

Vinkona mín vann um tíma á bókasafni í sjávarplássi úti á landi. Það var meðal annars í hennar verkahring að tína til bækur í kistur miklar fyrir frystitogarana þegar þeir fóru í sína löngu túra. Eitt sinn hringdi yfirmaður á einum togaranna á bókasafnið og bar fram óskir um bækur í kistuna handa áhöfn sinni. Bókmenntasmekkur sjómanna reyndist nokkuð fjölbreyttur en höfundar á borð við Alistair Maclean, Desmond Bagley og Sven Hassel voru þó iðulega nefndir í þessu símtali eins og við var að búast. Þegar því var að ljúka og kistan orðin barmafull af bókmenntum kom hinsta óskin eins og þruma ofan í staðalímyndir hins nýútskrifaða bókasafnsfræðings:

„Hurðu, áttu eitthvað eftir Nietzsche?“

Myndina tók ég nýlega af því dásemdarsjávarplássi Þórshöfn á Langanesi. Pistlinum fylgja síðbúnar hamingjuóskir til sjómanna þar og annars staðar.


Erum við kristin?

DSC_0196

 

Stundum er því haldið fram að Gamla testamentið geti ómögulega verið trúarrit kristinna manna því þar sé svo margt andstyggilegt.

Að sjálfsögðu neita ég því ekki að ýmislegt í þessu merkilega og ævaforna ritsafni fellur illa að hugmyndum samtíðar okkar um siðferði, trú og Guð.

Engu að síður á Gamla testamentið ótalmargar perlur. Einn minn uppáhaldstexti úr Biblíunni er þaðan, 23. Davíðssálmur.

Lexía dagsins, 1. sunnudags eftir þrenningarhátíð, er líka magnaður og á brýnt erindi við samtíð okkar. Hann kemur úr 15. kafla 5. Mósebókar og er svohljóðandi:

„Ef einhver bræðra þinna er fátækur í einni af borgum þínum í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér skaltu ekki loka hendi þinni fyrir fátækum bróður þínum með harðýðgi heldur skalt þú ljúka upp hendi þinni fyrir honum. Þú skalt lána honum það sem hann skortir.

Þú skalt gefa honum fúslega en ekki með ólund því að fyrir það mun Drottinn, Guð þinn, blessa öll þín verk og hvað sem þú tekur þér fyrir hendur. Því að aldrei mun fátækra vant verða í landinu og þess vegna geri ég þér þetta að skyldu: Ljúktu upp hendi þinni fyrir meðbræðrum þínum, fátækum og þurfandi í landi þínu.“

Stundum velta menn því fyrir sér hvort Íslendingar séu kristnir.

Þá er gjarnan gripið til talna og reynt að mæla trúarhitann þannig; þetta og þetta mörg prósent eru í Þjóðkirkjunni eða þetta og þetta mörg – eða fá – prósent fara í kirkju.

Í hvert skipti, sem við lokum hjörtum okkar, augum, dyrum og hirslum, fyrir þeim, sem þurfandi eru, þá erum við að loka á Guð og fjarlægjast hann.

Í hvert sinn, sem við opnum hjörtu okkar, augu, dyr og hirslur, fyrir þeim, sem í neyð eru, þá erum við að opna fyrir Guði og veita himneskum veruleika hans inn í þessa veröld.

Það segir miklu meira um trúarhita landsmanna og stöðu kristni en tölur frá þeirri ágætu stofnun, Þjóðskrá Íslands.

Og í því samhengi má benda á, að auðæfum heimsins er ekki bara misskipt á milli manna heldur ekki síður þjóða. Við hér á Íslandi teljumst til einnar ríkustu þjóðar heimsins.

Við höfum því af miklu að miðla sem þjóð en það sést því miður ekki í framlögum okkar til þróunaraðstoðar eða í því hvað við tökum á móti mörgum flóttamönnum.

Það segir sína sögu um hvort hægt sé að kalla Ísland kristið land.

Myndin er af álft á Hundatjörn í Krossanesborgum


Ofsóknir gegn kristnum

DSC_0229


Nýlega sá ég merkilega heimildarmynd á þýsk-frönsku sjónvarpsstöðinni Arte um ofsóknir gegn kristnum í Austurlöndum nær. Haldi þessi þróun áfram sýnist mér reyndar réttara að tala um útrýmingarherferð en ofsóknir.

Við upphaf 20. aldar var fjórði hver íbúi þessa heimshluta kristinnar trúar. Nú eru kristnir þar í miklum minnihluta, einungis 11 milljónir af 320 milljónum. Á ári hverju er fjöldi kristinna manna myrtur og rekinn á flótta, m. a. vegna þess að kristnir eru taldir tengjast óvininum mikla, Vesturlöndum. Með tilkomu hryðjuverkasamtakanna Íslamskt ríki versnaði staða þeirra enn frekar.

Nú er svo komið að eldfornum kristnum trúarsamfélögum í Tyrklandi hefur því sem næst verið útrýmt. Þar eru trúlega rétt um 100.000 kristnir eftir. Í Írak voru þeir ofsóttir grimmilega og flúðu til Kúrdistan. Ástandið í Sýrlandi er enn verra. Þar hefur ein milljón kristinna flúið landið. Hvergi fyrirfinnast fleiri kristnir í þessum heimshluta en í Egyptalandi, koptarnir svonefndu, með sína stórmerkilegu arfleifð og sögu. Staða þeirra er þó mjög erfið.

Í viðtali við höfund myndarinnar, franska kvikmyndagerðarmanninn Didier Martiny, kemur fram að hann telur að Evrópa og Bandaríkin horfi aðgerðarlaus upp á þessa skelfilegu þróun vegna þess að þessi minnihluti hafi enga strategíska þýðingu fyrir þau.

Trúarflóran í Austurlöndum nær er þó enn furðu fjölbreytt. Þar eru ýmsar fámennar kirkjudeildir með mjög langa og merkilega sögu. Þessir trúarhópar eru hver öðrum háðir og staða þeirra viðkvæm. Höfundur myndarinnar segir það sína skoðun, að hverfi einn af svæðinu geti hinir horfið í kjölfarið. Gerist það sé heimshlutinn sviptur mikilvægum hluta af menningararfi sínum.

Eitt sinn var vagga kristninnar í Austurlöndum nær en síðustu aldirnar hafa kristnir menn sætt illri meðferð stjórnvalda og víða verið annars flokks borgarar. Þeir hafa aldrei búið við ríkidæmi en þó alltaf lagt áherslu á að vera vel að sér um önnur trúarbrögð á svæðinu. Í viðtalinu segist Martiny til dæmis hafa hitt munka sem bjuggu yfir frábærri þekkingu á Kóraninum. Kristnir menn séu mjög mikilvægir fyrir fjölhyggjuna í heimshlutanum.

Myndina tók ég í gær af eyfirsku vori


Hugleikur og húmorinn

DSC_0084 (2)

Á baksíðu Fréttablaðs dagsins er fjallað um húmor af húmorista sem oft hefur fengið mig til að taka andköf af hlátri.

Hugleikur Dagsson er snillingur í að hræra upp í fólki. Honum er fátt heilagt sem er dýrmætur eiginleiki húmorista. Ein blessun skopsins er í því fólgin að hjálpa okkur að sjá málin í nýju ljósi, ekki síst þau sem hafa á sér einhverskonar helgi, hvort sem hún er trúarleg, pólitísk, menningarleg eða siðferðisleg.

Ekki er ég viss um að hugtökin íhald og þróun séu jafn afdráttarlausar andstæður og Hugleikur lætur í veðri vaka í pistli sínum. Ég þekki til dæmis framfarasinnaða róttæklinga sem telja þá þróun afar uggvænlega, að auðæfi heimsins komast í hendur sífellt færri manna. Framvindan er ekki alltaf gleðileg og fáir eru það litlir íhaldsmenn, að þeir vilji breytingar einungis breytinganna vegna.

Það getur jafnframt verið eftirsóknarvert að halda í gömul gildi sem reynst hafa vel. Gjafmildi, gestrisni, sanngirni, heiðarleiki og jöfnuður eru meðal gilda sem standa á gömlum grunni og eiga sér langa sögu. Varla er það í sjálfu sér slæmt að standa vörð um þau þótt forn séu og menn geti greint á um útfærslu þeirra og framkvæmd.

Sú íhaldssemi er líka oft umdeild, að vilja halda sumum náttúruperlum landsins í óbreyttri mynd.

Ég er þeirrar skoðunar að í flestum okkar takist á íhald og viljinn til breytinga.

Grínistar leggja ýmist sitt af mörkum við að viðhalda staðalímyndum eða eyða þeim. Ég myndi kalla þá grínista íhaldssama sem viðhalda slíkum ímyndum. Líbó hippagrínistinn er ef til vill staðalímynd og kannski ekki síður hvæsandi húmorslausi íhaldskurfurinn en báðar þær týpur koma fyrir í niðurlagi þessara bakþanka Hugleiks.

Húmor er sammannlegt fyrirbæri. Vítt og breitt um veröldina rekumst við á skellihlæjandi íhaldsmenn og róttæka framfarasinna sem engjast í heiftarlegum hláturkrömpum. Siðprúðar kristnar manneskjur taka bakföll af hlátrum, guðhræddir múslimar brosa svo breitt að þeir eru heppnir að hafa eyru og að sómakærum trúleysingjum setur slíka tröllahlátra, að þeim liggur við köfnun.

Þó er ekki víst að öllum finnist allt jafn fyndið. Um það er ekki nema gott eitt að segja.

Hitt er verra, ef við höfum svo háar hugmyndir um okkur sjálf að við teljum okkur trú um að þeir hafi ekkert skopskyn, sem ekki geta hlegið að sömu vitleysunni og við.


Festuþörf á umbrotatímum

DSC_0056

Þegar forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, tilkynnti nú í vikunni að hann gæfi kost á sér til endurkjörs gaf hann m. a. þá skýringu á þeirri ákvörðun, að enn væri ástandið á Íslandi viðkvæmt og óvissa framundan. Margir hefðu því hvatt hann til framboðs og vísað til reynslu hans og þekkingar. Hvort tveggja væri dýrmætt forseta á slíkum tímum.

Síðan ákvörðun hans varð ljós hefur maður gengið undir manns hönd við að bera brigður á þá skýringu Ólafs Ragnars. Fáir hafa dregið í efa reynslu sitjandi forseta og þekkingu heldur hafa menn efast um þá greiningu hans, að ástandið nú kalli með sérstökum hætti á forseta sem búi yfir slíku.  

Einn þeirra var Ragnhildur Helgadóttir, prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskólann í Reykjavík. Hún benti á að festan í stjórnskipuninni eigi að vera í regluverkinu en ekki ákveðnum einstaklingum.

Sú ábending prófessorsins er í sjálfri sér alveg rétt. Eins og hún tók fram  hefur íslensk stjórnskipun að mörgu leyti staðist álag síðustu vikna ágætlega. Lýðræðið hér virkar.

Ég skynja á hinn bóginn mikla þörf fyrir festu hér á landi. Sú festuþörf hefur skapast vegna þess að hér hefur grafið um sig mjög djúpstætt vantraust sem beinist í allar áttir, að öllum helstu stofnunum þjóðfélagsins og atvinnuvegum þótt menn greini á um að hve miklu leyti ástæður þeirrar tortryggni séu raunverulegar.

Í nokkur ár hafa Íslendingar nær daglega heyrt og lesið tíðindi um vanhæfa ríkisstjórn, þjóðþing rúið trausti, fjórflokk í rústum, svikult fjármálakerfi, arðrænandi útgerð, mergsjúgandi bændur, gróðasjúkan ferðabransa, ónýtt heilbrigðiskerfi, spillta dómstóla, mengandi stóriðju, lata listamenn, stórhættulega flóttamenn og fjölmiðla sem gæta hagsmuna auðmanna.

Auk þess hafa Íslendingar mátt heyra þann dóm um sig sjálfa að þeir kunni ekki að kjósa rétt og að þeim sé hlegið vítt og breitt um veröldina. Íslendingum sé því ekki treystandi fyrir forræði í eigin málum.

Þegar við allt ofagreint bættust þær fréttir, að forsætisráðherra landsins hafi orðið uppvís að þvi að reyna að fela auðæfi sín fyrir landsmönnum og myndir af honum flæddu um heimsbyggðina þar sem honum var stillt upp við hliðina á mörgum af helstu hrottum og harðstjórum heimsins var það nú ekki til að fegra sjálfsmynd þjóðarinnar, efla sjálfstraustið eða minnka upplausnina.

Enn voru Íslendingar hafðir að háði og spotti og orðspor þeirra að engu orðið í útlöndum. Eitt fremsta skáld þjóðarinnar skrifaði grein í þýskt stórblað þar sem hann teiknaði upp frekar nöturlega mynd af því iðandi spillingarbæli sem hann telur Ísland vera og hæddist um leið að persónu og útliti nýs forsætisráðherra landsins, svona til að þýska þjóðin fái innsýn í hina málefnalegu þjóðfélagsumræðu sem stunduð er á Íslandi.

Saga mannsins sýnir, að stundum reyna lýðskrumarar og öfgamenn að nýta sér þá festuþörf sem skapast í upplausnarástandi.

Mýmörg dæmi eru líka um að sama tegund fólks sjái sér hag í því að skapa upplausnarástand eða hella olíu á elda þess.

Það eru umbrot á Íslandi og í veröldinni. Að sjálfsögðu geta umbrot verið bæði þörf og góð en ekki er óeðlilegt að í slíkum aðstæðum kvikni þörf fyrir festu. Sú þörf getur svo sannarlega beinst að einstaklingum eins og ótal dæmi eru um í veraldarsögunni.

Myndin: Vorhret


Skattsvikarar á meðal vor

DSC_0020

Á netinu las ég litla sögu um náunga sem fékk iðnaðarmann til að vinna fyrir sig. Sá setti það skilyrði fyrir vinnu sinni að hann fengi borgað svart. Verkbeiðandi samþykkti það fyrirkomulag en gat ekki annað en glott þegar hann sá svo þessum sama iðnaðarmanni bregða fyrir í sjónvarpsmyndum frá nýjustu mótmælunum á Austurvelli. Þar sveiflaði hann stóru skilti þar sem skattsvikurum var óskað norður og niður.

Í Kastljósviðtali kvöldsins ræddi ríkisskattstjóri, Skúli Eggert Þórðarson, um þann alltof útbreidda hugsunarhátt á Íslandi og víðar, að sjálfsagt sé að borga ekki skattana sína.

Sumir vilja að við hugsum helst og mest um okkur sjálf og okkar eigin hag en forðumst að leggja okkar af mörkum í þágu náungans og þeirra sem minna mega sín. Skattaskjól heimsins eiga sennilega engum frekar tilvist sína að þakka en þeim sem hlustað hafa á þær raddir.

Þessar línur skrifa ég ekki til að bera blak af stjórnmálamönnum sem svíkja undan skatti eða bregðast trausti skjólstæðinga sinna með öðrum hætti. Þeir stjórnmálamenn sem verða uppvísir að slíku eiga að taka pokann sinn. Ef þeir neita því verða kjósendur að sjá til þess þeir verði ekki valdir til þingsetu sem sjá ekkert athugavert við að koma sér hjá því að leggja sitt af mörkum í sameiginlega sjóði landsmanna. Það gæti á hinn bóginn orðið vandkvæðum bundið að kjósa ekki líklega skattsvikara ef flestum landsmönnum og þar með þeim sem í framboði eru finnst ekkert athugavert við að stunda slík svik.

Við eigum ekki að hugsa um stjórnmálin sem einhvern afmarkaðan heim þótt hann birtist gjarnan þannig í fjölmiðlum. Þau koma okkur öllum við. Stjórnmál eru mál okkar allra en ekki einkamál ákveðinnar stéttar.

Stundum finnst mér umræða um stjórnmál fyrst og fremst snúast um að etja saman mönnum og hoppa ofan í skotgrafirnar með sínum flokki. Minna er gert af því að fjalla um málefnin og íhuga hvað sé fólki í raun og veru fyrir bestu.

„Fjarstæða íslenskra stjórnmála er fólgin í því að fólk ímyndar sér ranglega að hægt sé að varpa ábyrgðinni á gangi stjórnmálanna yfir á herðar fárra manna sem tróna á toppi stjórnmálaflokkanna,“ skrifaði dr. Páll Skúlason í tímaritsgrein árið 1986.

Besta leiðin til að siðbæta íslensk stjórnmál er trúlega í því fólgin að við, íslenskir kjósendur, lítum í eigin barm, því ef okkur tekst að ryðja þeim siðspilltu af sviðinu munum við þurfa að koma í þeirra stað.

Myndin er úr Eyjafirði. Horft yfir í Dalsmynni.


Alið á ótta og sundrungu

DSC_0167

Í elsta dagblaði landsins birtist í gær leiðari skrifaður í tilefni af fjöldamorðunum í Brüssel nú í vikunni. Þar var athygli lesenda beint að fólki sem á undanförnum misserum hefur leitað skjóls í Evrópu og er á flótta undan samskonar hrottum og myrtu saklausa vegfarendur í Belgíu. Leiðarann mátti skilja þannig, að flóttafólk gæti verið hættulegt.

Margir vilja stækka radíus þess varhugaverða og segja að ekki einungis menn á flótta séu grunsamlegir og hugsanlegir fjöldamorðingjar heldur sé rétt að vera á sérstöku varðbergi þegar fólk sem aðhyllist múhameðstrú er annars vegar. Svokölluð íslamófóbía er landlæg í hinum vestræna heimi. Fjöldamorðin í Brüssel og viðlíka atburðir eru vatn á myllu þess ótta.

Aðrir vilja hafa skilgreininguna á hættulegu fólki enn víðari og halda því fram að vissara sé að vara sig á öllum trúuðum. Á baksíðu dagblaðs sem borið er ókeypis inn á stóran hluta heimila landsmanna birtist í dag pistill þar sem gefið er í skyn, að ekki megi miklu muna, að trúað fólk sprengi sig í loft upp á samkomum vantrúaðra.

Nýlega heyrði ég konu halda því fram í sjónvarpsþætti að ekki væri nóg að hafa varann á sér í návist heittrúaðra. Fólk með hugsjónir og sterkar skoðanir væri til alls líklegt.

Í sama dagblaði og útbreiðir boðskapinn um hugsanleg sprengjutilræði heittrúaðra birtist eftirfarandi frétt:

Hetjudraumar og ævintýraþrá  

Í skýrslu frá evrópsku lögreglustofnuninni Europol frá í janúar síðastliðnum segir að evrópskir hryðjuverkahópar, sem kenna sig við Íslamska ríkið, séu að mestu „heimaræktaðir“ og staðbundnir. Þá segir í skýrslunni að stór hluti þeirra Evrópubúa, sem haldið hafa til liðs við Íslamska ríkið í Sýrlandi eða Írak, hafi áður greinst með geðræn vandamál. Margir þeirra hafi auk þess áður komist í kast við lögin, ýmist fyrir smáglæpi eða stærri afbrot. Þar segir einnig að trúarleg áhrif hafi að stórum hluta vikið fyrir félagslegum þáttum þegar skoðað er hvað hreki einstaklinga út á þessar brautir. Þar skipti jafningjaþrýstingur og félagslegar fyrirmyndir meira máli en trúarlegar pælingar. „Auk þess gætu rómantískar væntingar um að vera þátttakandi í mikilvægum og spennandi atburðum átt hlut að máli,“ segir í skýrslunni. „Sjálfsvígssprengjumenn líta frekar á sig sem hetjur en trúarlega píslarvotta.“

Með öðrum orðum: Hryðjuverkahópar eru heimaræktaðir og engin ástæða til að bendla flóttafólk sérstaklega við þá. Það er heldur engin ástæða til að merkja trúað fólk með aðvörunarmiðum og stilla því upp sem hugsanlegum morðingjum.

Sennilega eru þeir sem breiða út slíka fordóma mun hættulegri en fólkið sem þeir keppast við að jaðarsetja.

Einn tilgangurinn með hryðjuverkunum er að ala á ótta og sundrungu með því að etja saman þjóðfélagshópum; kristnum gegn múslimum, trúuðum gegn vantrúuðum og nýbúum gegn heimamönnum.

Samtökin sem kenna sig við íslamskt ríki hafa lýst ábyrgð sinni á fjöldamorðunum í Brüssel.

Þeir sem útbreiða ótta, magna upp fordóma og æsa upp hatur í kjölfar ódæðanna gætu verið að vinna í þágu sömu samtaka.

 

Myndin: Á göngu minni um Naustaborgir um daginn rakst ég á Tobba, hundinn hans Tinna.

 


Þannig hittist á

DSC_0146

Háralag mitt er með þeim hætti að mjög skyndilega myndast aðkallandi þörf fyrir aðgerðir hársnyrtis.

Ekki að ástæðulausu lét rakarinn minn einu sinni svo um mælt að hár mitt síkkaði eiginlega ekki heldur bólgnaði út á mér hausinn.

Nýlega var ég á göngu um borgina Den Haag í Hollandi og átti mér einskis ills von þegar konan mín benti mér á að á örskömmum tíma hefði náð að myndast algjört ófremdarástand uppi á hausnum á mér.

Það varð mér til happs að skömmu síðar gengum við fram á hárgreiðslustofu. Ég gekk þangað inn og á móti mér tók brosandi ungur maður með svart hárið hnýtt í tagl.

Beiddist ég klippingar hjá rakara þessum og var hann meira en fús til verksins.

Þegar ég var sestur í rakarastólinn fórum við að spjalla. Reyndist hárskerinn vera fæddur í Indónesíu enda gaf útlitið þannig uppruna til kynna. Þegar hann komst að því hvaðan ég var þótti honum það frábær tíðindi því hann hafði aldrei haft hendur í hári Íslendings áður – hvernig landkynning sem hárstrýið mitt hefur nú verið.

Leitun er að viðræðubetri mönnum en hárskerum og þessi var stétt sinni ekki til skammar, hvorki að því leyti né öðru. Vildi hann fá að vita eitt og annað um mína hagi og hvað ég væri að gera í Hollandi. Þegar hann komst að því að ég væri að heimsækja börnin mín sem væru þar við nám innti hann mig eftir því hvað þau væru að læra.

Þá kom í ljós, að þannig hittist á, að hann hafði einu sinni verið í sama námi og sonur minn en hætt því þegar hann var hálfnaður.

Það þótti mér skemmtileg tilviljun. Ég spurði hann hvort hann hefði verið í náminu hér í borginni. „Nei,“ svaraði hann „ég var í Frjálsa háskólanum í Amsterdam.“

„En gaman,“ sagði ég, „þannig hittist á að ég var einmitt á fundi í þeim skóla í gær.“

Það þótti okkur báðum skemmtileg tilviljun.

Hárskerinn varð nú forvitinn um tengingar mínar við akademíuna. Ég greindi honum frá því að ég væri guðfræðingur en var dálítið hikandi því sú menntun þykir fremur ófín í sumum kreðsum heima á Íslandi og mætir ýmsum fordómum. Sá beygur minn reyndist ástæðulaus því rakarinn ljómaði allur og sagði:

„En gaman, þannig hittist á að bróðir minn er guðfræðingur og kennir guðfræði við háskóla í Ástralíu.“

Voru nú skemmtilegu tilviljanirnar frekar orðnar að reglu en undantekningum.

Margt fleira skröfuðum við vinirnir þarna á rakarastofunni og komumst að því að við áttum ótalmargt sameiginlegt þrátt fyrir ólíkan uppruna.

Þá uppgötvun gerir fólk gjarnan ef það lítur upp frá símunum og gefur sér tíma til að tala saman.

Mikið var ég glaður að þannig skyldi hittast á að ég þurfti klippingu fyrir framan einmitt þessa rakarastofu.

Þess má geta að á fundi mínum í skólanum var prófessor nokkur sem vildi fá að vita hvar ég væri prestur á Íslandi.

Þegar ég kvaðst þjóna í Akureyrarkirkju sagði prófessorinn mér þá sögu að sumar eitt fyrir mörgum árum hefði hann verið á ferðalagi um Ísland. Hann fékk far frá Ásbyrgi til Akureyrar með elskulegum hjónum.

Hann mundi vel að hún var frá Hong Kong en hann starfaði við kórstjórn í Akureyrarkirkju.

Heimurinn er þó ekki stærri en svo, að þar er stöðugt eitthvað að hittast á.

Myndin er úr útivistarparadísinni í Naustaborgum ofan Akureyrar


Hin forsmáða viska

DSC_0080

 

Í kirkjubæn í Handbók íslensku þjóðkirkjunnar er Guð beðinn að veita forystufólki þjóðarinnar „vitsmuni og drengskap“.

Þetta orðalag gæti bent til þess að þau sem settu saman bænina frýi ráðamönnum vits eða hafi efasemdir um gáfnafar þeirra.

Að sjálfsögðu má færa rök fyrir því að heppilegra sé að fólk í mikilvægum ábyrgðarstöðum sé þokkalega vel að sér og hafi að minnsta kosti meðalgreind.

Ekki er þó allt fengið með því að vera klár og upplýstur.

Viskan eða lífsspekin er ekki síður mikilvæg. Hún er fólgin í þekkingu sem nýtist við hin ýmsu vandamál lífsins, tilfinningu fyrir óvissunni í tilverunni og kunnáttu í að takast á við það sem við ráðum ekki alls kostar við.

Alþýðuspeki segir að gamalt fólk búi yfir meiri visku en það yngra. Þess vegna þykir sumum tryggara að leita álits öldunganna áður en veigamiklar ákvarðanir eru teknar.

Sálfræðingar við sálfræðideild Michiganháskóla í Bandaríkjunum hafa rannsakað viskuna og komist að þeirri niðurstöðu að margt bendi til þess að sú skoðun eigi við góð rök að styðjast að menn vaxi að visku eftir því sem þeir verða eldri og lífsreyndari.

Eldra fólki gengur betur að viðurkenna sjónarmið annarra og öðlast yfirsýn yfir samhengi hlutanna. Það er næmara á hugsanlegar breytingar í félagslegum tengslum og getur séð fyrir marga möguleika á því hvert þær geta leitt. Gamla fólkið er fúsara að gera málamiðlanir og hæfara til þess vegna þess að því kann betur en það yngra að setja sig í annarra spor.

Allt þetta gerir það að verkum að eldra fólki er betur treystandi en yngra til að leysa flóknar og viðkvæmar þjóðfélagslegar deilur.

Æskudýrkun var eitt af því sem einkenndi hugarfarið á Íslandi árin fyrir Hrun. Eldri og reyndari bankamenn fundu fyrir því. Þá var ekki í tísku að vera varkár og yfirvegaður.

Ég er ekki viss um að þetta hugarfar hafi mikið breyst. Enn þykir ekki fínt að vera gamall. Það er reyndar orðið svo ófínt að menn forðast að nota orðið. Nú er gamalt fólk „eldri borgarar“ eða jafnvel „fullorðið“. Raddir unga fólksins eiga að fá að heyrast og talað er um að skipta þurfi út gamla liðinu.

Auðvitað þurfum við á snerpu og eldmóði unga fólksins að halda.

Viska öldungsins er okkur þó ekki síður dýrmæt; yfirvegun hans og varkárni, þekking á hinum ýmsu blæbrigðum tilverunnar, óvæntum sem fyrirsjáanlegum og hæfni hans til að lesa og skilja skoðanir sem eru framandi hans eigin.

Ef til vill hafa öldungarnir aldrei verið mikilvægari íslensku þjóðfélagi en núna.


Þorramatur allra landa

DSC_0502

Ítalskur ljósmyndari, sérfræðingur í að mynda matvæli, sagði mér að ýmislegt sameiginlegt mætti finna með þjóðlegum íslenskum mat og þjóðlegum ítölskum.

Bæði á Ítalíu og Íslandi þótti sjálfsagt að nýta hráefnin sem í boði voru enda var fátækt útbreidd í báðum löndunum.

Grappa var til dæmis upphaflega drykkur fátæka mannsins, búinn til úr steinum, stilkum, hrati og öðru sem af gekk við víngerð. Nú þykir grappa kostadrykkur og hægt að fá hann í rándýrum viðhafnarútgáfum á fínum restauröntum víða um heim.

Ítalir átu innmat og þeim fannst ekki síður en Íslendingum mikilvægt að nýta það sem náttúran gaf enda matur ekki sjálfsagður hjá þeim frekar en hjá okkur.

Þessa dagana er á Íslandi fram borinn þjóðlegur þorramatur, harðfiskur, sviðasulta, súr hvalur, kæstur hákarl, bringukollar, sperðlar, blóðmör og hangikjöt, svo nokkuð sé nefnt.

Þjóðremba er hvimleið og þeir sem telja íslenska þorramatinn heimsins mesta hnossgæti hafa sennilega ekki víða snætt.

Andstæða þjóðrembunnar er þó ekki síður óviðfelldin. Það ber vott um þröngsýni og bjálfahátt að telja allt best og mest heima hjá sér en það er líka kjánaleg grunnhyggni að dýrka allt útlent en fyrirlíta annað.

Þorramaturinn íslenski á margt sameiginlegt með þjóðlegum mat annarra landa. Kæsing er til dæmis ekki séríslensk aðferð við að geyma matvæli.

Hákarlinn íslenski lyktar illa en ég hef smakkað osta á Ítalíu og Frakklandi sem eru enn daunverri. Einu sinni gaf vinur minn mér hágæða ost sem hann hafði keypt í afar flottri ostabúð í París. Þegar ég tók hann úr umbúðunum gaus upp einhver mesti óþefur sem um mínar nasir hefur leikið. Hákarlahjallar landsins ilmuðu eins og snyrtivörudeildir vöruhúsa í samanburði við þann fnyk. Ég fékk mér sneið af ostinum franska og saup á góðu víni með og viti menn; hann smakkaðist jafn vel og hann lyktaði illa. Það var eins og maður væri með heila ljóðabók á tungunni. Eftir Gyrði eða Einar Ben. Ekki var viðlit að geyma kvikindið innan dyra og fékk hann að dúsa úti á svölum þangað til hans var neytt á ný.

Nýlega sá ég þátt í danska sjónvarpinu um sælkera sem pöntuðu alræmdan ost frá Sikiley sem þykir bestur þegar kominn er í hann maðkur. Þegar tekið var utan af þessu skaðræði í sjónvarpssal leið yfir myndatökumanninn. Osturinn þótti á hinn bóginn lostæti.

Ég geri mér grein fyrir að þjóðlegur matur er ekki endilega hollur. Ég er samt ekki viss um að kæstur hákarl sé verri fyrir heilsuna en djúpsteiktur fiskur með frönskum.

Mörgum finnst þjóðlegur matur vondur. Þó hlýtur að vera smekksatriði hvort bragðist betur grófbrytjaðir hrossasperðlar eða hormónasprautaðir hænurassar frambornir í pappatrogum.

Enn aðrir kvarta undan því að þjóðlegur matur allra landa sé hallærislegur. Hvort skyldi nú vera meira sveitó að gæða sér á þýskri blóðpylsu með vel súru káli eða spæna í sig hamborgara með kokteilsósu?

Í Sálmabókinni er þessi borðsálmur eftir Steingrím Thorsteinsson:

Að borði göngum breiddu vér,
ó, blessa, Drottinn, föng vor hér,
að þessi þinna gjafa gnótt
oss gefi næring, heilsu, þrótt.
Eins seð þú hvern í hungursnauð
og honum gef sitt daglegt brauð.

Mættu allir jarðarbúar njóta þess að geta satt sig og sína með góðum og hollum mat.

Myndin er af hákarli sem ég er að gæða mér á um leið og þetta er skrifað. Hann hlaut sína kæsingu á Borgarfirði eystra enda leynir sér ekki Dyrfjallakeimurinn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband