Hrossakjötsveður

snowstorm[1]Tvo vetur bjó ég í útlöndum og þar kom aldrei stórhríð. Aldrei fékk maður afsökun fyrir því að vera heima hjá sér. Neyddist til að fara út alla daga.

Þetta eru einhverjir alhörðustu vetur sem ég hef lifað.

Nú er vont veður fyrir sunnan og ég öfunda fólkið þar. Vel má njóta óveðurs kunni maður til verka.

Hægt er að skríða upp í sófa með góða bók, hlusta á gufuna, kveikja á kertum og ráða krossgátur. Það má skrifa snilldarblogg eða lesa þau - eins og þú ert einmitt að gera núna.

Gráupplagt er að nota svona veður til að véla um splunkunýjan borgarstjórnarmeirihluta.

Ólafsfirðingar höfðu fyrir sið að sjóða hrossakjöt þegar brast á stórhríð. Hrossakjöt þarf langa suðu. Óþarfi er að taka fram að fátt mígur meira í munni en spikfeitt hrossakjöt.

Myndin með færslunni er víst tekin í Gúlaginu. Hríðarbylur minnir okkur líka á að þó að margt herji á okkur á Fróni er samt skárra hér en víða annars staðar.

Nú er veðrið að versna hérna fyrir norðan. Þetta er reyndar ekki alveg heiðarleg stórhríð, grenjandi norðanátt með glerhörðum snjókornum sem grafast inn í andlitið á manni, heldur frekar gruggugur sunnanstormur.

Nú er ekki eftir neinu að bíða.

Ég brýst til búða á hömmernum og fæ mér saltað hrossakjöt með hnausþykku og sólskinsgulu spiklagi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Viðar Hilmarsson

Á þessum endalokum hefði nú Sörli sennilega ekki átt von á, enda hans líkir löngum taldir heiðinna manna matur. Engu að síður: Guð blessi prestinn meðan hann gæðir sér á hrossó með spiki og tilheyrandi meðlæti.

Helgi Viðar Hilmarsson, 25.1.2008 kl. 17:53

2 Smámynd: Brattur

... í stórhríðum á Ólafsfirði forðum var gott að vera inni og horfa á hríðarbylinn fyrir utan lemja allt sem fyrir varð... einu sinni björguðum við félagar Svarfdælingi úr fönn, drógum hann heim í hús og hlustuðum á Hvíta albúmið með Bítlunum fimm sinnum, öll lögin, þar til stytti upp... ObladíOblada...

Brattur, 25.1.2008 kl. 19:12

3 identicon

Mér finnst þessi tilhugsun alltaf jafn dásamleg - en þá sjaldan að gerir slík veður, verður einhvern veginn ekkert af þessum ofangreindu notalegheitum. Þess í stað tekur við - bið - bið eftir fréttum af færð, bið eftir því að heyra tilkynningu frá Fræðsluskrifstofu um að skólahald falli niður, vera reddý að rjúka til þegar veðri slotar, til þess að komast í vinnu o.s.frv. Heyrðu - ég er algerlega að verða búin að eyðileggja ánægju mína og þá notalegu tilfinningu sem lesturinn veitti mér, þessa sömu góðu tilfinningu sem ég fæ þegar ég hugsa um slík veður. Vera algerlega veðurtepptur og komast hvorki lönd eða strönd. Ísskápur fullur af mat - og akkúrat þeim mat sem mann langar í, helst þarf að vera til nóakonfekt - næg mjólk í kakó og Gouda sterkur ofan á brauð.

Í mínum ,,viltustu" draumum verður rafmagnslaust! ..... en ef það gengur eftir, verður ekki hægt að elda allan góða matinn, ekki hægt að búa til kakó, ekki hægt að blogga eða lesa skemmtileg blogg........

Alma Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 26.1.2008 kl. 00:33

4 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Ég ligg uppi í rúmi með tölvuna í kjöltunni. Þetta er síðasta eðalbloggið sem ég les áður en ég slekk ljósið og leggst á koddann. Vindurinn lætur hátt fyrir utan gluggann og sælan er algjör. Það er svo sannarlega hægt að njóta óveðurs á margan hátt. Ef maður hefur í hlýtt hús að venda.

Jóna Á. Gísladóttir, 26.1.2008 kl. 02:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband