Hjónabandið® og borgaralegar athafnir

brudhjonEinn áheyrilegasti bókmenntagagnrýnandi þjóðarinnar sagði nýlega á bloggsíðu sinni að hjónabandið væri borgaraleg stofnun og kirkjunni óviðkomandi. Einn besti penni landsins tók undir þetta í blaðagrein og sagði ekki rétt að hjónavígslan væri á einhvern hátt í eðli sínu kirkjuleg.

Þessir mætu menn hafa nokkuð til síns máls. Eins og ég hef áður bloggað um eru rætur hjónabandsskilnings miðalda í rómverskum rétti. Til hjónabands var stofnað með samkomulagi aðila sáttmálans. Hvorki kirkjan né borgaraleg yfirvöld þurftu að koma þar við sögu.

Mjög snemma í sögu kirkjunnar varð siður að efna til brúðarmessu eftir að hjónabandssáttmáli hafði verið gerður. Þar var hjónabandið blessað og sáttmáli hjónanna staðfestur. Þannig var þetta fram á daga Karlamagnúsar (747 - 814).

Lengi var hjónabandssáttmálinn eitt og blessun hans af kirkjunni annað. Helsta orsök þess að hvort tveggja færðist inn í kirkjuna er talin vera sú venja að gera hjónasáttmálann fyrir dyrum þeirrar kirkju þar sem brúðarmessan átti að fara fram.

Um 1200 fara prestar að taka að sér að gera sáttmálann auk þess að veita honum blessun Guðs og um svipað leyti festir hjónabandið sig í sessi sem sakramenti í kaþólsku kirkjunni.

Lúther taldi hjónabandið ekki til sakramenta og leit á það sem veraldlegan gjörning ("ein weltlich ding"). Hann aðhylltist tvískiptingu hjónavígslunnar og í riti sínu frá 1529 gerir hann ráð fyrir að prestur staðfesti hjónasáttmála fyrir kirkjudyrum en blessi hann svo inni í kirkjunni. Tilefni hinnar kirkjulegu athafnar er að mati Lúthers ekki annað en að brúðhjónin óska eftir fyrirbæn sér til handa ("ein gemein christlich gebet").

Þó að ég sé sammála Lúther, gagnrýnandanum og rithöfundinum um að hjónabandið sé þessa heims hlutur get ég ekki tekið undir það að kirkjunni komi það ekki við eða megi ekki hafa á því skoðun. Sögulega hefur kirkjan sennilega haft meira með hjónabandið að gera en borgaraleg yfirvöld. Hvorki kirkjan né hið veraldlega vald getur þó slegið eign sinni á hjónabandið.

Ekki er ég á móti borgaralegum athöfnum við tímamót í lífi mannsins en mér finnst óþarft að mæla þeim bót með því að gefa í skyn að í raun komi slíkir siðir kirkjunni ekkert við.

Og er hægt að hugsa sér öllu jarðneskara fyrirbæri en greftrun? 

Getur hún á einhvern hátt talist "kirkjuleg í eðli sínu"?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sólveig Hannesdóttir

Góður pistill. Kv. sh.

Sólveig Hannesdóttir, 25.9.2007 kl. 16:14

2 Smámynd: krossgata

Mér virðist að sama hverrar trúar fólk er og svo langt aftur sem heimilidr finnast þá tengjast tilteknir atburðir eða áfangar í lífi fólks andlegum "stofnunum" samfélagsins.  Manndómsvígslur, hjónabönd, greftranir.  Tengist kannski þörf mannsins fyrir samfélg við aðra, ég veit ekki.  En einhverra hluta vegna samtvinnast þetta (andlega og jarðneska) og siðir þróast í hverju einasta samfélagi á hverjum einasta tíma.

krossgata, 25.9.2007 kl. 16:51

3 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ágætis grein og umhugsunarefni.

Haukur Nikulásson, 26.9.2007 kl. 09:22

4 identicon

Freistandi að taka undir þá hugmynd að það þurfi framlengingu á hjónabandi eftir x-ár. Hér sett fram sem sandkorn enda undirritaðu engan veginn hæfur að munda stein í glerhúsi.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 27.9.2007 kl. 10:14

5 identicon

Tja, auðvitað má kirkjan hafa skoðun á öllum sköpuðum (pun intended) hlutum. En afturhaldssamar skoðanir biskups á hjónabandinu eiga ekki að hafa meira vægi en hvaða gagnkynhneigðarrembu sem er þegar kemur að því að setja lög sem gilda um öll hjónabönd.

Og það er hæpið að vitna í söguna til stuðnings því að kirkjan hafi einhvern meiri rétt en önnur félagasamtök eða stofnanir til að segja fyrir um hvað hjónaband er, hvað það á að vera og hverjir mega ganga í það. Það er eitthvað sem er ákveðið á vettvangi hins veraldlega ríkis og af því að við höfum engan furstann sér löggjafinn um það.

Eins og ég benti á í pistlinum sem vitnað er til í þessari færslu er hjónabandið eins og það er lögfest í okkar samfélagi býsna nútímalegt fyrirbæri sem byggir á jafnrétti og trúmennsku, það sama hefur ekki átt við um hjónabandið í rás sögunnar hvort sem kirkjan kom nálægt því eða ekki. Þess vegna skiptir engu máli þótt  kirkjan hafi sennilega haft meira með hjónabandið að gera en borgaraleg yfirvöld.

gagnrynandinn (IP-tala skráð) 27.9.2007 kl. 15:11

6 identicon

Er nú rétt að benda á að víða í heiminum er þessu enn eins farið.  Þ.e. að borgaralegi sáttmálinn og trúarlega athöfnin eru algerlega aðskilin.  Þetta þýðir m.a. að þó "hjón" séu gift í kirkju hefur það alls enga lagalega þýðingu í samfélaginu.

Ásbjörn (IP-tala skráð) 27.9.2007 kl. 20:49

7 Smámynd: Hreiðar Eiríksson

Minn kæri Svavar.  Ég held að hjónabandið sé í nútímaskilningi a.m.k. tvennt.  Annars vegar borgaraleg, lögformleg binding tveggja einstaklinga með tilteknar lögfylgjur hvað varða gagnkvæma framfærsluskyldu, eignadeildir og erfðareglur.  Hins vegar einingaband karls og konu frammi fyrir Guði.  Ég held að mikilvægt sé að rugla þessu tvennu ekki saman né gera lítið úr öðru hvoru.

Víða erlendis, t.d. í Frakklandi, er engin hjónavígsla gild að lögum.  Hinn borgaralegi þáttur hjónabandsins, sá með lögfylgjunar, er algjörlega aðskilin frá hinum trúarlega.  Hjónaefni geta hagað brúðkaupi sínu, frammi fyrir Guði, á hvern þann hátt sem þeim þóknast en slíkar vígslur hafa engar lögfylgjur.  Hjónaefnin eru, í borgaralegum skilningi, áfram hjónaefni þar til þau hafa staðfest hjónabandið frammi fyrir veraldlegum valdsmanni.  Hérlendis hefur vígslumönnum verið falin þessi opinbera skráning og að mínu mati veldur það ruglingi milli hins andlega og veraldlega hlutverks hjónabandsins.

Hreiðar Eiríksson, 27.9.2007 kl. 22:01

8 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Kæri Hreiðar. Mér er fullkunnugt um hvernig þessum málum er háttað í Evrópu. Það er t. d. alltaf dálítið um það að fólk sem hefur gift sig í útlöndum vilji fá blessun íslensku kirkjunnar, hjónavígslu, sem ekki hefur neitt lagalegt gildi. Nýlega annaðist ég þannig athöfn.

Ég held ég geti fullyrt að hjónaefni gera sér yfirleitt mjög vel grein fyrir lagalegri og trúarlegri hlið hjónavígslunnar. Hefðin fyrir kirkjulegri hjónavígslu er löng hér á landi en ekki sé ég ástæðu til að efast um að Íslendingar viti að þeir geta líka gift sig borgaralega - án aðkomu kirkjunnar.

Stór hluti Íslendinga velur engu að síður að gifta sig í kirkju. Það segir sína sögu - þó að ég dragi ekki í efa að hjónabandið sé veraldleg stofnun eins og ég segi í pistlinum.

Svavar Alfreð Jónsson, 27.9.2007 kl. 22:42

9 Smámynd: Hreiðar Eiríksson

Alveg er ég hjartanlega sammála þér, Svavar minn.  Allar þær vígsluathafnir sem trúfélög eru beðin að framkvæma og þau vilja framkvæma samkvæmt kenningum sínum, koma þeim að sjálfsögðu við og engum öðrum. 

Hitt er svo annað mál að borgaralegir löggerningar eru ekki á könnu trúfélaga þótt sjálfsagt sé fyrir trúfélög að hafa skoðun á þeim.  Kerfið sýnir hins vegar forstöðumönnum trúfélaga það traust að fela þeim skráningu tiltekinna vígsluathafna, sem ætlað er að hafa réttaráhrif, til að þegnarnir þurfi ekki að lýsa vilja sínum tvívegis, fyrst frammi fyrir Guði og svo frammi fyrir mönnum.

En einkaleyfi á hjónabandinu hafa trúfélögin ekki og eiga ekki að hafa sterkari rödd, varðandi ákvörðun um borgaralegt innihald þess, heldur en hver og einn safnaðarmeðlimur.

Það er hins vegar fagnaðarefni, sem þú lýsir, hve margir Íslendingar sjá ástæðu til að ganga í hjúskap frammi fyrir Guði, hvort sem það er í kirkju eða öðrum Guðs húsum (reyndar fást ekki enn leyfi til að byggja önnur Guðs hús).

Hreiðar Eiríksson, 28.9.2007 kl. 14:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband