Blessaðir fordómarnir

Fordómar koma mikið við sögu í umræðu samtímans. Fólk er sakað um að vera fordómafullt. Það er talinn mikill kostur að vera fordómalaus.

Fordómar lýsa sér í því að maður hefur hugmyndir um hluti án þess að þekkja þá. Þegar ég kem til einhvers lands í fyrsta skiptið geri ég mér til dæmis alls konar grillur um það hvernig landið sé. Það eru fordómar. Sumir fordómanna reynast svo réttir en aðrir rangir. Þegar ég fór á námskeiðið um heilaga Teresu um daginn vissi ég nánast ekkert um hana en hafði samt óljósa mynd af henni sem reyndist síðan ekki passa við veruleikann nema að takmörkuðu leyti. Fólk er með ýmsar hugmyndir um presta, hvernig þeir eigi að líta út og hugsa. Þegar ég var ungur prestur fann ég sterklega fyrir því að oft kom klæðaburður minn og þankagangur fólki á óvart. Ég var ekki eins og það hafði haldið. Nú er ég eldri og fell betur að ímynd hins vambsíða pokaprests þótt ég voni  að ég sé ekki alveg hættur að gera fólk hissa.

Fordómar eru nauðsynlegir og öll höfum við eitthvað af þeim. Uppspretta fordómanna eru í málinu, trúnni, menningunni, heimilinu, skólanum, fjölskyldunni og síðast en ekki síst í fjölmiðlunum. Dr. Kristján Kristjánsson ritaði einu sinni skemmtilega grein sem hann nefndi "Fjársjóður fordómanna". Þar lýsir hann því hvernig nýta megi sér fordóma fólks í siðfræðikennslu. (Greinin er í ritinu "Hvers er siðfræðin megnug? Safn ritgerða í tilefni tíu ára afmælis Siðfræðistofnunar, Reykjavík 1999)

Maðurinn er eiginlega ekkert nema fordómar. Það sem sköpum skiptir er hversu reiðubúin við erum til að endurskoða hugmyndir okkar um fyrirbærin, meta afstöðu okkar upp á nýtt og segja skilið við þá fordóma sem ekki eiga við rök að styðjast. Fræðsla er eitt vopn gegn röngum fordómum og hún nýtist líka við að styrkja og dýpka þá sem reynast réttir.

Sumir fordómar eru skaðlegir bæði fyrir þann sem þeim er haldinn og það sem þeir beinast að. Í mörgum tilfellum reynist ekki unnt að uppræta slíka fordóma með fræðslu. Þá þarf að höfða til fyrirbæris sem er held ég býsna vanmetið í samtíð okkar: Viljans. Það þarf m. ö. o. að mótívera fólk til að láta af fordómum sínum.

Erfiðustu tilfellin eru auðvitað fólk sem er sannfært um að það sé fordómalaust. Ef til vill má orða það þannig að sá sem telur sig lausan við hvers konar fordóma sé haldinn mjög skaðlegum fordómum um sig sjálfan.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið rétt, það er enginn fordómalaus (þótt sumir vilja halda öðru fram). Sjálf hef ég fordóma gagnvart ýmsu, og hef oft verið minnt á það síðan ég flutti hingað til Bretlands. Hins vegar er ég að mildast í mörgum af þessum fordómum og tel ég það vera hluta af þroskaferli okkar, að kynnast hlutunum og velta fyrir okkur af hverju þeir eru eins og raun ber vitni. Einnig það að sjá að hlutirnir eru ekki endilega réttastir á þann hátt sem við þekkjum þá. Um leið og við erum fær um það, þá hættum við að fordæma þá.

Mörgum hlutunum hef ég bölvað hérna í Bretlandi og borið saman við paradísina Ísland, þar sem allt gerist á hraða ljóssins og allt er svo "fullkomið". Við nánari athuganir hef ég þó séð að það er ekki endilega allt best og réttast á Íslandi :)

Þorgerður (IP-tala skráð) 27.4.2007 kl. 23:41

2 identicon

Skemmtilegir þankar um fordóma eins og annað sem þú skrifar. Og tímabærir.
Takk fyrir síðast, Kinnafjöllin standa alltaf fyrir sínu og það er alltaf gott veður á Húsavík.

Adda Steina (IP-tala skráð) 28.4.2007 kl. 10:15

3 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Svavar, takk fyrir athyglisvert innlegg. Alveg nýr vinkill á málið fyrir mig og aldrei hef ég spáð raunverulega í hvað þetta orð þýðir; ''Fordómar''. Dæmt fyrirfram. Athyglisvert! Orð sem er búið að gera neikvætt en þarf ekki að vera það. Orðið ''dómur'' er ansi neikvætt í hugum okkar býst ég við. Það er sennilega þess vegna sem fæstir vilja kannast við að vera fullir af fordómum eða fordómafullir. Nei, nú er ég hætt.

Jóna Á. Gísladóttir, 28.4.2007 kl. 16:05

4 Smámynd: Pétur Björgvin

En fordómar geta þá aðeins verið fjársjóður ef viðkomandi er kunnugt um að hann hefur fundið slíkan fjársjóð og þarf að koma honum í banka til að skipta honum í ,,rétta" mynt. Annars eru fordómarnir þungur böggull að bera fyrir samfélagið allt.

Pétur Björgvin, 28.4.2007 kl. 20:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband