San Galgano

Undanfarna mánuði hef ég bloggað hér um staði nálægt hóteli okkar Akureyringanna á Ítalíu nú í sumar. Nú hefur einn dyggur lesandi bloggsins míns gefið mér tilefni til að ræða hér um stað sem ég heimsótti á Ítalíu fyrir nokkrum árum. Ég tek fram að frásögn þessi er eftir minni mínu og gloppótt eins og það. Bið ég þá sem betur vita að leiðrétta mig fari ég rangt með.Sverðið í San Galgano

San Galgano heitir staðurinn. Fyrir mörgum öldum var þar ekkert nema einsetumaður. Sagan segir að dag einn hafi málaliði nokkur, kunnur fyrir hugprýði og bardagagleði, komið við hjá einsetumanninum. Þeir tóku tal saman og við það urðu straumhvörf í lífi riddarans. Hann ákvað að hætta að höggva mann og annan, dró sverð sitt úr slíðrum og stakk því í stein í bústað hins helga manns.

Þar er sverðið enn og barði ég það augum, á kafi í grjótinu upp að hjöltum. Ég er viss um að vantrúaðir menn hefðu gaman af að skoða sverðið - þó ekki væri nema til að dunda sér við að finna skynsamlegar skýringar á staðsetningu þess.

Sverðið í steininum dró að sér fjölda forvitinna ferðamanna og pílagríma. Ekki leið á löngu uns búið var að byggja yfir það kapellu. Kapellunni fylgdu munkar og yfir þá þurfti að byggja hús. Eftir nokkur ár var komið klaustur í San Galgano. Síðan settist þar að biskup og reist var vegleg kirkja á staðnum. Upp rann blómatími San Galgano - en hnignunin tók við af honum, eins og lög gera ráð fyrir. Stríð braust út og mennirnir voru búnir að finna upp byssuna. Í þær þurfti kúlur og til þess að búa til kúlurnar þurfti blý. Brátt varð hörgull á blýi og það sem fékkst var á uppsprengdu verði. Þáverandi biskup í San Galgano sá sóknarfæri í stöðunni til að auka enn á vegsemd staðarins og auð. Hann hóf að fjarlægja blýnagla úr þaki hinnar miklu kirkju sinnar.SANGALGANO1 Þeir voru seldir og úr þeim steyptar kúlur til að drepa menn. Peningarnir flæddu til San Galgano. Mikið vill meira - þannig er græðgin - og nöglunum í kirkjuþakinu fækkaði stöðugt eftir því sem blýkúlugróðinn jókst.

Auðvitað endaði þetta með því að þakið féll niður og þannig er kirkjan  í San Galgano enn þann dag í dag. Hún er þaklaus minnisvarði um græðgina.

Sverðið í steininum er á hinn bóginn merki um að manneskjan er fær um að iðrast gerða sinna, söðla um og hefja nýtt líf.

San Galgano er ekki langt frá borgunum Volterra og Siena ef ykkur langar þangað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Skemmtileg lesning. Ég velti því fyrir mér hvort atburðir skapi söguna eða sagan atburði, ef þú veist hvað ég meina. Er eiginlega bara að reyna að segja að ég hef gaman af því að velta því fyrir mér hvort t.d. þessar tvær sögur séu sannar. Ef riddarinn raunverulega rak sverð sitt í stein, alveg upp að hjöltum þá er ljóst að ævintýrin raunverulega gerðust í den

Jóna Á. Gísladóttir, 8.6.2007 kl. 22:48

2 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Ég er nú svo jarðbundin, að ég held að þetta sé þesstíma  sniðug hugmynd , leikmyndin búin til og síðan sagan sköpuð fyrir sverðið. Peningar eru aldrei langt undan, eða völd..halda lýðnum í skefjum. Er ég kannski voða illa þenkjandi???

Rúna Guðfinnsdóttir, 9.6.2007 kl. 03:37

3 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ég held að ævintýrin hafi gerst í denn, einhvern veginn, og séu jafnvel enn að gerast, einhvern veginn, eða eins og segir í slagaranum: "Sjalasjalala, ævintýrin e-enn gerast...". Auðvitað rak riddarinn sverðið sitt í steininn (sem ef til vill hefur verið sandsteinn þá en harðnað með tímanum?) en það skiptir ekki höfuðmáli. Það sýnir bara hversu ferköntuð við erum að þegar við heyrum þessa fallegu sögu um sinnaskipti riddarans þá er allt í einu orðið aðalatriði hvort einhver steinn hafi verið harður eða mjúkur. Almennileg ævintýri eiga að ögra raunveruleikanum eins og við teljum okkur trú um að hann sé.

Svavar Alfreð Jónsson, 9.6.2007 kl. 09:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband