Sameinuð gegn trúleysinu

Árið 1893 var haldinn mikill fundur trúarleiðtoga í borginni Chicago í USA, í tengslum við heimssýninguna. Fór ekki Matti Jokk á hann? Dr. Grímur nokkur Thomsen skrifar um þennan fund í Kirkjublaðið (mánaðarrit handa íslenskri alþýðu) 1895. Það er fróðleg grein. Á trúarþingið komu 170 fulltrúar, búddistar, áhangendur Konfúsíusar, hindúar, fylgjendur Múhameðs spámanns, kristnir, Gyðingar og meira að segja agnostíkerar.

Grímur bendir á að trúarþing séu ekki ný af nálinni. "Þegar einstakir menn og fjelög manna finna sjer hættu búna af innri eða ytri óvin, þá gjöra menn samtök með sjer til varnar," segir hann og bætir við að krossferðirnar séu runnar af þessari rót. Reynt var að sameina grísku og rómversku kirkjurnar á kirkjufundinum í Flórens árið 1439 til að verjast árásum Tyrkja.

"Sá óvinur, sem nú ógnar ekki að eins hinum sjerstöku kirkjufjelögum, heldur trúnni yfir höfuð og hinu innra lífi hvers hugsandi manns, er guðleysið og trúleysið, byltingar- og óstjórnarflokkarnir. Hinir einstöku trúflokkar eru vaknaðir til þeirrar viðurkenningar, að þeir hafi annað þarfara að gjöra, en rífa hver annan niður og þrátta um hinar og þessar kreddur; þeir finna, að nú þarf að gjöra samtök til að verja sjálfan arna allrar trúar, sjálft altari hins sanna Guðs," skrifar dr. Thomsen um tildrög trúarþingsins.Barrows

Forvígismaður þingsins var presbýterapresturinn séra John Henry Barrows. "Í umburðarbrjefi, sem hann sendi út um allan heim, tók hann fram, að meiningin með fundi þessum væri eigi sú, að vekja þrætur, heldur að sýna fram á samhljóðanir allra trúarbragða sín á meðal," segir Grímur.

Ekki tóku allir vel í boðsbréfið. Tyrkjasoldán bað sig afsakaðan og erkibiskupinn í Kantarabyrgi á Englandi afgreiddi það mjög snyrtilega. Kvað kristindóminn hina einustu trú og aðrar væru eigi til. Páfinn gaf á hinn bóginn samþykki sitt fyrir því að kaþólskir biskupar færu til samkomunnar.

Þingið stóð í 16 daga og voru þrír fundir daglega. Séra Barrows sagði í setningarræðu: "Tilgangur vor er að mynda heilagt samband milli allra trúflokka gegn trúleysinu, og koma á bróðurlegu samkomulagi milli allra, siðferði og kærleika til vegs og virðingar."

Grímur segir alla fulltrúa hafa komið kurteislega fram og auðsýnt hver öðrum virðingu og velvild. Margir kristnir menn furðuðu sig á því hversu vel þingfulltrúar af öðrum trúarbrögðum voru að sér í Biblíunni og gátu jafnvel flokkast undir það að vera "biflíufastir" eins og Grímur orðar það. Þetta hefur verið stórmerkilegt þing og til þess fallið að eyða fordómum og miðla þekkingu og reynslu milli trúaðra. "Eitt af því sem vannst við fundinn í Chicago, var rjettari og betri þekking á kjarna Búddha, Brahma og Zóróasters trúnna," skrifar Grímur.

Þegar ég las grein Gríms um þetta mikla þing fór ekki hjá því að mér fyndist ósköp lítið hafa breyst í veröldinni frá því það var haldið og ekki sé síður þarft að efna til slíkrar samveru nú en þá. Sá grunur minn staðfestist við lestur á kaldhæðnislegum niðurlagsorðum doktorsins:

"Um tekjur kirkna og presta var ekkert talað á Chicago-fundinum."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Einhvers staðar á leiðinni hafa menn misstigið sig illilega. Ekki veitti af slíku takmarki í dag.

Jóna Á. Gísladóttir, 5.6.2007 kl. 22:06

2 identicon

Er samráðsvettvangur trúfélaga ekki nútíma útgáfa af þessu?

A.m.k. get ég ekki séð hvað trúarhóparnir í þeim hópi eiga að sameinast um - annað en stríðið gegn trúleysinu.  Nema hugsanlega fordóma gegn samkynhneigðum.

Matthías Ásgeirsson (IP-tala skráð) 6.6.2007 kl. 15:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband