Evrópusambandspistill

DSC_0483 

Ýmislegt í ESB-umræðunni veldur mér heilabrotum þótt brothljóðin ræni mig ekki svefni.

Ég viðurkenni að ég er ekki hlynntur aðild Íslands að ESB, alla vega eins og sakir standa.

Fyrsta atriðið sem ég vil vekja athygli á tengist þeirri afstöðu.

  1. Þeir sem ekki eru hlynntir aðild að ESB eru ekki endilega á móti Evrópu. Þeir eru held ég fæstir andevrópskir í hugsun. Ég er mjög hlynntur evrópsku samstarfi og hef tekið þátt í því reglulega síðasta áratuginn. Ég er meira að segja mjög hlynntur Evrópusambandinu og tel að það hafi gert marga góða hluti. Framlag sambandsins til friðar í álfunni er til dæmis ómetanlegt. En þótt ég meti ESB mikils er ekki þar með sagt að Ísland eigi að ganga í það. Þýskur vinur minn, góður og gegn sósíaldemókrati, er mikill ESB-maður. Hann telur þó af og frá að Ísland eigi heima í sambandinu.
  2. Fráleitt er að stimpla alla sem efast um að Ísland eigi að ganga í ESB sem einangrunarsinna eða öfgafulla þjóðernissinna. Jafn fráleitt er að flokka alla aðildarsinna sem landráðamenn. Slíkur dilkadráttur skemmir umræðuna.
  3. Gjarnan er talað um aðildarviðræður Íslands við ESB sem könnunarviðræður. Verið sé að sækja um aðild til að skoða hvað sé í pakkanum. Öðruvísi sé ekki hægt að mynda sér upplýsta afstöðu. Hana sé ekki hægt að taka nema fyrir liggi samningur. Þetta virðist þó aðeins eiga við um neikvæða afstöðu til aðildar því hluti þjóðarinnar hefur tekið þá afstöðu að vera fylgjandi aðild að ESB án þess að nokkur samningur liggi fyrir.
  4. Ég held að vel sé hægt að vera á móti aðild að ESB án þess að vera búinn að sækja um aðild að því - alveg eins og ég held að hægt sé að aðhyllast íslenska aðild að sambandinu án þess að hafa samning í höndunum. En ef ég væri hlynntur aðild hlyti ég að efast um tímasetningu aðildarumsóknarinnar. Ef ég væri hlynntur aðild vildi ég auðvitað ná sem bestum samningi. Því betri samningur þeim mun meiri líkur væru á að hann yrði samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Til þess að ná góðum samningi þarf Ísland að hafa góða samningsaðstöðu. Sú aðstaða hefur held ég sjaldan verið verri en núna. Auk þess er pólitískt bakland umsóknarinnar lélegt. Það er verið að sækja um með hangandi hendi. Sumir hafa orðað það þannig að verið sé að gera dyrabjölluat í Brussel. Í Mogganum í dag sá ég haft eftir Katrínu Jakobsdóttur, menntamálaráðherra, varaformanni VG og einum forsvarsmanna þeirrar ríkisstjórnar sem ákvað að sækja um aðild, að þjóðin þurfi að fá tækifæri til að kjósa GEGN aðild að ESB. Það segir sína sögu um þann hug sem fylgir umsókn Íslands frá þeim sem umsóknina sendu.
  5. Þegar greidd voru atkvæði um aðildarumsóknina á Alþingi á sínum tíma var mikið talað um að málið ætti að fá lýðræðislega afgreiðslu. Lýðræðisleg afgreiðsla var í því fólgin að greidd voru atkvæði um tillöguna. Farið var að vilja meirihlutans og ákveðið að sækja um. Nú er nýlokið landsfundi Sjálfstæðismanna. Þar voru líka greidd atkvæði um sama mál. Niðurstaða þeirrar lýðræðislegu afgreiðslu var sú að meirihlutinn vildi draga umsóknina til baka. Þær málalyktir hafa orðið mörgum tilefni mikilla og innblásinna skrifa um skoðanakúgun og skort á umburðarlyndi. Lýðræðið virðist með öðrum orðum ekki eiga að gilda nema tryggt sé að meirihlutinn sé réttrar skoðunar.
  6. Mikið hefur verið rætt um tvöfalda atkvæðagreiðslu um aðild að ESB. Því hefur verið haldið fram að hefði verið efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort ætti að sækja um aðild hefði það þýtt tvöfalda atkvæðagreiðslu, því þá hefði líka þurft að greiða atkvæði um aðildarsamninginn. Ég er mjög hissa á því að fjölmiðlafólk og álitsgjafar hafi ekki séð í gegnum þann spuna. Ef þjóðin fengi að greiða atkvæði um hvort sækja eigi um aðild ESB eru allar líkur á að það verði fellt. Ef því er hafnað að sækja um aðild að ESB verður ekki sótt um aðild að ESB. Þá verður ekki gerður neinn samningur og þá verður heldur engin önnur atkvæðagreiðsla um þann samning.
  7. Sérhagsmunagæsla er vinsælt hugtak í umræðunni. Þeir sem standa vilja vörð um helstu atvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútveg og landbúnað, eru flokkaðir sem sérhagsmunagæslumenn. Fyrir nokkru heimsótti ég þýskan bónda. Talið barst að ESB. Hann útskýrði fyrir mér hvernig allur kostnaður hefði aukist við búskapinn vegna Evrópusambandsins og Evrunnar, hvernig skriffinnska og fyrirhöfn hefði margfaldast, hvernig verðið á afurðunum hefði lækkað og verðið á þeim til neytenda hækkað. Hann var með tölur tiltækar um þetta allt úr nákvæmu bókhaldi sínu. Þeir sem græða á ESB eru milliliðirnir en hvorki þeir sem vinna í frumgreinunum né neytendur, sagði þessi þýski bóndi. Ef til vill eru þeir sem hvetja til aðildar ekkert síður að verja sérhagsmuni en hinir?

Með von um góða og frjóa umræðu.

Myndin er af fossi í Syðri-Tunguá í Hörgárdal


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þrátt fyrir þetta skelfilega bákn og þessa milliliði þá lifir almenningur í þessum löndum þokkalegu lífi án yfirtíðar? Það tekur enginn málstað hins almenna borgara í "umræðunni" hér. Prestar og læknar vilja ekki rugga bátnum, en þeir stilla sér við hlið eigendanna; Kvótagreifanna og bændanna. Þessir aðilar hafa haft frítt spil með gengisfellingum og niðurgreiðslum og beingreiðslum....

 Almenningur þarf að auglýsa eftir prestum til að verja málstað lítilmagnans. 

Villi (IP-tala skráð) 2.7.2010 kl. 15:09

2 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Fyrir nokkru heimsótti ég þýskan bónda........Hefur heimurinn bara ekki gjörbreyst í tíð þessa þýska bónda..?  BKv.  Baldur

Baldur Kristjánsson, 2.7.2010 kl. 16:19

3 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Hvað ertu að meina, Baldur minn?

Svavar Alfreð Jónsson, 2.7.2010 kl. 16:42

4 Smámynd: Finnur Bárðarson

Þetta er útlendigafælni og ekkert annað, líka ótti við upplýsta umræðu. Miðaldra karlmenn virðast öðrum fremur haldnir þessarri ofasahræðslu.

Finnur Bárðarson, 2.7.2010 kl. 16:50

5 identicon

Ég tel af og frá að þýskir sósíaldemókratar, sem eiga íslenska séra að vinum, eigi heima í Evrópusambandinu. Ég tel af og frá að þýskir búskussar geti haft vit fyrir íslenskum búskussum.

Nei, í alvöru talað, séra minn. Sleppum svona innantómu þrasi. Fáum fram staðreyndir um sambandið og reynum eftir bestu getu að meta áhrif þess á íslenska hagi. Einungis með þeim hætti er unnt að komast að vitrænni niðurstöðu um það hvort Ísland eigi að gerast aðili að því eða ekki. Hér þarf að vanda sig því ákvörðunin mun skipta miklu meira máli fyrir Íslendinga framtíðarinnar heldur en þau okkar sem nú eru á dögum og eiga þess (vonandi) kost að kjósa um málið. Þá kjósum við fyrir framtíðarfólkið fremur en okkur og fyrir framtíðarfólkið fremur en þorskfiska og sauðkindur.

Kristján Sveinsson (IP-tala skráð) 2.7.2010 kl. 19:57

6 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Sæll Svavar: Ég held að bæði bændur og aðrir eigi og hafi alltaf haftdraumsýn um gömlu góðu dagana og það komi Evrópusambandinu lítið við að heimurinn breytist sífellt og breytist hratt.  Ég held að vandamál þessa þýska bónda væri ærin en öðruvísi ef það væri engin fríverslun eða eftirlit og hann danglaði með fötuna sína útí fjos eins og forfeður hans. 

Fyrir mér er Evrópusambandið nútíma form á samvinnu þjóða hér í þessum heimshlutam eins og þú svo sem veist.

Kveðja norður.  baldur

Baldur Kristjánsson, 3.7.2010 kl. 11:38

7 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Heill og sæll, Baldur, ég heimsótti þennan bónda haustið 2008. Ekki er ég viss um að landbúnaður utan ESB sé stundaður eins og þú lýsir honum.

Svavar Alfreð Jónsson, 4.7.2010 kl. 15:33

8 Smámynd: Inga Sæland Ástvaldsdóttir

Heill og sæll Svavar minn , gaman að sjá þig hér :) Verðum að fara að hætta að hittast vona :) Hvað varðar ESB pælingar þá hef ég verið neytandi í einu slíku landi um nokkurn tíma og get því gert ágætis samanburð á almennri neysluvöru heima og hér ( Spánn ) Það er ljóst að margir vöruflokkar hér eru alls ekkert ódýrari en heima, þar má t.d nefna smjör, brauð, fisk og innfluttar vörur frá öðrum ESB löndum s.s Toro vörur og margt fl. sem ég fæ ekki skilið af hverju eru svona rosalega dýrar.  Er nú svo glær að ég hélt eftir þetta nám mitt í evrópufræðum að það ríktu tollfrjáls viðskipti milli ESB ríkjanna, en það er svo sannarlega ekki því að dreifa hér.  En snúum okkur nú aðeins í aðra átt eins og t.d að grænmeti, ávöktum, kjötvörum og BJÓR... heheh þá er alveg ótrúlegur verðmunur spánverjum í vil.  Ég kaupi hér í Carrefour 72 bjórdósir á 12 evrur, mér skylst að ég fái rúmlega eina kippu af Viking fyrir það heima. Ef við svo kíkjum aðeins á orkuverðið, úffff þá er það margfalt dýrara hér en heima.  Spánverjar kaupa rafmagn af frönskum kjarnorkuverum og verðið er ævintýralega hátt. Við íslendingar sem eigum þessar ómetanlegu orkuauðlyndir ættum að hugsa okkur tvisvar um áður en við göngum í Bandalagið, ég er ekki viss um nema við það myndum við fórna mun meiri hagsmunum fyrir mun minni.

Inga Sæland Ástvaldsdóttir, 6.7.2010 kl. 14:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband