Maðurinn með ljáinn skemmtir landanum

draugurAllt skal vera skemmtilegt. Fréttirnar. Jafnvel hörmulegustu tíðindi verða að hafa afþreyingargildi þegar þau eru borin okkur. Einhver kvartaði undan því að umfjöllun um efnahagsmál væri leiðinleg. Mér finnst að umfjöllun um efnahagsmál sé hvorki áhugaverð né fagleg nema hún sé að minnsta kosti hundleiðinleg líka.

Messurnar eiga að vera skemmtilegar. Prestarnir fyndnir. Kirkjukórarnir eiga að syngja skemmtileg lög. Organistinn á að iða af fjöri. Það liggur við að gamla konan hafi hitt naglann á höfuðið þegar hún sagðist oft fara á útfarir. Þær væru eina skemmtunin sem hún leyfði sér nú orðið.

Fyrr á tíð var gengið aftur landsmönnum til hrellingar. Vofur höfðu í frammi kvikyndislega hrekki og beittu hvers konar Þorgeirsbolabrögðum til að fá hárin á fólki til að rísa. Þurfti að hafa mikið fyrir því að kveða niður draug. Stundum dugði ekkert minna en að gera hann höfðinu styttri og leggja það við þjó hans.

Nú er búið að hotta öllu því illþýði suður yfir heiðar og austur fyrir fjöll þar sem ekkert er nema galopin flatneskjan og hvergi dimm gil í að leynast. Afturgöngum landsins er komið haganlega fyrir á þar til gerðu safni á Stokkseyri þar sem þær eru til sýnis fyrir kalla með derhúfur, kellingar í flíspeysum og ofdekraða krakkaorma með sleikipinna. Þvílík niðurlæging.

Haldnir eru miðilsfundir í útvarpinu. Amma og afi tala úr dulheimum undir lyftutónlist. Við heyrum skilaboð að handan og fáum okkur flögur með ídýfu.

Það er sko líf eftir dauðann. Bæði líf og fjör.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Já tek undir það, þetta er skemmtileg lesning

Margrét St Hafsteinsdóttir, 5.3.2008 kl. 15:39

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Sumir draugar voru með kynferislega misnotnkun á lifendur og voru ansi nastý.

Sigurður Þór Guðjónsson, 10.3.2008 kl. 00:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband