Íslensk umræðugreining ehf

Álitsgjafar fjölmiðlanna sögðu IMF Íslands einu von.

Örstutt er síðan þeir fögnuðu ákaflega þegar samningurinn við IMF var í höfn.

"Þótt fyrr hefði verið!" sögðu þeir. "Loksins!" "Mikið var!"

Liðlega einum sólarhring síðar liggja fyrir fyrstu afleiðingar þessa samnings.

Hækkun á svívirðilegum stýrivöxtum.

Og þá finna þessir sömu menn afurðum samningsins allt til foráttu.

Eins og þær hefðu átt að koma á óvart.

Ég átta mig ekki alveg á þessu.

Og þó.

Hér á landi virðist hafa skapast sú hefð að fylgja málefnum meðan þau eru vænleg til vinsælda og að hugmynd sé ekki góð nema rétt manneskja hafi fengið hana.

Íslendingar eru afspyrnulélegir í hugsjónum.

Hér er bútur úr ræðu sem séra Sigurbjörn Einarsson heitinn flutti í samkomusal Mjólkurstöðvarinnar 12. desember 1948:

Það er sanngjarnra manna háttur að láta jafnvel andstæðinga njóta þess, er þeir fylgja góðum málstað, og þeir, sem af alvöru fylgja máli, sem þeim er hjartans mál, gleðjast yfir slíku. En sá er ekki háttur stjórnmálamanna á Íslandi yfirleitt. Það virðist í þeirra augum ráða úrslitum um málstaðinn, hverjir fylgja honum.

(Sigurbjörn Einarsson, Draumar landsins, Reykjavík 1949, bls. 138)

Annað: Hér fyrir norðan er gömul vísa gengin aftur enda skyndilega orðin viðeigandi. Hún hefur sennilega orðið til þegar verðbólgan æddi um og gleypti í sig allt sem fyrir varð. Mér er sagt að höfundurinn hafi verið Bjarni sálugi úrsmiður og vona að ég muni vísuna rétt:

 

Hugarvíl og harmur dvín

er horfi ég á frúna.

Hún er eina eignin mín

sem ekki rýrnar núna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Egill Jóhannsson

Þetta er áhugaverð ábending hjá þér. Ég kalla þetta í nýlegri færslu á blogginu hjá mér hókus pókus lausnir.

Umræðan hjá okkur gengur nánast öll út á einhverskonar sjónhverfingar. Hókus pókus lausnir.

IMF átti að vera hókus pókus lausn en síðan kemur í ljós að honum fylgja skilyrði.

Ákall á ESB og evru núna er nákvæmlega sama hókus pókus lausnin. Síðan þegar farið verður af stað þá munu menn segja.

"Ha! Við viljum ekki þessi skilyrði." Þrátt fyrir að menn viti fyrirfram líkur á tilteknum skilyrðum. Eins og með IMF. Það var vitað með allmikilli vissu að stýrivaxtahækkun yrði skilyrði.

Egill Jóhannsson, 29.10.2008 kl. 01:08

2 identicon

Ég hugleiddi þetta eftir fréttir í gærkvöldi. Að ekki ber allt upp á sama daginn. Þar er vitnað í Þorgerði menntamálaráðherra sem sem opnar á hugsanlegar viðræður um evruna og aðild að EBE..Það er vart mánuður síðan hún þvertók fyrir þann möguleika. Ég held að málið sé svo risavaxið að þjóðstjórn sé málið. Öll eigum við rétt á að skipta um skoðun. En ég tel núna að við þurfum alla þá er vettlingi geta valdið í stjórnsýslunni til þess að vinna saman.

Þegar séra Sigurbjörn heldur þessa ræðu er ég rétt eins árs barn heima í Eyjum, þarna eru liðin rétt sextíu ár og ræða hans stendur fyrir sínu sem aldrei fyrr. Okkur miðar frekar hægt

Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 29.10.2008 kl. 09:34

3 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Þakka fyrir góðan pistil.Mér fynnst hörmung að draga fram alla þessa hagfræðinga í fjölmiðlum sem tala sitt á hvað mest eftir pólitískum skoðunum.

Ragnar Gunnlaugsson, 29.10.2008 kl. 10:46

4 identicon

Kær vinkona mín sendi mér vísuna í tölvupósti fyrir nokkrum dögum.

Ég svaraði henni á hraðbergi svona:

Já, hugarvíl og harmur dvínar
er horfa menn á konur sínar
kveikja bál í gömlum glóðum
og gleyma týndum bankasjóðum.

Kveðja

oliagustar (IP-tala skráð) 29.10.2008 kl. 12:02

5 identicon

Til hamingju með afmælið

Sigga systir (IP-tala skráð) 29.10.2008 kl. 13:14

6 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Þakka kærlega fyrir góðan pistil. Því miður er svo hörð samkeppni um að segja frá því sem er að gerast að fjölmiðlar virðast ekkert mega vera að því að skoða sannleiksgildi þess sem þeir bergmála.  Þess vegna er engin leið að koma því að hjá fjölmiðlum að engin fylgni er á milli refsivaxta Seðlabanka, sem nú kallast stýrivextir, og útlánavaxta bankanna, sem ákveðnir eru af bönkunum sjálfum.

Sigurbjörn heitinn, var afskaplega djúpvitur maður og mörg gullkorn frá honum komin. Það sem í ræðubút hans er nefnt, hef ég reynt á eigin skinni, því í hagdeild banka var ég talinn ráðsnjall og úrræðagóður, þar til ég vildi ekki leggja nafn mitt við atriði sem þar voru gerð og sagði upp starfi mínu. Síðan hefur allt verið vitleysa sem ég segi;þó það gangi yfirleitt fram farsællega.

Orð Sigurbjörns eru því enn í fullu gildi. 

Guðbjörn Jónsson, 29.10.2008 kl. 17:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband