Lífsstíll vanþakklætisins

Neysla okkar drífur áfram efnahagslífið. Ef örva á það þarf að örva okkur til neyslu. Spenna bogann. Hafa sælgætið í augnhæð barna við afgreiðslukassana til að unnt sé að nota þau sem vopn á veski foreldranna. Leika neysluhvetjandi tónlist í mollunum. Kosta stjarnfræðilegum upphæðum til auglýsingagerðar þar sem við erum eggjuð til innkaupa og fjárfestinga. Meðaljóninn í vestrænu samfélagi er talinn verða fyrir um það bil tólfhundruð auglýsingaáreitum á degi hverjum.

Þessar aðferðir skila árangri. Neyslan eykst. Við verðum ríkari - en fáum samt aldrei nóg. Við megum ekki fá nóg því þá erum við mett og ekki eftir neinu að slægjast lengur. Þá kemur stoppið stóra, sjálft svarthol kapítalismans.

Þess vegna neyðist markaðurinn til að ala á óánægju okkar. Við megum ekki vera fullnægð. Hæfileg vansæld er nauðsynleg því annars myndi ekkert seljast lengur.

Við megum ekki standa í þeirri meiningu að við eigum nóg. Við eigum að vera vanþakklát. Ekki horfa of mikið á það sem við höfum. Frekar að vera upptekin af því sem við höfum ekki. Ekki hugsa um það sem við erum. Frekar að velta því fyrir okkur hvað við gætum orðið. Ekki hugsa um fiskana sem komu í netið. Frekar að vera á bömmer yfir þeim sem fá að synda um óáreittir í höfunum. Við eigum ekki að hugsa um daginn í dag. Frekar að hafa áhyggjur af morgundeginum.

Til að breyta þessu þarf kraftaverk fiskanna tveggja og brauðanna fimm. Það undur er í því fólgið að vera þakklát fyrir það sem við höfum.

Kraftaverk fiskanna tveggja og brauðanna fimm vekur hjá þér tilfinninguna fyrir því að þér kann að vera ótrúlega mikið gefið í lítilræðinu. Í deginum í dag og manneskjunni sem andspænis þér stendur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Frábærlega vel skrifað hjá þér Svavar. Ég segi bara til hamingju með daginn og vona að þú gleðjist yfir því sem þú ert, átt og hefur  ...

Hólmgeir Karlsson, 12.5.2007 kl. 12:10

2 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Það má Guð vita að maður tekur þátt í þessari vitleysu. Því miður.

Jóna Á. Gísladóttir, 12.5.2007 kl. 13:59

3 Smámynd: Árni Svanur Daníelsson

Takk fyrir þennan pistil Svavar, þú hittir naglann á höfuðið.

Árni Svanur Daníelsson, 12.5.2007 kl. 20:28

4 Smámynd: Pétur Björgvin

Áhugavert að skoða að þessi einkaneysla er mjög hátt hlutfall (15% minnir mig) af því sem drífur áfram hagvöxtinn hér á meðan að einkaneysla hefur lítið sem ekkert að segja hvað hagvöxt í Þýskalandi varðar. Takk fyrir hugleiðinguna.

Pétur Björgvin, 12.5.2007 kl. 21:19

5 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Þetta áreiti er einsog versti heilaþvottur, ég stóð mig að því fyrir ein jólin, var ég búin að kaupa allar jólagjafirnar í nóvember,gott mál, en þegar að leið á desember var ég farin að kaupa allskonar dót til viðbótar í pakkana! Þá slökkti ég á heilaþvottinum og hlustaði á góða músik alla aðventuna

Guðrún Sæmundsdóttir, 13.5.2007 kl. 16:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband